Tilkynningar

Vorhreinsun lóða í Kópavogi

8.4.2011 13:32

  • trjamynd
    trjamynd

Árviss vorhreinsun lóða í Kópavogi er nú að hefjast en þá taka allir höndum saman, bæjarbúar og bæjarstarfsmenn, um að hreinsa og fegra bæinn. Bæjaryfirvöld hvetja því íbúa Kópavogs til að hreinsa lóðir sínar.

Starfsmenn bæjarins verða svo á ferðinni í lok apríl og í byrjum maí og fjarlægja garðúrgang sem fólk hefur sett utan við lóðamörk sín.

Bænum er skipt í hverfi og munu starfsmenn bæjarins fjarlægja garðaúrgang þar eftirtalda daga:

  • Vesturbær og austurbær: 26. apríl, 27. apríl, 28. apríl og 29. apríl
  • Smára-, Linda og Salahverfi: 2. maí, 3. maí og 29. apríl
  • Kóra- og Vatnsendahverfi: 4. maí, 5. maí og 6. maí

Athugið:
- Garðaúrgang skal setja út við lóðamörk í pokum, greinaafklippur skal binda í knippi.
- Óheimilt er að flytja lausan jarðveg út fyrir lóðamörk og verður slíkt fjarlægt á kostnað lóðarhafa.
- Ekki verður fjarlægt rusl af byggingarlóðum.
- Íbúar þurfa sjálfir að koma spilliefnum í endurvinnslustöð, enn fremur timbri, málum og öðru rusli.

Umhverfisspillandi efni
Ýmiss konar efnavörur til heimilisnota eru skaðlegar mönnum og umhverfinu, þótt við viljum ekki án þeirra vera. Rétt notkun þeirra er nauðsynleg og þá ekki síður förgun þeirra að notkun lokinni. Algeng spilliefni sem notuð er á heimilum eru til dæmis rafhlöður og rafgeymar, lökk og lakkleysar, málning, fúavarnarefni, hreinsiefni, framköllunarefni, þynnar, bensín, terpentína, salmíak, epoxy, bas, tekkolía, bremsuvökvi, frostlögur, sýrur, vítissódi, lampaolía, ryðhreinsir, skóáburður, úðabrúsar, illgresiseyðir, skordýraeitur og fleira.

Tekið er við spilliefnum í endurvinnslustöðvum og apótek taka á móti öllum lyfjaafgöngum.

Lífrænn garðaúrgangur
Í fyrstu vorhreinsun í görðum fellur ávallt til mikið af lífrænum úrgangi. Hann ásamt umframjarðvegi úr görðum er bæði þungur og fyrirferðarmikill. Því er best ef hægt er að nýta þennan jarðveg innan lóðarinnar, t.d. með því að útbúa safnhaug. Í hann er sett hey, arfi og annar lífrænn úrgangur sem til fellur og á ekki að fara með almennu sorpi. Sé rétt að gerð safnhaugs staðið, má fá úr honum úrvals gróðurmold í garðinn eftir 2–3 ár.

Ef garðaúrgangur er ekki nýttur í garðinum skal losa hann í endurvinnslustöð. Garðaúrgangur er fjarlægður í vorhreinsun, sé ekki um lausan jarðveg að ræða og hann ekki blandaður saman við annað rusl. Trjáafklippur skal binda saman í knippi. Ekki er mögulegt að fjarlægja heil tré eða trjástofna.

Nánari upplýsingar um vorhreinsun lóða í Kópavogi.

Gleðilegt sumar!


Þetta vefsvæði byggir á Eplica