Metaðsókn á Safna- og Sundlauganótt

Í Bókasafni Kópavogs var boðið upp á völundarhús þar sem Harry Potter og félagar aðstoðuðu þátttake…
Í Bókasafni Kópavogs var boðið upp á völundarhús þar sem Harry Potter og félagar aðstoðuðu þátttakendur í ratleik.

Safnanótt og Sundlauganótt í Kópavogi tókust með eindæmum vel, aðsókn var mjög góð enda frábær skemmtun í boði.

Fjölbreytt dagskrá Menningarhúsanna á Safnanótt sló aðsóknarmet en alls sóttu nærri fjögur þúsund manns nutu viðburða á Bókasafni Kópavogs, Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Héraðsskjalasafni auk Kópavogskirkju. Opnunatriði Safnanætur var vörpun videóverks Doddu Maggýjar á Kópavogskirkju en atriðið markaði upphaf söfnunarátaks vegna viðgerða á kirkjunni. Sýnt var beint frá opnuninni í sjónvarpi og óhætt að segja að verkið hafi vakið mikla athygli en tónlistarhópurinn Umbra spilaði tónlist í kirkjunni  í kjölfarið.

Á Bókasafni Kópavogs tóku um tvö þúsund manns þátt í Harry Potter-ratleik, völundarhúsi  þar sem Harry Potter og félagar aðstoðuðu þátttakendur, vísindastund og fleiri viðburðum sem voru ætlaðir allri fjölskyldunni en áhugasamir gestir skoðuðu einnig margmiðlunarsýningu á Náttúrufræðistofu.

Í Gerðarsafni var ekki aðeins boðið uppá dagskrá fyrir áhugafólk um myndlist heldur var næntísbíó í samstarfi við Bíó Paradís vel sótt en boðið var uppá ósvikna bíóstemningu. Garðskálinn tók þátt í að gera andrúmsloft Gerðarsafns notalegt en þar var pylsupartý og þéttsetið allt kvöldið.

Hinn fingrafimi bæjarlistamaður Ásgeir Ásgeirsson tróð upp í Salnum ásamt tríói sínu og Sigríði Thorlacius og óhætt að segja að kvöldið hafi verið ljúft fyrir gesti Menningarhúsanna. ​

Daginn eftir fór Sundlauganótt fram í sundlaugum Kópavogs. Góð stemning var í laugunum hjá þeim tæplega 1000 gestum sem sóttu þær heim. Meðal þeirra sem tróðu upp voru Jón Jónsson og Improv Ísland auk þess sem boðið var upp á jóga, slökun og kertaljósastemningu. 

Myndir frá Safnanótt 2017