Menning á miðvikudögum | Íslensk tunga

Sindri Freysson, handhafi ljóðstafs Jóns úr Vör, rifjar upp þær háværu raddir sem hafa, allt frá því að sjónvarpsútsendingar hófust í herstöðinni í Keflavik um miðja seinustu öld, varað við ómenguðum amerískum áhrifum á íslenska menningu og tungu. Óheft aðgengi að erlendu myndefni á netinu síðustu ár og tilkoma streymisveita á borð við Netflix hefur enn frekar magnað upp þennan ótta. Sindri mun reifa þessa sögu og velta fyrir sér hvort að bandarísku áhrifin séu jafn hættuleg og margir halda fram. Eru íslensk menning og tunga í raun dauðadæmd eða eru frásagnir af margboðuðum dauða orðum auknar?

Viðburðurinn er liður í dagskrá Menningarhúsanna í Kópavogi, sem fer fram kl. 12:15 á Bókasafni Kópavogs, Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu Héraðsskjalasafni eða í Salnum í hverri viku. Viðburðurinn hlaut styrk frá nefnd um fullveldisafmæli Íslands. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.