Hugmyndasöfnun um útfærslu á opnu svæði milli Dimmuhvarfs og Melahvarfs

Hugmyndasöfnun um útfærslu á opnu svæði milli Dimmuhvarfs og Melahvarfs stendur yfir dagana 11. febrúar til 28. febrúar n.k. Innsendar hugmyndir verða hafðar til hliðsjónar við endanlega útfærslu á svæðinu.

Ákveðið hefur verið að fara í hugmyndasöfnun um útfærslu á opnu svæði milli Dimmu- og Melahvarfs. Nágrönnum svæðisins er sérstaklega boðið að taka þátt og senda inn hugmynd eða styðja aðra innkomna, um svæðið. Hugmyndir annarra Kópavogsbúa eru einnig velkomnar.

Opið verður fyrir þátttöku frá fimmtudeginum 11. febrúar til sunnudagsins 28. febrúar. Innsendar hugmyndir verða hafðar til hliðsjónar við endanlega útfærslu á svæðinu.

 • Nánar um hugmyndasöfnunina fyrir opið svæði á milli Dimmu- og Melahvarfs

  Í gildandi deiliskipulagi er skilgreint opið svæði á milli Dimmu- og Melahvarfs sem afmarkast af lóðunum við Dimmuhvarf 3-9b og lóðunum við Melahvarf 6-12. Á milli lóðanna við Melahvarf 10 og 12, Melahvarf 6 og 8 sem og Dimmuhvarf 7b og 9-9a skulu vera göngustígar sem tryggja aðkomu að svæðinu.

  Svæðið hefur verið ófrágengið, vannýtt og í óhirðu í áraraðir eða frá því að almenn búseta hófst í hverfinu.

  Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogs þann 24. nóvember 2020 var óskað eftir að leitað yrði eftir tillögum íbúa með útfærslur á opna svæðinu og frágang á stígum sem tengja svæðið við Melahvarf og Dimmuhvarf.

  Húseigendum í næsta nágrenni, þ.e. við Dimmuhvarf, Melahvarf, Grundarhvarf, Brekkuhvarf og Fornahvarf, auk hluta Ögurhvarfs, er gefinn kostur á að senda inn tillögur af framtíðarfyrirkomulagi og nýtingu svæðisins. Aðrir Kópavogsbúar geta einnig sent inn tillögur.

  Rétt er að benda á að svæðið er mishæðótt og hallar niður á við í austurátt eða í átt að Elliðavatni. Aðkoma að svæðinu er þröng og því ljóst að stórvirkar vinnuvélar eiga erfitt með að komast að svæðinu án mikils rask á aðliggjandi lóðum. Af sömu ástæðum er hæpið að hægt sé að koma við malbikun stíganna og yrði frekar um malarstíga að ræða.

  Tilgangurinn með hugmyndasöfnuninni er að fá mynd af hug íbúa til framtíðarnýtingar svæðisins. Vinsamlegast athugið að um hugmyndasöfnun er að ræða og er Kópavogsbær að engu leyti skuldbundinn til að framkvæma óbreyttar þær hugmyndir sem safnast inn. Jafnframt er Kópavogsbæ heimilt að útfæra innkomnar hugmyndir á hvaða veg sem hentað gæti.

 • Nánar um svæðið

  Til innblásturs eru reifaðar nokkrar hugmyndir sem gætu átt heima á svæðinu ef það yrði útfært sem náttúruleg, friðsæl gróðurvin þar sem fjölskyldur sem og einstaklingar gætu notið náttúrunnar og/eða samveru.

  Lýsing á stígunum gæti verið lágstemmd pollalýsing sem lýsir niður á stíginn en minna út á við til að draga úr ljósmengun.

  Hægt væri að gróðursetja runnagróður, berjarunna og jafnvel ávaxtatré eða annarskonar tré til að skerma svæðið af frá nálægum lóðum og þá sérstaklega sem snýr að Dimmuhvarfi 7-7b þar sem hæðarmunur á milli svæðis og lóða er mestur. Svæðið er að einhverju leyti með náttúrulegum gróðri sem væri hægt að láta halda sér, til að halda í upprunalegt útlit svæðisins eins og kostur er. Mögulegt er að gróðursetning á afmörkuðum hluta svæðisins væri í höndum íbúa sem gróðursetningarátak.

  Með að jafna út ójöfnur væri hægt að nýta hæðarmuninn og útbúa sleðabrekku fyrir börn á öllum aldri.

  Hægt væri að koma fyrir náttúrulegu skýli úr trjám sem felld hafa verið í Kópavogi. Þar gæti verið útigrill eða eldstæði þar sem hægt væri að grilla eða elda sykurpúða eða snúrubrauð yfir opnum eldi. Bekkir umhverfis væru tilhöggnir úr tré.

  Ýmislegt annað kemur til greina og því er leitað til íbúa um frekari hugmyndir.

  Dæmi um fyrirkomulag svæðis með stígtengingum, sleðabrekku, trjám og runnum og samverulundi.

  Dæmi um fyrirkomulag svæðis með stígtengingum, sleðabrekku, trjám og runnum og samverulundi.

Síðast uppfært 05. febrúar 2021