Fréttir

Tilkynningar

Viðburðir

02.11.2025 kl. 20:00 - Salurinn

Söngleikjastælar

Vegna fjölda áskoranna munu Bjarni Snæbjörns og Sigga Eyrún snúa aftur í Salinn með tónleikaröðina SÖNGLEIKJASTÆLA. Tónleikaröðin sló í gegn í fyrra og er óður til söngleikjanna þar sem ný og gömul söngleikjatónlist fær að njóta sín í meðförum reyndra söng-leikara ásamt hljómsveit. Að þessu sinni verða þrennir tónleikar sem teygja sig yfir allan veturinn þar sem hverjir tónleikar eru með ólíka nálgun á formið.  2. nóvember: Nýstirnið Salka Gústafsdóttir og þjóðargersemin Jóhann Sigurðarson koma sem gestasöngvarar og flytja sín uppáhalds söngleikjalög.7. febrúar: Sprúðlandi fjölskyldutónleikar um miðjan dag þar sem börn á öllum aldri fá að syngja með.25. apríl: Sprengju-tónleikar með Söngleikjakórnum Viðlag.  SMELLTU HÉR TIL AÐ KAUPA ÁSKRIFT Á ALLA ÞRJÁ TÓNLEIKANA Á EINSTÖKU TILBOÐI Sigga Eyrún og Bjarni Snæbjörnsson eru ástríðufullir söng-leikarar. Samstarf þeirra hófst á Reykjavík Pride árið 2008 með söngleikjaparinu Viggó og Víólettu. Síðan þá hafa þau lagt hjarta og sál í söngleikjaformið og skemmt landanum á sviðum leikhúsanna, á árshátíðum, í afmælum og víðar. Meðal söngleikja sem þau hafa tekið þátt í eru: Vesalingarnir, Mary Poppins, Kardemommubærinn, Sem á himni, Slá í gegn, Ronja Ræningjadóttir, Jesus Christ Superstar, Frost og Góðan daginn, faggi.  Hljómsveitin er sem fyrr skipuð okkar fremsta tónlistarfólki: Karl Olgeirsson: hljómsveitarstjóri spilar á píanó, hljómborð, harmonikku o.fl.Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir á trommur/slagverkAndri Ólafsson á bassa
01.12.2025 kl. 08:00 - Bókasafn Kópavogs

Skiptimarkaður jólasveinsins

Skiptimarkaður jólasveinsins er nú opinn á 2. hæð aðalsafns. Jólasveinarnir vilja ýta undir hringrásarhagkerfið og hafa því fengið aðsetur hjá okkur fyrir dótaskiptimarkað. Þar má bæði skilja eftir og/eða taka dót, án allra kvaða. Skiptimarkaðurinn verður opinn frá 1. til 23. desember.
01.12.2025 kl. 08:00 - Bókasafn Kópavogs

Jólafataskiptimarkaður

Nýtt á aðalsafni, jólafataskiptimarkaður á 1. hæð þar sem þú gætir fundið spariföt fyrir alla fjölskylduna. Ýtum undir hringrásarhagkerfið og skiptumst á sparifötum! Á skiptimarkaðinum má bæði skilja eftir og/eða taka spariföt, án allra kvaða. Tökum við hreinum og fínum fötum í öllum stærðum. Skiptimarkaðurinn verður opinn frá 1. til 23. desember.
10.12.2025 kl. 14:00 - Bókasafn Kópavogs

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín hittist alla miðvikudaga á 2. hæð aðalsafns. Heitt á könnunni og öll velkomin! Nánari upplýsingar veitir Gréta Björg Ólafsdóttir, gretabjorg@kopavogur.is Fylgist með í Facebook-hópnum Hannyrðaklúbburinn Kaðlín | Bókasafn Kópavogs.
10.12.2025 kl. 16:30 - Bókasafn Kópavogs

Sögufélag Kópavogs | Myndgreining

Þekkirðu ljósmyndina?Myndgreining með Símoni Hjalta Sverrissyni. Sögufélag Kópavogs stendur fyrir myndgreiningarviðburðum sem opnir eru almenningi, þar sem tækifæri gefst til að bera kennsl á myndefni úr fórum Sögufélags Kópavogs. Leitast er við að svara spurningunum um það hverjir eru á myndinni, hvar myndin er tekin og hvenær. Oftar en ekki koma í kjölfarið fleiri upplýsingar og sögur sem auka enn á varðveislugildi myndanna. Ókeypis inn og öll velkomin.
10.12.2025 kl. 17:15 - Bókasafn Kópavogs

Unglingabókaspjall

Arndís Þórarinsdóttir, Brynhildur Þórarinsdóttir og Gunnar Theodór Eggertsson verða gestir Helgu Birgisdóttur í unglingabókaspjalli Bókasafns Kópavogs. Þau lesa úr glænýjum skáldsögum sínum og taka þátt í líflegum umræðum um bækurnar sem eru Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur, Silfurgengið eftir Brynhildi Þórarinsdóttur og Álfareiðin eftir Gunnar Theodór Eggertsson. Boðið verður upp á smákökur, kakó og notalega stemningu. Aðgangur ókeypis og öll hjartanlega velkomin meðan húsrúm leyfir. Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur Sólgos er spennandi og áhrifarík unglingabók um samfélag þar sem allar reglurnar hafa horfið á einu bretti og ógnin er orðin helsti gjaldmiðillinn. Mitt í upplausninni má þó finna samstöðu, samkennd og heitar tilfinningar. Silfurgengið eftir Brynhildi Þórarinsdóttur Sirrýlei ætlar að halda gott 15 ára afmælispartí fyrir vini sína. Foreldrar hennar verða í útlöndum og planið er alveg skothelt. En smám saman flækjast málin, meira að segja amma hennar klikkar með því að gefa henni eldgamla nælu í staðinn fyrir flottu úlpuna sem hún óskaði sér. Sirrýlei á erfitt með að halda kúlinu gagnvart vinum sínum þegar saga nælunnar og fyrri eigenda hennar, Silfurgengisins, nær tökum á henni. Bestu vinkonur hennar botna ekkert í henni og ekki batnar það þegar Sirrýlei velur nördalegasta áfangann í skólanum og lendir þar í hópi með stórundarlegum krökkum, meðal annars nýja stráknum með skrýtna nafnið og skyrhárið! Silfurgengið er grípandi saga um vináttu og óvænt örlög. Álfareiðin eftir Gunnar Theodór Eggertsson Menntskælingurinn Líneik er spennt að búa til hlaðvarpsþátt í valáfanga í fjölmiðlafræði en þykir alveg glatað að hann eigi að vera um álfa. Og ekki nóg með það heldur neyðist hún til að vinna í hóp og situr uppi með bæði skrýtnu stelpuna og mesta slugsann í bekknum. Perla og Jónki leyna þó á sér og fyrr en varir eru þau búin að grafa upp dularfullt þorp á Suðurlandi sem tengist álfum og virðist eiga sér blóðuga sögu. Þegar þríeykið mætir á staðinn rennur fljótt upp fyrir þeim að þorpsbúarnir hafa margt og miður fallegt að fela – og það getur reynst stórhættulegt að spyrja rangra spurninga.
10.12.2025 kl. 16:00 - Bókasafn Kópavogs

Aðventutónleikar Tónlistarskóla Kópavogs

Nemendur Tónlistarskóla Kópavogs spila ljúfa jólatónlist fyrir gesti og gangandi á 1. hæð aðalsafns dagana 3. desember, 10. desember og 17. desember kl. 16:00. Piparkökur og hugguleg stemning. Öll velkomin!
10.12.2025 kl. 18:00 - Gerðarsafn

Gerðarverðlaunin 2025

Verið hjartanlega velkomin á afhendingu Gerðarverðlaunanna, miðvikudaginn 10. desember kl. 18:00 í Gerðarsafni. Gerðarverðlaunin eru til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara og eru veitt listamanni fyrir ríkulegt framlag til höggmynda- og rýmislistar á Íslandi. Gerðarverðlaunin eru nú veitt í sjötta sinn en fyrri handhafar þeirra eru Rósa Gísladóttir, Þór Vigfússon, Finnbogi Pétursson, Ragna Róbertsdóttir og Helgi Hjaltalín Eyjólfsson. Léttar veitingar verða í boði. Gerðarverðlaunin eru veitt með stuðningi frá Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar.
10.12.2025 kl. 12:15 - Gerðarsafn

Leiðsögn með Agnesi Ársælsdóttur

Verið öll hjartanlega velkomin á leiðsögn um sýninguna Skúlptúr skúlptúr performans með Agnesi Ársælsdóttur miðvikudaginn 10. desember kl. 12.15 í Gerðarsafni. Agnes Ársælsdóttir er myndlistarmaður og sýningarstjóri sem leggur áherslu á gjörninga og aðra lifandi miðla. Hún útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2018 og MA gráðu í Sýningargerð, miðlun og sýningarstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2025. Í námi sínu vann Agnes rannsókn í samstarfi við Nýlistasafnið sem bar heitið Hvar eru gjörningarnir geymdir? þar sem hún leitaðist við að finna upplýsingar um alla gjörninga sem hafa verið framdir á Íslandi og reyna þannig að varðveita sögu þessa hverfula forms sem rennur okkur sífellt úr greipum. Líf okkar samanstanda af óteljandi umbreytingum – stórum eða smáum, hljóðlátum eða yfirþyrmandi. Við göngum í gegnum þessar umskiptingar, þar sem tilfinningar brjótast fram án viðvörunar – og eitthvað óáþreifanlegt byrjar að titra. Í sjöttu sýningu Skúlptúr skúlptúr raðar Gerðarsafns mæta gjörningar höggmyndalist. Er þar listsköpun fundinn staður mitt í þessum umbreytingastundum, þar sem við vitum ekki hvar eitt endar og annað hefst – þar sem form, tilfinningar og merkingar fljóta um án þess að festa rætur. Listafólk sýningarinnar bregst við þessum umbreytingum með viðkvæmni, leikgleði, fögnuði og von – og réttir fram hönd hvað til annars, aftur til fortíðarinnar og hvísla mjúklega óskum til framtíðarinnar. Listafólk sýningarinnar eru Curro Rodriguez, Hekla Dögg Jónsdóttir, Jasa Baka, Kristín Helga Ríkharðsdóttir, Mjólk (Hlín Gylfadóttir, Karlotta Blöndal, Unnar Örn Jónasson Auðarson), Post Performance Blues Band (Álfrún Örnólfsdóttir, Hrefna Lind Lárusdóttir, Saga Kjerúlf), Regn Sólmundur Evu og Styrmir Örn Guðmundsson. Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði og Myndstef. Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði og Myndstef. Hádegisleiðsögnin er liður í viðburðaröðinni Menning á miðvikudögum sem er styrkt af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar. Aðgangur er ókeypis.
11.12.2025 kl. 20:00 - Salurinn

Una Torfa í jólafötunum

Una Torfa kíkir í Salinn í jólaskapi! Á notalegum tónleikum mun Una flytja blöndu af sínum eigin lögum og jólalögum sem henni þykir vænt um. Hafsteinn Þráinsson verður með Unu á sviðinu og leikur á gítar. Í jólastressinu er ekkert betra en að gefa sér góða kvöldstund til þess að slaka á og rifja upp friðinn sem gleymist oft í undirbúningi jólanna. Una ætlar að skapa friðsælt og ljúft andrúmsloft eins og henni einni er lagið. Ímyndaðu þér heitt súkkulaði, heitt súkkulaði með eins miklum þeyttum rjóma og þig lystir, heitt súkkulaði og tvö piparkökuhjörtu á undirskál. Finnurðu hlýjuna? Svona mun þér líða þegar þú kemur að sjá Unu Torfa í jólafötunum í Salnum.
12.12.2025 kl. 21:00 - Salurinn

Jólatónleikar með Margréti Eir

Stórsöngkonan Margrét Eir hefur í rúma þrjá áratugi heillað landsmenn með sinni kraftmiklu rödd, ótrúlegu hæfileikum og óneitanlegum sjarma en hún hefur fyrir löngu skipað sér sess sem ein okkar færasta og ástsælasta söngkona. Rödd Margrétar er ekki síst orðin ómissandi hluti af jólatónaflóðinu með öllu frá árlegum jólatónleikum í Fríkirkjunni í Hafnarfirði að hinum stórkostlegu og ógleymanlegu Frostrósartónleikum.  Þetta árið gefur Margrét ekkert eftir og reiðir fram töfrandi og hátíðlega stund á aðventunni með glæsilegum jólatónleikum ásamt hljómsveit og góðum gestum. Ekki missa af þessu tækifæri til að hverfa frá hversdagsamstri og jólaundirbúningi með því að njóta dásamlegrar kvöldstundar í Salnum. Áheyrendur mega eiga von á sannkallaðri tónleikaveislu með blöndu af sígildum gömlum og nýjum lögum í bland sem leiða okkur brosandi inn í anda jólanna.  Sérstakir gestir:  Stefanía Svavarsdóttir Pétur Ernir Svavarsson Hljóðfæraleikarar Börkur Hrafn Birgisson Þorgrímur Jónsson Daði Birgisson Óskar Þormarsson Raddir  Gunnur Arndís Halldórsdóttir Helga Margrét Clarke
12.12.2025 kl. 11:00 - Bókasafn Kópavogs

Get together

Get Together meet-ups will be held at the Library in Kópavogur, on the first floor in the Tilraunastofa - meeting room. The meet-ups are international meetings open to refugees, asylum-seekers, immigrants, and anyone seeking companionship. Whether you're a family or an individual, you're welcome to join us. Each week, we gather and do relaxing activities like painting, weaving, crafting, and more. It's all about getting together, making new friends, and sharing stories in a warm, supportive space.Get Together meet-ups are a collaboration between GETA aid organization and the Library in Kópavogur.We offer free coffee and treats for everyone! These meet ups are a part of the project The library in a multilingual society sponsored by Nordplus and Bókasafnasjóður. Get Together heldur alþjóðlegan fjölskyldu- og vinahitting á Bókasafni Kópavogs, á fyrstu hæð í Tilraunastofunni. Þetta er alþjóðlegur hittingur fyrir flóttafólk, hælisleitendur, innflytjendur og öll sem vilja félagsskap.Viðburðurinn er bæði fyrir fjölskyldur og einstaklinga. Í hverri viku munum við hittast og gera eitthvað skemmtilegt saman eins og að mála, prjóna, föndra o.fl. Í Get together hittum við nýja vini og deilum sögum okkar í þægilegu og öruggu umhverfi. Get Together er samstarfsverkefni milli GETA hjálparsamtök og Bókasafn Kópavogs. Við munum bjóða upp á kaffi og með því! Þessi viðburður er hluti af verkefninu Bókasafnið í fjölþjóðlegu umhverfi sem er styrkt af Nordplus og Bókasafnasjóði.
Fleiri viðburðir