Náttúrufræðistofa: Fyrirbæri Guðbjargar Lindar

Laugardaginn 20. maí klukkan 14 verður opnuð sýning á verkum eftir myndlistarmanninn Guðbjörgu Lind í Náttúrufræðistofu Kópavogs. Verkin eru innblásin af safngripum Náttúrufræðistofu og því rannsóknarstarfi sem þar fer fram. Guðbjörg vísar í söfnunaráráttu mannsins og upplifun á umhverfi okkar, hvernig við skoðum og flokkum ómeðvituð kerfi lífríkisins en einnig vinnur hún með gamla texta úr alþýðufræðum og gömlum íslenskum fræðiritum í bland við teikningar og náttúrugripi. Markmiðið er að skapa samtal við safngripi Náttúrufræðistofu Kópavogs sem er sett saman af þekkingu náttúrufræðinnar en nálganir vísindamannsins og listamannsins geta verið gjörólíkar og áskorunin felst í því óvænta sem gerist á þessu stefnumóti.

 

Guðbjörg Lind á að baki 24 einkasýningar auk þess að hafa tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Guðbjörg býr og starfar að list sinni  í Reykjavík og á Þingeyri. Verk hennar eru í eigu listasafna auk margra opinberra stofnana og einkasafna. Sýningin Fyrirbæri stendur til og með 2. september 2017 og er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 9.00 – 18.00 en á föstudögum og laugardögum frá kl. 11.00 – 17.00.