Heimsmarkmiðin í Kópavogi

Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í stefnu Kópavogsbæjar. Kópavogur verður fyrsta sveitarfélag á Íslandi til þess að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með formlegum hætti.

Stefna Kópavogsbæjar samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Stefna

Hlutverk

Hlutverk Kópavogsbæjar er að tryggja lífsgæði íbúanna með góðri og fjölbreyttri þjónustu. Grunnreglur bæjarfélagsins eru skýrar og miða að því að allir hafi tækifæri til áhrifa. Kópavogsbær leggur áherslu á gott mannlíf, skilvirkan og ábyrgan rekstur ásamt öflugu atvinnulífi.

Framtíðarsýn

Kópavogur er bær þar sem veitt er framúrskarandi þjónusta og fólk og fyrirtæki sækjast eftir að búa í og starfa. Kópavogsbær er borgarsamfélag í nánum tengslum við náttúruna enda sýnir bærinn umhverfislega og samfélagslega ábyrgð. Í Kópavogi eru skólar í fremstu röð og vel hugað að líðan, heilsu og velferð íbúa á öllum aldri.

Kópavogur er samfélag sem byggir á lýðræðislegum ákvörðunum þar sem íbúarnir hafa áhrif á eigin mál. Kópavogsbær er rekinn af ráðdeild þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni og skilvirkni. Kópavogur er í fararbroddi í nýsköpun og tileinkar sér tækninýjungar í starfsemi sinni.

Gildi

Kópavogsbær, starfsmenn og kjörnir fulltrúar, koma fram af auðmýkt gagnvart íbúum bæjarins enda starfa þeir fyrir þá og í þeirra umboði. Við töku ákvarðana skal haft hugfast að valdið kemur fram frá íbúum bæjarins og þeir sem fara með það hverju sinni gera það aðeins í umboði íbúa.

Gildi Kópavogsbæjar eru:

UMHYGGJA - FRAMSÆKNI - VIRÐING - HEIÐARLEIKI

Yfirmarkmið bæjarstjórnar

Bæjarstjórn hefur sett 36 yfirmarkmið fyrir starfsemi sína sem eru hluti  af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Heimsmarkmið 1 - Engin fátækt

Útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar

1.2 Eigi síðar en árið 2030 búi a.m.k. helmingi færri karlar, konur og börn, óháð aldri, við fátækt eins og hún er skilgreind í hverju landi.

Heimsmarkmið 3 - Heilsa og vellíðan

Stuðla að heilbrigðu lífi og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar

3.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma verið fækkað um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð og stuðlað að geðheilbrigði og vellíðan.

3.6 Eigi síðar en árið 2020 verði búið að ná fjölda dauðsfalla og alvarlega slasaðra vegna umferðarslysa niður um helming á heimsvísu.

Heimsmarkmið 4 - Menntun fyrir alla

Tryggja öllum jafnan aðgang að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi

4.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi ungmennum og fullorðnum með hagnýta kunnáttu fjölgað umtalsvert, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar, til þess að geta gegnt viðeigandi störfum, fengið mannsæmandi vinnu og stundað frumkvöðlastarfsemi.

4.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.

Heimsmarkmið 5 - Jafnrétti kynjanna

Jafnrétti kynjanna verði tryggt og staða allra kvenna og stúlkna styrkt

5.2 Hvers kyns ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á opinberum vettvangi sem og í einkalífi, þ.m.t. mansal, kynferðisleg misneyting og misneyting af öðru tagi, verði ekki liðið og regluverk sem styður við ofbeldi afnumið.

Heimsmarkmið 6 - Hreint vatn og hreinlætisaðstaða

Tryggja aðgengi allra að hreinu vatni og sjálfbæra nýtingu þess svo og hreinlætisaðstöðu

6.3 Eigi síðar en árið 2030 verði vatnsgæði aukin með því að draga úr mengun, útiloka óæskilega sorplosun og lágmarka losun hættulegra efna og efnablandna. Hlutfall óunnins skólps og frárennslisvatns verði minnkað um helming og endurvinnsla og örugg endurnýting aukin til muna um heim allan.

6.5 Eigi síðar en árið 2030 verði stjórnun vatnsauðlinda samþætt á öllum sviðum, meðal annars með samstarfi yfir landamæri eftir því sem við á.

6.6 Eigi síðar en árið 2020 verði unnið að úrræðum til að vernda og endurheimta vatnstengd vistkerfi, þ.m.t. fjalllendi, skóga, votlendi, ár, grunnvatnsból og vötn

Heimsmarkmið 8 - Góð atvinna og hagvöxtur

Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla

8.5 Eigi síðar en árið 2030 verði full vinna og mannsæmandi störf í boði fyrir allar konur og karla, þar á meðal ungt fólk og fatlað fólk, og sömu laun greidd fyrir jafnverðmæt störf.

8.9 Eigi síðar en árið 2030 hafi verið mótuð og innleidd stefna í því skyni að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapar störf og leggur áherslu á staðbundna menningu og framleiðsluvörur.

Heimsmarkmið 9 - Nýsköpun og uppbygging

Byggja upp trausta innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun

9.1 Þróaðir verði traustir innviðir, sjálfbærir og sveigjanlegir, hvort sem
er staðbundnir eða yfir landamæri, í því skyni að styðja við efnahagsþróun og velmegun þar
sem lögð verði áhersla á jafnt aðgengi á viðráðanlegu verði fyrir alla.

9.C Aðgengi að upplýsinga- og fjarskiptatækni verði aukið verulega og lagt kapp á að almenningur
hafi aðgang að netinu á viðráðanlegu verði í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin.

Heimsmarkmið 10 - Aukinn jöfnuður

Draga úr ójöfnuði í heiminum

10.2 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum gert kleift að taka þátt í félagslífi og hafa afskipti
af efnahagsmálum og stjórnmálum, án tillits til aldurs, kyns, fötlunar, kynþáttar, þjóðernis,
uppruna, trúarbragða, efnahags eða annarrar stöðu.

10.3 Tryggð verði jöfn tækifæri og dregið úr ójöfnuði, meðal annars með afnámi laga, breyttri stefnumótun
og starfsháttum sem ala á mismunun, samhliða því að þrýsta á lagasetningu, stefnumótun og starfshætti sem
styðja við markmiðið.

Heimsmarkmið 11 - Sjálfbærar borgir og samfélög

Gera borgir og íbúðarsvæði örugg, sjálfbær og öllum aðgengileg

11.1 Eigi síðar en árið 2030 geti allir orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á
viðráðanlegu verði, fátækrahverfi verði endurbætt og grunnþjónusta standi öllum til boða.

11.2 Eigi síðar en árið 2030 geti allir ferðast með öruggum sjálfbærum samgöngutækjum á
viðráðanlegu verði á bættu vegakerfi. Lögð verði áhersla á betri almenningssamgöngur sem taka mið af fólki í
viðkvæmri stöðu, konum, börnum, fötluðu fólki og öldruðum.

11.3 Eigi síðar en árið 2030 verði fjölgun í þéttbýli sjálfbær og íbúar alls staðar í heiminum taki meiri þátt í
skipulagsmálum og samkomulagi um sjálfbærni.

11.4 Blásið til sóknar til þess að vernda og tryggja náttúru- og menningararfleifð heimsins.

11.6 Eigi síðar en árið 2030 verði dregið úr skaðlegum umhverfisáhrifum í borgum, meðal annars með því
að bæta loftgæði og meðhöndlun úrgangs.

11.7 Eigi síðar en árið 2030 verði græn svæði gerð örugg og aðgengileg fyrir almenning, einkum konur og
börn, aldraða og fatlað fólk.

11.A Stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í
borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða

Heimsmarkmið 12 - Ábyrg neysla og framreiðsla

Tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur

12.2 Eigi síðar en árið 2030 verði markmiðum um sjálfbæra og skilvirka nýtingu náttúruauðlinda náð.

12.7 Stuðlað verði að sjálfbæru verklagi við opinber innkaup í samræmi við innlenda stefnu og forgangsröðun.

Heimsmarkmið 13 - Aðgerðir í loftslagsmálum

Grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra

13.1 Auka viðbragðsáætlanir og forvarnir við vá af völdum loftslagsbreytinga og náttúruhamfara alls staðar í heiminum.

13.2 Ráðstafanir vegna loftslagsbreytinga verði að finna í landsáætlunum, stefnumótunum og skipulagi.

Heimsmarkmið 14 - Líf í vatni

Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt

14.2 Eigi síðar en árið 2020 verði gengið vel um vistkerfi sjávar og stranda og þau vernduð á sjálfbæran hátt til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif, þar á meðal með því að grípa til aðgerða til að endurheimta og hlúa að vistkerfunum og njóta ábatans

Heimsmarkmið 15 - Líf á landi

Vernda og endurheimta vistkerfi á landi og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra, vinna að sjálfbærri stjórn skóga, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva jarðvegseyðingu, endurheimta landgæði og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni

15.1 Eigi síðar en árið 2020 verði vistkerfi á landi og í ferskvatni vernduð og stuðlað að sjálfbærri nýtingu þeirra og endurheimt, einkum skóga, votlendis, fjalllendis og þurrkasvæða, í samræmi við skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum.

15.2 Eigi síðar en árið 2020 hafi tekist að efla sjálfbærni skóga af öllu tagi, stöðva skógareyðingu, endurheimta hnignandi skóga og auka verulega nýskógrækt og endurrækta skóga um allan heim.

15.5 Gripið verði til brýnna og nauðsynlegra aðgerða til að sporna við hnignun náttúrulegra búsvæða og líffræðilegrar fjölbreytni. Eigi síðar en árið 2020 verði gripið til aðgerða til að vernda tegundir í bráðri hættu og koma í veg fyrir útrýmingu þeirra.

15.9 Eigi síðar en árið 2020 verði tekið tillit til gildis vistkerfis og líffræðilegrar fjölbreytni við gerð lands- og svæðisáætlana og í öllu þróunarferli, skýrslugerðum og aðgerðum til að draga úr fátækt

Heimsmarkmið 16 - Friður og réttlæti

Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla jarðarbúa, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum

16.1 Dregið verði verulega úr hvers kyns ofbeldi og dauðsföllum sem rekja má til þess.

16.2 Tekið verði fyrir misnotkun, misneytingu, mansal og hvers kyns ofbeldi gegn börnum og pyntingar verði
upprættar.

16.6 Byggðar verði upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum sem hafa gagnsæi að leiðarljósi.

16.7 Teknar verði ákvarðanir á öllum sviðum þar sem brugðist er við aðstæðum og víðtæk þátttaka tryggð.

Heimsmarkmið 17 - Samvinna um markmið

Blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og grípa til aðgerða

17.17 Hvetja til skilvirkra samstarfsverkefna hjá hinu opinbera, milli opinbera geirans og einkaaðila og á meðal borgaranna og styðja við slík verkefni. Við framkvæmd þeirra verði byggt á reynslu af samstarfsverkefnum almennt og útsjónarsemi höfð í fyrirrúmi.

Aðferð í Kópavogi

Við val á yfirmarkmiðum hjá Kópavogsbæ var litið til þriggja þátta. Í fyrsta lagi forgangsmarkmiða ríkisstjórnar Íslands, í öðru lagi afstöðu Heimssambands sveitarfélaga til þess hvaða undirmarkmið falla að verkefnum sveitarfélaga og  loks verkefna sem Kópavogsbær hefur skuldbundið til að vinna að svo sem innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Með þessari afmörkun eru forgangsmarkmið bæjarstjórnar Kópavogs, og þar með yfirmarkmið í heildarstefnu sveitarfélagsins, 36 talsins.

Mælingar

Heimsmarkmiðavísitölu Kópavogs er ætlað að gefa sýn á stöðu innleiðingar Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem lið í innleiðingu á heildarstefnu Kópavogsbæjar. 

Heimsmarkmiðin eru leiðarljós flestra þjóða heims til ársins 2030 og mynda þau jafnvægi á milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu og endurspeglast það í mælikvörðum vísitölunnar.

Vísitalan mælir þróun á stöðu innleiðingar á þeim Heimsmarkmiðum sem Kópavogur hefur forgangsraðað en þau eru 15 af 17 alls, auk þess að mæla þróun á stöðu innleiðingar á 36 yfirmarkmiðum Kópavogs sem forgangsraðað hefur verið úr 169 undirmarkmiðum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. 

Heimsmarkmiðavísitalan byggir á mælikvarðasetti Sameinuðu þjóðanna fyrir Heimsmarkmiðin og aðferðafræði OECD um mælingar fyrir svæðisstjórnir og borgir um innleiðingu á Heimsmarkmiðunum.  Kópavogur hefur verið þátttakandi í verkefni OECD, ásamt um níu öðrum borgum eða landshlutum um heim allan, sem hefur það meðal annars að markmiði að búa til samanburðarhæfar mælingar milli sveitarfélaga. Hér má sjá skýrslu OECD um Kópavog.

Leitast er við að nota staðlaða mælikvarða eða mælikvarða sem nú þegar eru algengir við mælingu á Heimsmarkmiðunum. Fjöldi mælikvarða í vísitölunni er 94 en um 118 mælingar er að ræða þar sem sumir mælikvarðar eru notaðir oftar en einu sinni.  Hér er hægt að sjá nánar um aðferðafræði vísitölunnar.

Vísitalan er vistuð í upplýsingakerfi sem upplýsingatæknideild Kópavogs hefur þróað sérstaklega síðustu ár og ber nafnið Nightingale.

Skoða Heimsmarkmiðavísitölu Kópavogs

Stjórnsýsla Kópavogsbæjar starfar í samræmi við ISO9001 staðalinn og hefur gæðakerfi bæjarins hlotið utanaðkomandi vottun undanfarin ár.

Í tengslum við stefnumótun bæjarins var ákveðið að innleiða mælingar á starfsemi sveitarfélagsins samkvæmt öðrum ISO staðli 37120.  ISO37120 er staðall um sjálfbærni sem WCCD, alþjóðleg stofnun í Kanada, sér um. Kópavogur hefur fengið platínuvottun en það er hæsta mögulega vottun. Með því að uppfylla staðalinn er Kópavogur orðinn hluti af hópi sveitarfélaga á alþjóðavísu sem öll mæla á sama hátt um 100 vísa sem segja til um félagslegan, efnahagslegan og umhverfislegan árangur sveitarfélagsins.  WCCD hefur tengt mælikvarðana við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Nánari upplýsingar um mælingar fyrir Kópavog samkvæmt ISO37120 má finna á http://open.dataforcities.org/

Hér má finna bækling WCCD á ensku þar sem búið er að tengja mælikvarðana í ISO37120 við Heimsmarkmiðin.  

Kópavogur er að þróa Vísitölu barnvænna sveitarfélaga með Unicef og félagsmálaráðuneytinu. Þar er um að ræða vísitölu og mælaborð til að fylgjast með lífsgæðum barna.  
Mælaborð barn

Við greiningu á ytra umhverfi í stefnumótunarferli bæjarstjórnar var ákveðið að notast við vísitölu félagslegra framfara (VFF).  Vísitalan er á vegum SPI á Íslandi og hefur nú fengið nafnið Framfaravog. 

Vísitalan  er   byggð upp af samfélagslegum og umhverfislegum vísum sem ná yfir þrjár víddir félagslegra framfara. SPI á Íslandi hefur tengt mælikvarðana við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
SPI skýrsla.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Árið 2000 settu Sameinuðu þjóðirnar fram Þúsaldarmarkmið til ársins 2015 sem sneru fyrst og fremst að þróunarríkjunum. Mikill árangur náðist og því var ákveðið að setja ný markmið til ársins 2030 og ná þau til allra ríkja heims. 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt árið 2015. Þau eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og ná bæði til alþjóðasamstarfs og innanríkismála. Markmiðin eru algild, sem merkir að aðildarríki SÞ hafa skuldbundið sig til að innleiða þau bæði innanlands og með alþjóðasamstarfi.

Bæjarstjórn hefur samþykkt að yfirmarkmiðin taki mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þannig verður unnið markvisst að því að uppfylla þau fyrir árið 2030.  Í myndböndunum er kynningarefni um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Heimssamband sveitarfélaga (United Cities and Local Governments)

Heimsmarkmið 11, Sjálfbærar borgir og samfélög, snýr sérstaklega að sveitarfélögum. Engu að síður snerta öll Heimsmarkmiðin starfsemi sveitarfélaga með einhverjum, en mismiklum hætti.

Heimssamband sveitarfélaga, eða United Cities and Local Governments (UCLG) hefur flokkað undirmarkmið Heimsmarkmiðanna og tekið saman hver þeirra falla að starfsemi sveitarfélaga og eru þau 92 talsins. Flokkun Heimssambandsins var notuð við val Kópavogsbæjar yfirmarkmiðum.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um Heimssamband sveitarfélaga, www.uclg.org.