Langleiðin: Bláfjallahryggur endilangur og Vífilsfell

Þessi leið er kölluð Langleiðin vegna þess að þetta er lengsta og erfiðasta skilgreinda leiðin innan marka Kópavogs. Hún liggur eftir endilöngum Bláfjallahrygg og auk þess er bæjarfjallið Vífilsfell toppað í leiðinni. Gangan sjálf getur hafist á hvorum enda og má gjarnan fara eftir vindátt, en athugið að það bætist við hækkunina ef þið byrjið við Vífilsfell. Það eru nokkrir staðir á leiðinni sem geta valdið erfiðleikum í vetrarfærð og þarf ísöxi og fjallabrodda en frá júní og fram í lok september jafnvel október þá á þessi gönguleið vera öllum fær sem á annað borð stunda fjallgöngur að einhverju ráði. Þetta er nokkuð löng leið og uppsöfnuð hækkun mikil en útsýnið er stórkostlegt þegar skyggni er gott. Hafa ber í huga að leiðin er frá A til B og því þarf að skilja eftir bíl á endastað eða gera aðrar ráðstafanir.

Powered by Wikiloc