Stuðningur við nemendur í grunnskólum

Í stefnu Kópavogsbæjar um stuðning við nemendur er lögð áhersla á að allir nemendur fái nám við sitt  hæfi og stundi nám í sínum heimaskóla. Stefnan tekur mið af alþjóðlegum samþykktum um skóla án aðgreiningar og að réttindi fatlaðs fólks séu höfð að leiðarljósi.

Í skóla án aðgreiningar er stuðningur við nemendur hluti af almennu skólastarfi, þar sem mikil áhersla er lögð á samstarf og samvinnu við foreldra. Ávallt er leitað leiða til að laga aðstæður að margbreytileika nemendahópsins, bæði náms- og félagslega og greina hindranir sem í vegi kunna að vera.

Hver skóli semur árlega áætlun um stuðning við nemendur. Áætlunin er hluti af heildarskipulagi skólans og tekur til allra þátta skólastarfsins. Þar kemur fram hvernig stoðkerfi skólans er uppbyggt, markmið þess og hverjir koma að því. Heildaráætlun um stuðning við nemendur er aðgengileg á heimasíðu hvers skóla.

Við framkvæmd stuðnings við nemendur er sérstaklega horft til námsumhverfis, skimana og greininga, námsáætlana, teymisvinnu, sérkennslu og sérúrræða.

Í Kópavogi eru einnig starfræktar sérdeildir, námsver og sérúrræði til þess að mæta mismunandi þörfum nemenda.

Nemendum, sem stunda nám utan skólahverfis í sérdeildum eða námsveri, stendur til boða skólaakstur. Sjá nánar reglur um akstur fatlaðra.

Síðast uppfært 13. janúar 2020