28.09.2023 kl. 20:30 - Salurinn
Hinir ofurgreindu spéfuglar hafa skemmt þjóðinni um áraraðir á ljósvakamiðlunum og má segja að þeir hafi slegið alveg nýjan tón þegar þeir birtust landsmönnum í fyrsta sinn. Tvíhöfði er menningarfyrirbæri sem allir hafa skoðun á og nú heimsækja þeir Jón Ólafsson í fyrsta sinn. Áherslan verður lögð á tónlist þeirra Jóns & Sigurjóns en í gegnum tíðina hafa þeir bæði samið og flutt tónlist sem margir halda upp á. Helgi, persónulegi trúbadorinn, gæti komið við sögu og jafnvel Adolf Hitler. Það er allt brjálað í bænum og allir stuði í!
Jón Ólafs snýr aftur með spjalltónleikaröðina sína, Af fingrum fram. Röðin hefur fyrir löngu fest sig í sessi hjá tónlistarunnendum landsins en Jón hefur á síðastliðnum fimmtán árum fengið til sín yfir 50 listamenn og hafa fleiri en 30.000 áhorfendur hrifist og hlegið með á þessum einstöku kvöldum Í Salnum.
02.10.2023 kl. 08:00 - Bókasafn Kópavogs
Mánaðarlegi bókamarkaðurinn okkar er á aðalsafni þessa vikuna.
Bækur og fleira á góðu verði.
03.10.2023 kl. 17:00 - Bókasafn Kópavogs
Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur leiðir matjurtaspjall á Lindasafni, þriðjudaginn 3. október kl. 17.
Langar þig að rækta þitt eigið grænmeti? Var uppskeran ekki alveg í takt við væntingar? Ertu grænmetishvíslari? Sama hvar þú stendur í ræktun þá er matjurtaspjallið fyrir þig.
Síðasta vor hófst tilraunarækt á matjurtum hjá Bókasafni Kópavogs sem hluti af sjálfbærnistefnu safnsins. Við fórum í matjurtamaníu en þurfum og getum ávallt á okkur blómum bætt og ætlum að fá sérfræðinginn og átrúnaðargoðið Gurrý til að kenna öll brögðin í bókinni!
Hlökkum til að sjá ykkur.
Öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.
04.10.2023 kl. 14:00 - Bókasafn Kópavogs
Hannyrðaklúbburinn Kaðlín hittist alla miðvikudaga á 2. hæð aðalsafns. Heitt á könnunni og allir velkomnir!
Nánari upplýsingar veitir Gréta Björg Ólafsdóttir, gretabjorg@kopavogur.is
Fylgist með í Facebook-hópnum Hannyrðaklúbburinn Kaðlín | Bókasafn Kópavogs.
04.10.2023 kl. 16:00 - Bókasafn Kópavogs
Bókmenntaklúbburinn Hananú! hittist í Huldustofu á 3. hæð aðalsafns.
Annan hvern miðvikudag hittist á bókasafninu fremur siðprúður hópur fólks og ræðir hinar fögru orðlistir. Komið bara og gangið í bæinn, tölum um bækur – og Hananú!
Fylgist með í Facebook-hópnum Bókmenntaklúbburinn Hananú | Bókasafn Kópavogs.
04.10.2023 kl. 12:15 - Gerðarsafn
Leiðsögn myndlistarkvennanna Önnu Líndal og Eyglóar Harðardóttur um verk sín á sýningunni Skúlptúr/Skúlptúr.
Aðgangur ókeypis og öll hjartanlega velkomin!
Sýningaröðin Skúlptúr/Skúlptúr er nú haldin í fimmta skiptið í Gerðarsafni þar sem leitast er við að kanna hver staða höggmyndalistar sé í samtíma okkar. Sýningaröðin kannar þróun þrívíðrar myndlistar með vísunum í frumkvöðlastarf Gerðar Helgadóttur (1928-1975) innan íslenskrar höggmyndalistar. Titillinn vísar til sýningarinnar Skúlptúr/skúlptúr/skúlptúr, samsýningar 29 listamanna sem haldin var á Kjarvalsstöðum árið 1994 og gaf veigamikið yfirlit yfir höggmyndalist þess tíma.Þessi fimmta sýning er með öðru sniði en áður þar sem leitast er við að taka stöðu á skúlptúrnum í dag með samsýningu tíu listamanna. Enginn einn samnefnari er með þeim listamönnum sem taka þátt í sýningunni en í samtali verka þeirra má finna forvitnilegar vísanir í stöðu skúlptúrsins sem listmiðils, möguleika hans og samband við samtíma okkar./Listamenn/ArtistsAndreas BrunnerAnna LíndalClaire PaugamElísabet BrynhildardóttirEygló HarðardóttirGeirþrúður Finnbogadóttir HjörvarIngrid OgenstedtÍvar Glói Gunnarsson BreiðfjörðMartha HaywoodRaimonda SereikaitėSýningarstjórar/CuratorsBrynja SveinsdóttirCecilie Cedet Gaihede
Leiðsögnin er liður í viðburðaröðinni Menning á miðvikudögum sem er styrkt af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.
05.10.2023 kl. 20:30 - Salurinn
Magnús & Jóhann fögnuðu fyrir skemmstu 50 ára starfsafmæli. Þetta er líklega besti íslenski dúett allra tíma og lög þeirra félaga hafa fyrir löngu grafið sig djúpt í íslenska þjóðarsál. Saman og í sitthvoru lagi eru þeir ábyrgir fyrir lögum eins og Álfar, Sail on, Söknuður, Blue Jean Queen, Yaketty Yak og Ást – svo örfá dæmi séu nefnd. Tvísöngur félaganna mun óma um Salinn sem aldrei fyrr!
Jón Ólafs snýr aftur með spjalltónleikaröðina sína, Af fingrum fram. Röðin hefur fyrir löngu fest sig í sessi hjá tónlistarunnendum landsins en Jón hefur á síðastliðnum fimmtán árum fengið til sín yfir 50 listamenn og hafa fleiri en 30.000 áhorfendur hrifist og hlegið með á þessum einstöku kvöldum Í Salnum.
05.10.2023 kl. 10:00 - Bókasafn Kópavogs
Hulda Tölgyes sálfræðingur ræðir við foreldra um þriðju vaktina. Ósýnileg, ólaunuð yfirumsjón og endalaus tilfinningaleg ábyrgð á heimilis- og umönnunarstörfum er þriðja vaktin, vakt sem konur standa oftast einar með áþreifanlegum og alvarlegum afleiðingum. Dregnar verða fram afleiðingar ójafnrar byrði þriðju vaktarinnar og bent á leiðir til lausna.
Foreldramorgnar eru frábært tækifæri fyrir foreldra og ung börn þeirra til að hittast og eiga rólega stund saman á safninu. Fylgist með í Facebook-hópnum Foreldramorgnar | Bókasafn Kópavogs. Ókeypis aðgangur og öll velkomin.
05.10.2023 kl. 15:00 - Bókasafn Kópavogs
Bók mánaðarins tilkynnt síðar.
Hjartanlega velkomnar!
Bókaklúbburinn hentar öllum hressum konum sem vilja hittast, lesa á milli línanna og spjalla um yndislestur á léttu nótunum. Lesin er ein bók á mánuði sem er svo rædd fyrsta fimmtudag í mánuði á fundum klúbbsins.
Allar konur velkomnar á meðan húsrúm leyfir. Hlökkum til að hitta ykkur!
Fylgist með í Facebook-hópnum Lesið á milli línanna | Bókasafn Kópavogs.
07.10.2023 kl. 20:30 - Salurinn
Fallegu dægurlagaperlurnar hennar Erlu Þorsteins
Erla Þorsteins var ein ástsælasta söngkona 20. aldarinnar og var oft kölluð stúlkan með lævirkjaröddina, söngferill hennar spannaði hins vegar aðeins fimm ár en hún hætti að syngja 26 ára gömul til að sinna eiginmanni og fjölskyldu. Þrátt fyrir það náði hún að gefa út fjölmargar smáskífur á þeim tíma og á þeim er að finna fjöldann allan af lögum sem hún gerði ódauðleg.Lög eins og Heimþrá, Vagg og velta, Litli stúfur, Litli tónlistarmaðurinn og mörg mörg fleiri .
Hljómsveitarstjórn og útsetningar
Magnús Þór Sveinsson
Söngvarar
Daníel E. ArnarssonHreindís Ylva Garðarsdóttir HolmSvavar Knútur Una Torfadóttir
Hljómsveit
Páll Sólmundur Eydal bassiMagnús Þór Sveinsson hljómborð Ragnar Már Jónsson saxófónarSigurður Ingi Einarsson trommur Yngvi Rafn Garðarsson gítarar
07.10.2023 kl. 13:00 - Bókasafn Kópavogs
Jarðhæð Bókasafns Kópavogs umbreytist í gagnvirka og lifandi undraveröld laugardaginn 7. október. Furðuspeglar og speglabrunnar, söngskálar og listrænar pendúlur eru á meðal þess sem má uppgötva og rannsaka í fylgd leiðsögufólks frá hinnu einu sönnu Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Forvitin börn á öllum aldri eru hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis.
**********
Fjölskyldustundir á laugardögum eru styrktar af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.
Um Vísindasmiðju Háskóla Íslands.
Markmið Vísindasmiðjunnar er að efla áhuga ungmenna á vísindum með gagnvirkum og lifandi hætti, styðja við kennslu á sviði náttúru- og raunvísinda og miðla vísindalegri þekkingu til samfélagsins.
Í því markmiði tekur Vísindasmiðjan á móti skólahópum, heldur reglulega endurmenntun fyrir kennara, og býður upp á opin hús og farandsýningar í tengslum við sérstaka viðburði. Vísindasmiðjan hefur undanfarin ár komið reglulega á Bókasafn Kópavogs og kynnt undur vísindanna á fjölsóttum fjölskyldustundum.
Vefsíða Vísindasmiðjunnar
07.10.2023 kl. 11:30 - Bókasafn Kópavogs
Bókasafn Kópavogs ásamt Vigdísi, vinum gæludýra á Íslandi, býður börnum að lesa fyrir hunda sem hafa fengið sérstaka þjálfun í að hlusta á upplestur.
Skráning fer fram á bokasafn@kopavogur.is
Viðburðurinn er hugsaður fyrir 5-12 ára börn sem eru byrjuð að lesa sjálf. Lestrarstundin er ekki ætluð börnum sem glíma við hundahræðslu heldur er markmiðið að auka öryggi við lestur, ekki síst hjá þeim sem eiga við lestrarörðugleika að stríða. Hundurinn hjálpar barninu að slaka á, gagnrýnir ekki lesturinn og leiðréttir ekki barnið.