Menningarhúsin: Ljóðasmiðja fyrir unglinga

Ásta Fanney Sigurðardóttir, skáld og myndlistarmaður, mun leiða námskeið í ljóðagerð í samtali við myndlist fyrir unglinga laugardaginn 11. mars frá 13-17. Námskeiðið fer fram í beinu samtali við sýninguna NORMIÐ ER NÝ FRAMÚRSTEFNA í Gerðarsafni í Kópavogi. Sýningin fjallar um hversdagsleikann og hið óvenjulega venjulega þar sem listaverkin taka meðal annars á sig form húsgagna, skópars og viskustykkis. 

Ásta Fanney Sigurðardóttir hefur unnið ljóðabækur, videóljóðasýningar, tónlistartengda ljóðaupplestra, sviðsljóðlist og gjörninga. Ásta Fanney hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Silkileið nr. 17 fyrr á þessu ári. 

Þátttaka í námskeiðinu er ókeypis en fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Skráning á námskeiðið fer fram á póstfangið menningarhusin@kopavogur.is.
Námskeiðið er í boði Menningarhúsanna í Kópavogi.