Stóra-Kóngsfell, Drottning og Eldborg

Skammt frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum eru tvö skemmtileg móbergsfjöll. Það eru Stóra-Kóngsfell og Drottning. Á sama svæði er einnig fallega mótaður gígur sem heitir Eldborg. Það er góð ganga að fara upp á alla þessa þrjá toppa og gaman að sjá hrjóstrugt landslagið frá öðru sjónarhorni og hvað þá á öðrum árstíma en yfir háveturinn þegar flestir gera sér ferð upp í Bláfjöll.

Það er lítið mál að fara upp á Eldborg en hlíðin upp á Drottningu er brattari og getur verið erfið ef það myndast harðfenni. Sunnan megin er meira aflíðandi brekka á Drottningu. Farið er yfir hraunið að Stóra-Kóngsfelli og ef snjór er yfir öllu þá þarf að gæta sín á mögulegum hraungjótum eða sprungum og best að ganga um þá hluta hraunsins sem standa upp úr snjónum. Uppgangan á Stóra-Kóngsfell er nokkuð brött og hún verður erfið í harðfenni og/eða klaka. Ítrekað er mikilvægi þess að taka með gönguöxi og fjallabrodda fyrir þessa leið, bratti er of mikill til þess að hægt sé að treysta á keðjubrodda (Esjubrodda).

Það er þægilegt að komast að svæðinu eftir Bláfjallavegi (nr. 407) en það getur verið erfitt að leggja bíl í vegkantinum á miðjum vetri. Þetta eru lág fell og gígur og því geta flestir farið þarna upp þegar aðstæður eru góðar. Það er enginn skýr stígur á Drottningu og enn síður á Stóra-Kóngsfell þannig að fólk verður að huga að aðstæðum og velja skynsamlegustu leiðina. Á veturna gæti þurft ísaxir og jöklabrodda til að komast upp og niður Drottningu og Stóra-Kóngsfell.

Hægt er að fara þessa leið allt árið en fylgist vel með veðurspá í Bláfjöllum á veturna. Ef lyftur eru lokaðar vegna veðurs þá er ekki ráðlegt að fara þessa leið enda geta fjöllin magnað upp vindinn. Brattinn er þannig í skriðunum að taka þarf með gönguöxi og jöklabrodda á veturna og kunna ísaxarbremsuna til að forða mögulegu slysi. Aðstæður geta verið þannig að keðjubroddar (Esjubroddar) eru ekki fullnægjandi öryggisbúnaður. Á sumrin þarf að gæta að sér í skriðum, sérstaklega á leiðinni niður.

Powered by Wikiloc