Barnavernd

Starfsmenn barnaverndar leitast við að styðja fjölskyldur og beita úrræðum til verndar börnum.

Starfsmenn barnaverndar vinna samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Unnið er að því að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem sýna áhættuhegðun fái nauðsynlega aðstoð. 

Ferli barnaverndarmáls er á þann veg að þegar tilkynning berst til barnaverndar um vanrækslu, ofbeldi eða áhættuhegðun barns taka starfsmenn ákvörðun um hvort hefja skuli könnun málsins. Foreldrum er sent bréf til upplýsingar um að tilkynning hafi borist. Tilkynnanda er einnig sent bréf til staðfestingar á móttöku tilkynningar auk þess sem veittar eru almennar upplýsingar um málsmeðferðina. 

Við vinnslu barnaverndarmála er megin áhersla lögð á aðstæður og líðan barna, að talað sé við börnin og að þau fái að koma sjónarmiðum sínum og skoðunum á framfæri. Áhersla er jafnframt lögð á samvinnu við foreldra og samstarf er haft við aðrar fagstéttir sem koma að málefnum barna þegar það á við. Fyllsta trúnaðar er gætt við vinnslu barnaverndarmála.

 • Sálfræðiþjónusta

  Við barnavernd starfa sálfræðingar sem veita börnum og foreldrum þeirra stuðnings- og meðferðarviðtöl. Viðtölin eru að mestu byggð á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar.

  Sálfræðingar barnaverndar veita einnig almenna uppeldisráðgjöf til foreldra sem fá stuðning barnaverndar.

 • Stuðningsfjölskyldur

  Samkvæmt 85. gr. barnaverndarlaga skulu barnaverndarnefndir hafa tiltækar stuðningsfjölskyldur. Markmið stuðningsins er að tryggja öryggi barna, létta álagi af börnum og fjölskyldum þeirra og styðja foreldra í uppeldishlutverkinu.

 • Persónulegir ráðgjafar

  Úrræðið persónulegur ráðgjafi er veitt samkvæmt barnaverndarlögum. Persónulegir ráðgjafar hafa það hlutverk að styrkja barn félagslega og tilfinningalega í tengslum við tómstundir, menntun og vinnu. Verkefni persónulegra ráðgjafa eru því fjölbreytt. Lögð er áhersla á að samband persónulegs ráðgjafa og barns byggist á gagnkvæmu trausti og vinsemd.

 • Tilsjón

  Starfsmenn í tilsjón eru ráðnir á vegum barnaverndar samkvæmt barnaverndarlögum til að aðstoða fjölskyldur inni á heimilum þeirra. Stuðningurinn er margþættur en felst oftast í uppeldisráðgjöf, samstarfi við stofnanir sem fjölskyldan er í tengslum við og aðstoð við skipulag heimilisins.

 • Vistheimili (einkaheimili starfrækt allt árið)

  Samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga skulu barnaverndarnefndir hafa tiltæk úrræði til að veita börnum móttöku í bráðatilvikum. Barnavernd er með þjónustusamning við einkaheimili sem þjónar þessum tilgangi. Áhersla er lögð á að börnin sæki heimaskóla sinn á meðan á vistun stendur, að þau sinni tómstundum sínum og haldi vinatengslum.

 • Saman gegn ofbeldi

  Saman gegn ofbeldi er samstarfsverkefni velferðarsviðs og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Samstarfið felst í ákveðnu verklagi þegar tilkynningar berast um heimilisofbeldi.

 • Klókir litlir krakkar

  Sálfræðingar velferðarsviðs og menntasviðs halda forvarnarnámskeiðið Klóka litla krakka tvisvar á ári. Námskeiðið er fyrir foreldra 3-6 ára barna sem eru í áhættuhópi fyrir að þróa með sér kvíðaraskanir.

Síðast uppfært 19. nóvember 2018