Góður árangur nemenda í Kópavogi

Grunnskólanemendur í Kópavogi stóðu sig afar vel í PISA2012, meðaltal niðurstaðna í Kópavogi er talsvert yfir landsmeðaltali. Nemendur í Kópavogi standa sig bæði vel í samanburði við sambærileg sveitarfélög á Íslandi og á Norðurlöndunum. Þá fær skólabragur, eða viðhorf nemenda í Kópavogi til skólaumhverfis, mjög góða einkunn.

PISA rannsóknin mælir lesskilning, stærðfræðilæsi og náttúrufræðilæsi hjá 15 ára nemendum og er hönnuð til að gera áreiðanlegan samanburð á fjölmennum hópum nemenda  og menntakerfum þjóða innan OECD.

Niðurstöður PISA rannsókna geta verið vísbending um þróun í skólastarfi ef þær eru skoðaðar í samhengi við aðrar mælingar á árangri í skólum. Þá eru niðurstöður yfir lengra tímabil marktækari en niðurstöður einstakra kannana. Rannsóknin er ekki hugsuð til að greina eða bera saman árangur fámennari hópa eða einstakra skóla.

Þátttaka í PISA er valfrjáls og svarhlutfall mismunandi eftir skólum. Miðað er við að birt séu meðaltöl fyrir skóla með 15 þátttakendur eða fleiri.

Þess má geta að  PISA-rannsóknin mælir einnig viðhorf nemenda til náms. Meðal niðurstaðna úr PISA 2012 er að viðhorf nemenda í Kópavogi til skólaumhverfisins er mjög jákvætt.  Almennt er skólabragur áberandi jákvæðari í stóru sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu en í sambærilegum sveitarfélögum á hinum Norðurlöndunum og einnig sé miðað við OECD í heild.

Hafa ber í huga að PISA er aðeins einn mælikvarði af mörgum við mat árangri og gæðum í skólastarfi. Menntasvið Kópavogsbæjar leggur á það áherslu að skólar nýti sér niðurstöður PISA rannsókna til umbóta. Niðurstöðurnar eru greindar með hliðsjón af öðrum mælingum í skólunum og markvisst unnið að því að styrkja það sem gott er og bæta það sem betur má fara.

Áfram verður haldið á þeirri braut að styrkja og efla skóla í Kópavogi með það að markmiði að nemendur fái sem allra bestu menntun, það er sameiginlegt markmið allra sem að skólunum standa.

Skýrsla Námsmatsstofnunar um þróun á lesskilningi, stærðfræði- og náttúrufræðilæsi í Kópavogi frá 2003 til 2012