Bæjarvernduð svæði

Bæjarvernduð svæði

Í Kópavogi eru hverfisvernduð svæði kölluð bæjarvernduð og er það gert því nafnið er talið betri skýrskotun til þess að verndunin er að frumkvæði bæjarins. Bæjarvernd getur náð til einstakra mannvirkja, heilla hverfa, reits, götu, fornleifa og sögulegra eða náttúrulegra merkra staða.

Markmiðið með bæjarvernd er að raska ekki yfirbragði og einkennum byggðarinnar né stöðum sem hafa sérstöðu sökum náttúru, sögu eða umhverfis.

Bæjarvernduð svæði í Kópavogi eru 19 talsins.

Skv. skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er hverfisvernd:
Ákvæði í svæðis,- aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja, náttúruminja eða trjágróðurs án þess að um lögformlega friðun sé að ræða.


Álfhóll
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Menningarminjar, ísaldarmenjar.álfhóll

Álfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn. Er Álfhólsvegur var lagður, seint á fjórða áratug 20. aldar, gengu framkvæmdir vel allt að Álfhól. Þegar átti að sprengja í hólinn kom í ljós að allt framkvæmdafé var uppurið og því var framkvæmdum hætt að sinni. Áratug síðar hófust framkvæmdir að nýju og átti þá að ryðja burt hólnum. Vildi þá svo til að vinnuvélar biluðu og verkfæri skemmdust eða hurfu og var því lagður hlykkur á veginn fram hjá hólnum. Í lok níunda áratugar var vegurinn endurbættur. Þegar kom að því að fjarlægja hluta hólsins og leggja malbik upp að honum, brotnuðu öflugir steinfleygar sem til þess voru notaðir. Var vegaskipulaginu því breytt og er nú þarna þrenging og hraðahindrun. Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.


Digranesbær
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Menningarminjar 
Digranesbær

Digranes er sennilega elsta bújörð í Kópavogi. Búskapur hófst á jörðinni á árunum 1300 og 1313 en lagðist af árið 1936. Digranes var stór jörð en hefur sjálfsagt ekki verið eftirsóknarverð, eins og gæðum hennar er lýst í úttektarbók Jarðabókarnefndar frá október 1703. Konungur var skráður eigandi jarðarinnar og landsskuld hennar var 90 álnir sem ábúandinn greiddi með fiski í kaupstað, leigukúgildi í smjöri eða fiski til Bessastaða. Kvaðir á jörðinni voru þær að ábúandi skyldi lána mann á vertíð, hest til Alþingis, vinna við tvær dagsláttur í Viðey og útvega tvo hríshesta er gjaldist í fríðu. Hann varð einnig að leggja til mann í Elliðaár einn dag um sumar og heyhesta til fálkafjár í Hólm eða Reykjavíkurkaupstað. Auk eigin búsmala skyldi hann hafa lamb, eina kú og tvo kálfa til fóðurs frá öðrum. Eftir að jörðin var aflögð varð hún þjóðjörð og útmældi Búnaðarfélag Íslands jörðina í smábýli og nýbýli. Árið 1950 var búið að úthluta 10 löndum undir nýbýli og 146 smábýlalöndum úr landi Digraness. Smábýlalöndin voru fyrst og fremst ætluð sem ræktunarlönd en ekki til fastrar búsetu. Á þessu varð þó fljótlega breyting og lönd þjóðjarða urðu fyrsti vísir þéttbýlismyndunar í Kópavogi. 


Dimma
Verndarflokkur: Bæjarvernd, náttúruminjaskrá
Verndarforsendur: Lífríkt vatnakerfi, útivist
dimma

Efsti hluti árinnar sem rennur úr Elliðavatni heitir Dimma en neðar taka Elliðaár við.
Dimma nýtur bæjarverndar og er ásamt vatnasviði Elliðaánna á náttúruminjaskrá.


Einbúi
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Menningarminjar
Einbúi

Hóll austan í Digraneshálsi. Um hólinn lágu landamerki jarðanna Breiðholts, Bústaða, Digraness og Fífuhvamms. Í hólnum sjást leifar tilhöggvinna grágrýtissteina sem ætlaðir voru í undirstöður undir járnbraut sem fyrirhugað var að leggja þar sem Reykjanesbrautin liggur nú. Um var að ræða atvinnubótavinnu á kreppuárunum. Talið er að í hólnum hafi búið álfur eða huldumaður. Því til stuðnings er eftirfarandi frásögn frá því þegar verið var að grafa fyrir grunni á aðliggjandi lóð. Þegar verið var að grafa fyrir húsgrunni á lóð við hólinn Einbúa var húsbyggjandinn beðinn að fara ekki nálægt hólnum. Það vildi samt svo óheppilega til að jarðýtustjórinn bakkaði að hólnum en í því drapst á vélinni. Það var sama hvað hann reyndi, ýtan vildi ekki í gang aftur og var hún flutt á verkstæði. Þar varð þó ekkert um viðgerðir því ýtan rauk í gang í fyrstu tilraun.


Elliðavatn
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Lífríkt vatnakerfi, útivist
Elliðavatn

Sá hluti Elliðavatns sem er innan lögsögu Kópavogs heitir Vatnsendavatn frá gamalli tíð. Efsti hluti árinnar sem rennur úr Elliðavatni heitir Dimma en neðar taka Elliðaár við. Vatnsendavatn og Dimma njóta bæjarverndar en auk þess er allt Elliðavatn ásamt vatnasviði Elliðaánna á náttúruminjaskrá. Elliðavatn ásamt að- og fráliggjandi ám er gróskumikið lindavatnskerfi. Í vatnakerfinu lifa allar fimm tegundir villtra ferskvatnsfiska hér á landi; bleikja, lax, urriði, áll og hornsíli. Í Elliðavatni er góð silungsveiði og stangveiði er vinsæl. Á vatnasvæðinu hafa verið skráðar um 30 tegundir votlendisfugla, þar af níu sjaldgæfar. Elliðavatn er grunnt og mjög gróðurríkt. Botnplöntur eru mjög áberandi og síkjamari og nykrur þekja stór svæði. Dýralíf í fjörubelti er mjög mikið og með því mesta sem þekkist í stöðuvötnum á landinu. Mest ber á rykmýi en einnig er töluvert um vatnabobba og vorflugur. Þessi dýr eru étin af silungi og vatnafuglum.


Engjaborg
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Fornminjar
Engjaborg

Engjaborg við Fífuhvammsveg var landamerki milli jarðanna Kópavogs, Digraness, Fífuhvamms og Arnarness. Nafnið Engjaborg bendir til þess að fjárborg og/eða beitarhús hafi staðið þar. Hringlaga rúst með um 2–3 m breiðum veggjum er á staðnum og út frá henni ganga leifar gerðis sem er um 1 m á breidd og 0,3 m á hæð.


Fjárhús og rústabrot – Vatnsvik
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Menningarminjar
1317

Syðsti hluti Elliðavatns heitir Vatnsvik og sunnan þess, áleiðis upp á Vatnsendaheiði, er að finna rústabrot. Engar rannsóknir hafa farið fram á rústunum en þær voru skráðar í Fornleifaskrá Kópavogs árið 2000. Sennilegt þykir að um sé að ræða útihús sem tilheyrt hafa Vatnsendajörðinni.


Fossvogsleirur
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Lífríkar fjörur, ísaldarminjar
1292

Fuglalíf í Fossvogi er fjölbreytt og þar eru gróskumiklar, grýttar þangfjörur og leirur sem fuglarnir nýta. Vegna yls í Fossvogslæk helst ósinn jafnan íslaus á veturna. Það kunna ýmsir fuglar að meta í frosthörkum, t.d. tjaldur, stokkönd, skúfönd, rauðhöfði og álft. Í Fossvogi finnst sjávarset, svokölluð Fossvogslög, með steingerðum skeljum og kuðungum. Lindýrin eru um 11 þúsund ára gömul. Ofan á Fossvogslögunum er þunnur jökulruðningur eftir skriðjökulinn sem síðast gekk fram Fossvogsdal fyrir nær 10 þúsund árum. Öll lindýrin í Fossvogslögunum lifa enn í dag umhverfis Ísland. Má þar nefna hallloku, kúskel, smyrsling og nákuðung. Áhugavert er að skoða Fossvogslögin en ekki má hrófla við þeim.


Fossvogslækur og umhverfi hans, trjáræktarsvæði í Fossvogsdal
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Trjárækt
Vatnsvík

Svæðið sem um ræðir er milli lands Lundar í Fossvogsdal og svæðis sem Skógræktarfélag Reykjavíkur átti til skamms tíma. Erfðafestusamningur fyrir þetta land sem nefnt var Digranesblettur 8 var undirritaður árið 1945 af Geir Gunnlaugssyni í Eskihlíð (síðar Lundi) og Hermanni Jónassyni fyrrverandi forsætisráðherra. Áður hafði landið verið nytjað frá kaupstað og er þess getið í fasteignamati árið 1940. Hlutur Geirs var 10,98 ha en Hermanns 2,25 ha. Síðar eignaðist Skógræktarfélag Reykjavíkur hlut Hermanns, norðurhluta svæðisins, en landið er nú í einkaeign. Á þessum slóðum rennur Fossvogslækurinn að mestu í sínum náttúrulega farvegi en á kafla hafa bakkar hans verið hlaðnir úr grjóti. Umtalsverð trjárækt er á svæðinu, elsti hlutinn er verk Hermanns frá 5. áratug síðustu aldar. Í skóginum er mikið fuglalíf.


Grjótnám norðan Smiðjuvegar
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Menningarminjar

Grjótnám norðan Smiðjuvegar

Austarlega í Fossvogsdal, miðja vegu milli gróðrarstöðvarinnar Merkur og Smiðjuvegar, gefur að líta sérkennilegar grjóthrúgur. Við nánari skoðun sést að steinarnir eru kantaðir og hafa verið klofnir með fleygum og höggnir til. Þetta eru minjar um tíma þegar hugmyndir voru stórar en atvinna lítil.
Upp úr 1930 hafði heimskeppan mikil áhrif á Íslandi og margir misstu vinnu sína. Ríki og sveitarfélög réði þá menn í s.k. atvinnubótavinnu, einkum að vetrarlagi. Á þessum tíma voru uppi hugmyndir um að leggja járnbraut milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, á svipuðum slóðum og Reykjanesbrautin liggur nú. Steinunum var ætlað að vera undirstöður fyrir járnbrautarteinana sem aldrei voru lagðir. Sambærilegt grjótnám fór fram við Einbúa við Skemmuveg en atvinnubótavinnunni var hætt árið 1936.


Gömlubotnar og Túnhóll
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Menningarminjar
Gömlubotnar

Árið 1868 var gefið út nýbýlaleyfi fyrir landinu Lækjarbotnum undir Selfjalli. Fjallið dregur nafn sitt af seli jarðarinnar Örfiriseyjar á Seltjarnarnesi. Örfirisey átti selstöðu þar og hafði í seli og hefur svo verið vegna landleysis jarðarinnar. Selið var líklega aflagt árið 1799 þegar byggð í Örfirisey fór í eyði eftir Básendaflóðið. Lækjarbotnar var efsta byggða ból vestan Hellisheiðar og í þjóðbraut því þarna inn við Selfjallið lá gamla leiðin um Lækjarbotna. Þetta nýbýli var því vinsæll áningarstaður bænda úr austursveitum á kaupstaðarferð til Reykjavíkur og ekki síður á austurleið. Guðmundur H. Sigurðsson, bóndi í Lækjarbotnum, flutti húsið á árunum 1904-1910 að þjóðveginum undir Fossvallaklifi, sem nú er oft kallað Lögbergsbrekka og rak þar greiðasölu og gistingu ásamt bústýru sinni, Guðfinnu Karlsdóttur. Í manntalinu 1910 er býlið nefnt Lögberg Lækjarbotnar og er líklegt að þá hafi verið farið að nefna eldra bæjarstæðið Gömlubotna. Guðmundur gaf Skátasambandi Reykjavíkur land í Gömlubotnum og reistu þeir þar árið 1929 fyrsta útivistarskálann á Íslandi. Hann var nefndur Væringjaskálinn og var fluttur á Árbæjarsafn árið 1962 og endurbyggður þar. Húsið var rifið þegar Suðurlandsvegurinn var lagður á sjöunda áratug 20. aldar. Á ás sunnan vegarins er gamla túnið á Lögbergi, Túnhóllinn. Þar eru bæjarstæði og fleiri rústir ásamt grafreit en þar hvílir Guðmundur bóndi og veitingamaður.

Fossvogsleirur

Rústir á Túnhól


Hádegishólar
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Menningarminjar, ísaldarmenjar
hadegisholar

Hádegishólar eru tveir grágrýtishólar með áberandi hvalbökum og jökulrákum. Bergið í klöppunum tilheyrir svokölluðu Breiðholtsgrágrýti sem liggur ofan á grágrýtinu sem Kópavogur stendur að mestu á. Hádegishólar eru því yngri en Víghólar. Af hvalbökum og jökulrákum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV- SA. Nafn hólanna er dregið af því að eystri hóllinn var eyktarmark frá bænum Fífuhvammi en frá bænum bar sól yfir hólinn á hádegi. Á stærri hólnum stendur stúba búddatrúarmanna. 


Höfði
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Útivist
Höfði

Norðurströnd Kársness er um 2 km löng. Henni hefur svo til allri verið raskað á undanförnum áratugum með landfyllingum. Þó er lítill tangi vestan Siglingastofnunar (áður Vita- og hafnamál) sem sker sig úr því hann er lítið raskaður. Ekki er vitað til að tangi þessi beri nafn en í Aðalskipulagi Kópavogs er hann nefndur Höfði. Þarna er óvenju stórgrýtt fjara að norðanverðu og eru slík björg aðeins að finna á þessum slóðum og hinsvegar á Borgarholtinu. Í vík sem snýr til vesturs er aftur á móti sandfjara. Á árum seinni heimstyrjaldarinnar mun herinn hafa verið með loftvarnarbyssu þarna vegna nálægðar við Reykjavíkurflugvöll. Enn sést móta fyrir undirstöðum byssunnar.


Kópavogsleiran,
ströndin ofan hennar og opið svæði upp fyrir gamla Kópavogsbæinn.

Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Menningarminjar og fornminjar
Kópavogsleiran

Á svæði sem afmarkast af Kópavogstúni og Kópavogsleiru eru þrjár verndanir í gildi. Þinghóll og fornminjar þar í kring eru verndaðar samkvæmt þjóðminjalögum og Kópavogsleiran er á náttúruminjaskrá. Kópavogstúnið, gamli Kópavogsbærinn og Kópavogshælið ásamt Þinghól og leirunni er svo allt bæjarverndað.

Í heimalandi Kópavogs voru áður fjórar jarðir, Vatnsendi, Hvammskot (síðar Fífuhvammur), Digranes og Kópavogur. Jörð Kópavogsbæjar var minnst þeirra og hlunnindi hennar voru frekar rýr. Langt var að róa á fiskimið, lítið var um söl og skeljar og rekavon og selveiði lítil. Meðal hlunninda voru þó hrognkelsanyt og fjörubeit. Jörðin var metin á um 5 kýrgildi en jarðir með 10 kýrgildi eða færri töldust til hokurkota sem líkja má við fátækramörk í dag. Bærinn var byggður á árunum 1903–1904. Reykvískur steinsmiður, Erlendur Zakaríasson, hlóð elsta hluta bæjarins úr tilhöggnu grágrýti.

Sjá frekari umfjöllun á síðunum um Kópavogsleiru á síðunni um svæði á náttúruminjaskrá og Þinghól á síðunni um friðlýst svæði samkvæmt þjóðminjalögum.


Sel í landi Fífuhvamms
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: MenningarminjarFífuhvammur

Í norðurhlíðum Rjúpnahæðar, ofan golfvallar, eru menjar gamals sels. Selið var verndað með bæjarvernd í tengslum við framkvæmdir sem áætlaðar voru á svæðinu. Framkvæmdir þessar voru Landgræðsluskógrækt, lagning reiðstíga og gerð golfvallar.


Trjálundir ofan Birkigrundar
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Trjárækt
Trjálundir ofna Birkigrundar

Árið 1937 var úthlutað nýbýli í Fossvogsdal. Nýbýlið hlaut nafnið Birkihlíð (Digranesblettur 7) og ábúendur voru Jóhann Schröder, garðyrkjumaður, og Jakobína kona hans. Bústofn höfðu þau engan en ræktuðu grænmeti sem selt var til Reykjavíkur. Árið 1949 keyptu Einar E. Sæmundsen, skógfræðingur, og mágur hans, Loftur Þór Einarsson, húsasmíðameistari, helming lands Jóhanns Schröder. Þeir byggðu hvor sitt húsið fyrir fjölskyldur sínar vestan Birkihlíðar. Um líkt leyti byggði Eilif Lönning og kona hans, Guðný Sverrisdóttir Lönning, hús sunnan megin við Nýbýlaveginn, á móts við Birkihlíð. Allt þetta fólk ræktaði garða sína og nærliggjandi holt við erfiðar aðstæður og eru þeir í dag vöxtulegir trjálundir beggja vegna Nýbýlavegarins. Mest áberandi eru sitkagreni og alaskaaspir og eru mörg trén meðal hæstu trjáa sinnar tegundar í Kópavogi. Einnig eru þar fágætari tegundir og þar á meðal stærsta evrópulerki í Kópavogi.


Trjálundir milli Reynihvamms og Digraneskirkju
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Trjárækt
Trjálundir milli Reynihvamms og Digraneskirkju

Á þessum stað eru þrír af elstu trjálundum bæjarins. Þeir eru dæmi um ræktun á sumarbústaðalöndum fyrir upphaf þéttbýlismyndunar í Kópavogi. Fyrsti sumarbústaðurinn í Kópavogi mun hafa verið Lækjarnes við Fífuhvammsveg (Digranesblettur 82) sem Egill Sandholt byggði á árunum 1934-35. Erfðafestulandið var 19 ha að stærð. Húsið var rifið um 1990 en stóð þar sem nú er s.k. Leikskólalundur, suðaustan við Digraneskirkju. Í Lækjarnesi hefur verið töluverð garðrækt því auk trjágróðursins sem nú er mest áberandi sér þar enn votta fyrir landmótun frá fyrri hluta 20. aldar. Trjátegundir í Lækjarnesi eru flestar algengar en þar er einnig að finna fágætari tré eins og blæösp og gráösp og er þetta eini staðurinn í eigu bæjarins þar sem þessar tegundir er að finna. Norðvestan Digraneskirkju stendur húsið Barmahlíð (Hlíðarvegur 62A). Í manntalinu 1940 bjuggu þar listmálararnir Eggert Guðmundsson og Jón Engilberts ásamt fjölskyldum sínum. Sama ár undirritar Margrét Rasmus erfðafestusamning um landspilduna, sem skráð er 22,8 ha. Trjárækt við Barmahlíð er mun minni en við Lækjarnes en þar má þó finna einn elsta garðahlyn og silfurreyni bæjarins. Við Barmahlíð var lögð mikil vinna í að móta og stalla land í brekkunni, slétta tún og grjóthreinsa. Grjótinu var hlaðið í skeifur sem gáfu gott skjól. Slíkar skeifur voru all algengar í Kópavogi áður fyrr. Tvær skeifur sunnan Barmahlíðar eru þær heillegustu sem eftir eru. Vestan Digraneskirkju er að finna eitt fallegasta blómaengi í Kópavogi. Árið 1933 byggðu hjónin Bjarni S. Jónsson og Ragnhildur Einarsdóttir sumarbústað á landspildu sem nú er við Reynihvamm 43 og nefndu hann Dvöl. Fyrst í stað var bústaðurinn einungis dvalarstaður um sumar og helgar en síðar heilsársbústaður. Þau hjón hófust þegar handa við að yrkja jörðina og varð hún einn stærsti og fegursti trjágarður í Kópavogi. Ragnhildur skipulagði garðinn og teiknaði og var unnið markvisst að uppbyggingu hans. Flest trén voru gróðursett á árunum 1935-1950. Meginhluti trjánna í Dvöl er reynir og birki en þar er einnig selja, alaskaösp, garðahlynur, þingvíðir, sitkagreni, skógarfura, silfurreynir og gráreynir. Mörg trén eru þau stærstu sinnar tegundar í Kópavogi.


Trjálundur við Laxatanga
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Trjárækt
Trjálundur við Laxatanga

Laxatangi er gamalt örnefni við sunnanvert Elliðavatn (Vatnsendavatn). Tanginn mun hafa farið í kaf þegar vatnið var stíflað á þriðja áratug 20. aldar og vatnsborðið hækkaði. Björn Steffensen, endurskoðandi, fékk þar til umráða rúmlega eins hektara skika vorið 1931 og hóf trjárækt þar af miklum móð þremur árum síðar við erfiðar aðstæður. Björn hélt ítarlegar dagbækur um allar framkvæmdir og ræktun um áratuga skeið og eru þær dýrmætar heimildir. Trjágróður á Laxatanga er mjög fjölbreyttur, þó mest sé um birki og sitkagreni. Þar eru einn stærsti fjallaþinur og eplatré í Kópavogi, hvorttveggja gróðursett á fimmta áratug síðustu aldar. Einna merkilegust eru sitkagrenitré þau sem Björn gróðursetti árið 1938. Þau eru meðal fyrstu trjáa þessarar tegundar sem flutt voru til landsins. Til marks um erfiðar aðstæður á Laxatanga má geta þess að samskonar tré voru gróðursett í Ártúnsbrekkunni í Reykjavík á sama tíma. Þau tré hafa alla tíð verið hæstu sitkagrenitré landsins en trén á Laxatanga eru rétt hálfdrættingar á við trén í Ártúnsbrekkunni.


Umhverfi Botnalækjar
Verndarflokkur: Bæjarvernd
Verndarforsendur: Útivist, landslag
Botnalækur

Botnalækur kemur undan hrauntungu úr Leitahrauni sem er skammt austan núverandi skátaskála í Gömlubotnum. Efsti hluti lækjarins rennur um fallegt gil en síðar liðast hann meðfram hraunjaðrinum til norðvesturs. Þar fer Botnalækur nær öðrum hraunjaðri og yngri en það er eitt af svo kölluðum Hólmshraunum sem runnið hefur vestur fyrir Selfjall og staðnæmst í Gömlubotnum. Hrauninu hefur verið spillt mikið með efnistöku en austurjaðar þess sem snýr að Botnalæk er óraskaður. Þar sem lækurinn rennur næst Selhólum hefur hann grafið sig í gegnum móberg og myndað sérkennilegan steinboga. Milli Selhóla og Suðurlandsvegar sameinast Botnalækur fleiri lækjum og myndar mýrlendi sem kallast Lækir. Á þeim slóðum eru hraundrýlin Tröllabörn, friðlýst náttúruvætti.

 

  


   


 

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica