Nýtt Aðalskipulag Kópavogs 2019-2040, tillaga

Nýtt Aðalskipulag Kópavogs 2019-2040. Tillaga til kynningar.

Vakin er athygli á að bæjarstjórn Kópavogs samþykkti 9. mars 2021 að auglýsa tillögu að nýju Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 - dags. 24. nóvember 2021, uppfærð í febrúar 2021 -  í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um auglýsingu aðalskipulagstillögu. Tillagan var uppfærð í febrúar 2021 með vísan til athugasemda Skipulagsstofnunar dags. 8. febrúar 2021.

Í tillögunni kemur m.a. fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál innan lögsögu Kópavogs til næstu 20 ára. Enn fremur er kynnt umhverfismat aðalskipulagsins sem sett er fram í umhverfisskýrslu. Matið er unnið í samræmi við lög nr. 105 frá 2006 en markmið laganna er að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og jafnframt stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða.

Tillagan ásamt umhverfisskýrslu og öðrum gögnum er aðgengileg á heimasíðu bæjarins á; https://www.kopavogur.is/is/ibuar/skipulagsmal/skipulag-i-kynningu og í þjónustuveri Kópavogsbæjar að Digranesvegi 1 frá kl. 8:30 til 16:00 mánudaga til fimmtudaga á föstudögum frá 8:30 til 13:00.

Tillagan ásamt öðrum gögnum verður einnig aðgengileg hjá Skipulagsstofnun á www.skipulag.is.

Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. Athugasemdir og ábendingar þurfa að berast til skipulagsdeildar Kópavogs, Digranesvegi 1, eða með tölvupósti á skipulag@kopavogur.is eigi síðar en kl.15:00, fimmtudaginn 27. maí 2021.

Vakin er athygli á því að fimmtudaginn 15. apríl nk. milli kl. 16:30 til 18:00 verður haldinn kynningarfundur í beinu streymi um aðalskipulagstillöguna. Fundurinn verður aðgengilegur á heimasíðu Kópavogs, www.kopavogur.is. Upptaka af fundinum verður síðan gerð aðgengileg á heimasíðu bæjarins eftir fundinn. Enn fremur mun kynningarefni fundarins verða aðgengilegt á heimasíðunni. Hægt verður að senda inn fyrirspurnir til starfsmanna skipulagsdeildar meðan á fundinum stendur á tölvupóstfangið skipulag@kopavogur.is