Spjaldtölvur í grunnskólum

Átak um breytta kennsluhætti. Meginmarkmið með innleiðingu spjaldtölva er að bæta nám nemenda með aukinni einstaklingsmiðun og fjölbreytni.

Allir nemendur á miðstigi og unglingastigi í grunnskólum Kópavogs hafa fengið afhentar spjaldtölvur til eigin nota. Nemendur á yngsta stigi hafa aðgang að spjaldtölvum í skólanum. Námið á að færast nær daglegu lífi nemenda. Þeir eiga að hafa meira um nám sitt að segja og verða ábyrgir notendur tækninnar í leik og starfi. Næsta afhending verður í fimmta bekk haustið 2018. 

Spjaldtölvur sem nemendur fá afhentar eru eign Kópavogsbæjar en nemendur hafa val um að eignast þær að loknu tilteknu tímabili. Nemendur hafa töluvert frjálsræði um notkun spjaldtölvanna. Þær eru tengdar tölvukerfi svo hægt er að grípa til eftirlits ef þörf krefur. Foreldrar eru ábyrgir fyrir notkun spjaldtölvanna heima fyrir.  

Upplýsingar um innleiðingu spjaldtölva og leiðbeiningar til foreldra er að finna á upplýsingavefnum:

Spjaldtölvur í grunnskólum í Kópavogi.

Einnig er hægt að fylgjast með innleiðingunni á Facebook, Twitter, Instagram, FlickrVimeo og issuu.

 • Markmið spjaldtölvuverkefnis grunnskóla

  Markmið tengd námi:

  1. Námið sniðið betur að hverjum og einum
  2.  Nemendur  hafi meira um nám sitt að segja
  3. Meiri  ánægja og áhugi á námi, aukin ábyrgð og bættur árangur
  4. Aukin fjölbreytni í námsumhverfi – nám á ferð og flugi
  5. Nám færist nær daglegum veruleika nemenda

  Markmið tengd kennslu og skólastarfi:

  1. Meiri fjölbreytni í kennsluháttum
  2. Nýtum tæknina til að þróa skólana
  3. Stuðningur við markmið skóla án aðgreiningar, nemendur með sérþarfir í minna mæli aðgreindir frá bekk, sérkennsla færð inn í hópinn
  4. Stuðningur við sjálfstæði skóla þar sem hver skóli hefur sín leiðarljós

  Markmið tengd bæði námi og kennslu, inntaki náms:

  1. Vægi sköpunar og nýsköpunar í námi aukið
  2. Aukin tæknikunnátta nemenda og kennara
  3. Bætt upplýsinga- og miðlalæsi nemenda, efling stafrænnar borgaravitundar
  4. Breyttir starfshættir skóla m.t.t. nýrrar Aðalnámskrár og krafna atvinnulífs 21. aldar um færni
  5. Breytt hlutverk í skólastarfi – nemandinn skapar þekkingu, kennari leiðbeinir og aðstoðar í stað þess að miðla þekkingu

  Markmið tengd samfélaginu:

  1. Aukin samvinna milli skóla, milli nemenda, milli kennara og út fyrir Kópavog og Ísland
  2.  Betri tengsl foreldra við nám nemenda og skólastarfið í heild
 • Notkunarskilmálar

  Kópavogsbær setur skilmála um notkun nemenda á spjaldtölvum. Skilmálarnir kveða á um ábyrgð nemandans/forsjármanna á meðferð og notkun tækisins meðan nemandi hefur það til afnota.

  Hér má skoða notkunarsamning um spjaldtölvur fyrir nemendur. Samningurinn er á íslensku, ensku og pólsku.

 • Innleiðingaráætlun

  Fyrstu tækin voru afhent í byrjun skólaárs 2015-16 og voru það nemendur í 8. og 9. bekk sem fengu tæki til einkaafnota. Um leið fengu allir skólar úthlutað nokkrum fjölda lánstækja til nota í öðrum árgöngum en í dag eru þessi tæki notuð á yngsta stigi og að einhverju leyti í sérkennslu. Rannsóknir hafa sýnt að það tekur tíma fyrir námslegan ávinning af spjaldtölvuinnleiðingu að skila sér og því var ekki talið hyggilegt að úthluta tækjum til einkanota til nemenda sem voru að hefja nám í tíunda bekk. Næsta skref úthlutunar var í ársbyrjun 2016 þegar nemendur í 6. og 7. bekk fengu afhent tæki til einkanota. Í byrjun skólaársins 2016-17 var svo tveimur árgöngum bætt við, þegar nemendur sem þá voru í 5. og 6. bekk fengu afhent tæki til einkanota. Fyrsti árgangurinn sem fengið hafði spjaldtölvur útskrifaðist úr grunnskóla vorið 2017 og þá um haustið voru spjaldtölvur afhentar í fimmta bekk.

 • Kerfisupplýsingar

  Umsýslukerfin AirWatch og Lightspeed annast nauðsynlega umsýslu og utanumhald. Frá upphafi innleiðingarinnar var notast við fyrrnefnda kerfið en það síðarnefnda leysti það af hólmi í áföngum á skólaárinu 2017-18. Kerfin halda utan um hvaða notendur hafa hvaða tæki til afnota, hægt er að nota kerfin til að dreifa forritum og námsefni og einnig eru þar möguleikar til eftirlits með notkun, s.s. hvort tæki hafi lengi legið óhreyft eða hvaða forrit hafi verið sett inn.Öllum nemendum og kennurum býðst aðgangur að geymslusvæði fyrir gögn í Google skýjaumhverfi. Auk þess verða netföng sett upp á spjaldtölvum nemenda og kennara. Önnur hugbúnaðarkaup verða gerð eftir þörfum, hvort sem er fyrir alla notendur, einstaka skóla eða samkvæmt óskum einstakra kennara. Slík hugbúnaðarkaup verða nemendum og foreldrum að kostnaðarlausu. Nemandinn mun geta sett hugbúnað að eigin vali inn á tækið með Apple-auðkenni sínu en athugið að allur kostnaður sem til fellur vegna slíks er á ábyrgð nemanda eða forráðamanna. Þá ber að hafa í huga að námsefni hefur forgang ef til þess kemur að tækin fyllist af efni.

  Til að geta notað iPad-spjaldtölvur þurfa allir nemendur að eiga svokallað Apple-auðkenni(AppleID). Þetta auðkenni gefur nemanda kost á að nálgast ókeypis hugbúnað í App Store, sem er hugbúnaðarverslun Apple og er aðgengileg beint úr spjaldtölvunni. Auðkennið gerir nemanda einnig kleift að vista og deila gögnum með kennurum og öðrum nemendum, veitir aðgang að dagatali og öðrum skipulagsforritum, virkjar staðsetningarbúnað spjaldtölvunnar og ýmislegt fleira.

  Foreldrar sem það vilja geta leyft nemendum að nálgast keyptan hugbúnað í App Store, en það á einungis við um forrit til persónulegra nota. Kópavogsbær útvegar allan hugbúnað sem nemandi þarf að nota í námi sínu.

  Foreldrar geta einnig stýrt notkun nemenda á spjaldtölvunum með stillingum sem geta takmarkað aðgang að neti, myndavél og ákveðnum samfélagsmiðlum. Foreldrar geta fengið leiðsögn um hvernig þetta er gert og einnig eru leiðbeiningarmyndbönd hér að neðan.

  Til að búa til Apple-auðkenni þarf að gefa upp fullt nafn nemandans, afmælisdag og netfang. Einnig þarf að búa til lykilorð. Allir nemendur fá úthlutað netfangi í sínum skóla í tengslum við afhendingu spjaldtölvanna. Það er tölvudeild Kópavogsbæjar sem útbýr netfangið, lykilorðið og Apple-auðkennið.

  Lykilorðið er afhent nemandanum og sent til foreldra/forráðamanna en starfsfólk tölvudeildar getur aðstoðað nemanda sem gleymir lykilorðinu sínu með að endursetja það.

Síðast uppfært 21. janúar 2019