Skýringar vegna álagningar

Stöðvunarbrotagjöld eru lögð á vegna brota á tilteknum greinum umferðarlaga, sbr. 109. gr. laga nr. 77/2019. Brot á þessum ákvæðum umferðarlaga varða ekki sektum, eins og brot á flestum öðrum greinum laganna, heldur eru viðurlögin álagning stöðvunarbrotagjalda. Vegna þessa eðlismunar á viðurlögunum eru þessi mál ekki meðhöndluð sem opinber mál heldur fer málsmeðferð eftir reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 eftir því sem við á hverju sinni.

Álagning stöðvunarbrotagjalds er íþyngjandi stjórnvaldsaðgerð og því getur sá sem telur á rétt sinn hallað við álagningu stöðvunarbrotagjalds lagt fram beiðni um endurskoðun álagningar (endurupptaka) til Bílastæðasjóðs Kópavogsbæjar. Beiðni um endurupptöku er rökstudd samantekt til að hnekkja álagningu stöðvunarbrotagjalds.

Brotalýsing (álagningarseðill) telst opinbert skjal, sbr. 71. gr. laga um meðferð einkamála og skal efni þess talið rétt þar til annað sannast, sbr. 3. mgr. 71. gr. sömu laga. Því er umsækjendum bent á að leggja fram strax í upphafi þau gögn sem ætla má að hnekki brotalýsingunni (álagningunni).

Endurskoðunin fer fram á þann hátt að yfirmaður stöðuvarðar/lögregluþjóns eða sérstakur fulltrúi þeirra fer yfir efnisatriði málsins og metur þær málsástæður og lagarök sem umsækjandi byggir beiðni sína á. Jafnframt er kallað eftir skýringum stöðuvarðar/lögregluþjóns varðandi þessa einstöku álagningu og frekari upplýsinga aflað ef þörf er á.

Þegar beiðni hefur borist til Bílastæðasjóðs tekur álagningin áfram lögbundnum hækkunum skv. umferðarlögum á meðan þau eru í vinnslu. Ef beiðnin er samþykkt verður gjaldið fellt niður og fær umsækjandi bréf í pósti eða tölvupósti þess efnis. Ef beiðni er hafnað fær umsækjandi bréf í pósti eða tölvupósti með staðfestingu þar um.

Umsækjendum er bent á að þeir eiga þess kost að greiða gjaldið þrátt fyrir beiðni um endurupptöku og fá það síðan endurgreitt ef fallist er á beiðni þeirra um niðurfellingu gjaldsins. 

Almenn afgreiðsla tekur um 2 til 4 vikur.

Vakin er athygli á 8. mgr. 109. gr. umferðarlaga þar sem segir að ákvörðun um álagningu gjalds verði ekki borin undir æðra stjórnvald.

 

Til baka

Síðast uppfært 17. janúar 2020