Bæjarráð

2715. fundur 16. janúar 2014 kl. 08:15 - 10:15 í Fannborg 2, Bæjarráðsherbergi
Fundinn sátu:
  • Rannveig H Ásgeirsdóttir formaður
  • Ármann Kristinn Ólafsson aðalfulltrúi
  • Ómar Stefánsson aðalfulltrúi
  • Guðríður Arnardóttir aðalfulltrúi
  • Ólafur Þór Gunnarsson aðalfulltrúi
  • Hjálmar Hjálmarsson áheyrnarfulltrúi
  • Páll Magnússon bæjarritari
Fundargerð ritaði: Páll Magnússon bæjarritari
Dagskrá

1.1301054 - Mánaðarskýrslur 2013

Frá bæjarritara, mánaðarskýrsla í desember yfir starfsemi í nóvember 2013.

Lagt fram.

2.1201302 - Lindasmári 20. Kæra vegna breytt deiliskipulag.

Frá sviðsstjóra umhverfissviðs, dags. 10. janúar, lögð fram niðurstaða úrskurðarnefndar um að kærumáli varðandi breytt deiliskipulag Lindasmára 20 var vísað frá.

Lagt fram.

3.1312426 - Austurkór 77a, símahús og mastur.

Frá sviðsstjóra umhverfissviðs, dags. 13. janúar, umsögn um erindi Fjarskipta hf. þar sem óskað var heimildar til að setja upp tækjahús og mastur. Mælt er með að Fjarskiptum hf. verði heimilt að koma fyrir tækjahúsi og fjarskiptamastri á lóðinni Austurkór 77a.

Bæjarráð samþykkir að veita Fjarskiptum hf. heimild að koma fyrir tækjahúsi og fjarskiptamastri á lóðinni Austurkór 77a.

4.1312141 - Umsókn um lóð, bílaþvottastöð.

Frá sviðsstjóra umhverfissvið og skipulagsstjóra, dags. 13. janúar, umsögn sem óskað var eftir í bæjarráði um erindi Bónax ehf. til að fá úthlutað lóð fyrir starfsemi sína. Ekki er talið að lóð fyrir slíka starfsemi sé á skipulagi.

Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við erindi Bónax ehf.

5.1304099 - Vatnsendahlíð, gatnagerð 1. áfangi.

Frá sviðsstjóra umhverfissviðs, dags. 13. janúar, varðandi fyrirhugaða gatnagerð í Vatnsendahlíð. Lögð fram fylgiskjöl varðandi afstöðu skiptastjóra til eignarnámssáttarinnar um Vatnsendajörðina. Jafnframt lagt fram minnisblað bæjarlögmanns. Í því kemur fram það mat bæjarlögmanns að afstaða skiptastjóra hafi þau áhrif að fyrirvari útboðslýsingar verði virkur.

Bæjarráð samþykkir með vísan til framlagðra gagna, þar með talinn fyrirvara í verksamningi, að stöðva framkvæmdir við gatnagerð í Vatnsendahlíð. Innan þriggja mánaða verði staðan endurmetin.

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

"Undirrituð minnir á umræðu í bæjarstjórn frá 8. október sl. þar sem fulltrúar Samfylkingarinnar settu fyrirvara við gatnagerð í Vatnsendahlíð sökum réttarlegrar óvissu.

Guðríður Arnardóttir"

Ármann Kr. Ólafsson lagði fram eftirfarandi bókun:

"Meðal annars af þeim sökum voru ríkari fyrirvarar settir í útboðsgögn en nýjar upplýsingar komu fram 16. desember sl.

Ármann Kr. Ólafsson"

Ólafur Þór Gunnarsson lagði fram eftirfarandi bókun:

"Undirritaður hefur frá upphafi ferils málsins lýst fyrirvara sínum vegna þess og þeirrar óvissu sem hefur verið uppi.

Ólafur Þór Gunnarsson"

Bæjarlögmaður og Guðjón Ármannsson hdl. sátu fundinn undir þessum lið.

6.1401594 - RIFF kvikmyndahátíð. Tillaga frá Rannveigu Ásgeirsdóttur.

Tillaga frá Rannveigu Ásgeirsdóttur um kvikmyndahátíð í Kópavogi.

Rannveig Ásgeirsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:

"Undirrituð leggur til að bæjarstjóra og formanni bæjarráðs í samvinnu við framkvæmdastjóra Markaðsstofu verði falið að ræða við framkvæmdastjórn RIFF kvikmyndahátíðar og skoða möguleika þess að hýsa hátíðina.

RIFF kvikmyndahátíðin er 10 ára gömul og hefur skapað sér orðspor og byggt upp sterkt vörumerki hérlendis sem erlendis m.a. á grunni þeirra fagmanna sem sitja í stjórn hátíðarinnar: Baltasars Kormáks og Elísabetar Rónaldsdóttur svo einhverjir séu nefndir og að öðrum ólöstuðum.  Með hliðsjón af því að Reykjavíkurborg hefur hafnað stuðningi við hátíðina og henni verið úthýst úr fyrrum sýningarrými virðist hún í uppnámi. Það er miður að landkynning sem þessi og hróður hátíðarinnar gufi upp í einu vetfangi. Undirrituð leggur því til að skoðuð verði aðkoma Kópavogsbæjar að hátíðinni og að tillögunni verði vísað til ofangreindra aðila til skoðunar.

Rannveig Ásgeirsdóttir"

Guðríður Arnardóttir lagði til að afgreiðslu tillögunnar yrði frestað til næsta fundar.

Ómar Stefánsson lagði fram eftirfarandi bókun:

"Hér er ekki um milljarða útlagðan kostnað að ræða fyrir Kópavogsbæ og því eðlilegt að verða við frestun og fylgja þeirri hefð sem hefur skapast þegar óskað er eftir frestun.

Ómar Stefánsson"

Bæjarráð samþykkir að fresta afgreiðslu tillögunnar.

Fundi slitið - kl. 10:15.