Vífilsfell

Eitt af fallegum fellum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er Vífilsfell. Það er sérstaklega áberandi þar sem það rís ofan við sléttuna þar sem flugvöllurinn á Sandskeiði er og Suðurlandsvegurinn liggur með Fóelluvötnin á báða vegu. Vífilsfellið er einnig áhugavert út frá jarðfræðilegu sjónarhorni þar sem það myndaðist í tveimur gosum undir misjafnlega þykkum ísaldarjökli. Gangan á að vera flestum hæf sem eru í sæmilegu formi. Engu að síður þarf að fara varlega á nokkrum stöðum í bröttum skriðum og móbergi. Jafnvel þarf að handstyrkja sig á köflum síðasta spölinn á hæsta hlutanum. Á veturna þarf ísöxi og jöklabrodda á þessari leið. Þess má geta að Vífilsfell var valið bæjarfjall Kópavogs í kosningum árið 2013. Útsýnið af toppnum er stórkostlegt til allra átta.

 

Powered by Wikiloc