Skipulagsráð

146. fundur 17. júlí 2023 kl. 15:30 - 16:42 í bæjarstjórnarsal, Hábraut 2
Fundinn sátu:
  • Hjördís Ýr Johnson formaður
  • Kristinn D Gissurarson varaformaður
  • Andri Steinn Hilmarsson aðalmaður
  • Gunnar Sær Ragnarsson aðalmaður
  • Hákon Gunnarsson aðalmaður
  • Theódóra S Þorsteinsdóttir aðalmaður
  • Helga Jónsdóttir, aðalmaður boðaði forföll og Thelma Bergmann Árnadóttir varamaður, sat fundinn í hans stað.
  • Sigurbjörg Erla Egilsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Smári Magnús Smárason arkitekt
  • Auður Dagný Kristinsdóttir skipulagsfulltrúi
  • Bergljót Sigríður Einarsdóttir verkefnastjóri
  • Hildur Inga Rós Guðmundsdóttir arkitekt
  • Brynja Kemp Guðnadóttir arkitekt
  • Guðmundur Gunnarsson starfsmaður umhverfissviðs
Fundargerð ritaði: Guðmundur Gunnarsson ritari.
Dagskrá

Almenn erindi

1.23052182 - Silfursmári 12. Tillaga að breyttu deiliskipulagi.

Lögð fram umsókn lóðarhafa lóðarinnar nr. 12 við Silfursmára dags. 10. júlí 2023 um breytingu á deiliskipulagi. Á lóðinni sem er óbyggð er heimilt að reisa skv. gildandi deiliskipulagi 1.927 m² atvinnuhúsnæði á fjórum hæðum ásamt kjallara og niðurgrafinni bílageymslu. Í breytingunni felst aukning byggingarmagns um 437 m² í 2.400 m², fjöldi bílastæða verði óbreyttur eða 55 í heildina. Stærð byggingarreits helst óbreytt.

Sólveig Helga Jóhannsdóttir, skipulagsfræðingur og Halldór Eyjólfsson, þróunarstjóri Klasa gerðu grein fyrir erindinu.
Skipulagsráð samþykkir með tilvísun í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð tillaga að breyttu deiliskipulagi verði auglýst. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs.

Gestir

  • Sólveig Helga Jóhannsdóttir - mæting: 15:35
  • Halldór Eyjólfsson - mæting: 15:35

Almenn erindi

2.23062234 - Dalbrekka 4-6. Fyrirspurn.

Lögð fram breytt fyrirspurn Gunnars Boga Borgarsonar arkitekts dags. 30. júní 2023 f.h. lóðarhafa lóðarinnar nr. 4-6 við Dalbrekku um að skrifstofurými á 2.-5. hæð hússins á lóðinni verði nýtt sem gististaður í flokki II b: stærra gistiheimili samkvæmt 2. gr. reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 1277/2016 og flokk 4 í notkunarflokki mannvirkja. Heildarfjöldi gistirýma er yrði 39, 36 bílastæði í kjallara tilheyra lóðinni. Uppdrættir í mkv. 1:500 og 1:100 dags. 29. júní 2023. Þá er lagt fram minnisblað skipulagsdeildar dags. 14. júlí 2023.
Fundarhlé kl. 15:55.

Fundur hófst á ný kl. 16:04.

Skipulagsráð telur framlagða fyrirspurn vera í samræmi við gildandi deiliskipulag, með fjórum atkvæðum. Theódóra S. Þorsteinsdóttir, Thelma Bergmann Árnadóttir og Hákon Gunnarsson greiða atkvæði á móti.

Bókun:
"Það er áhyggjuefni að Kópavogsbær hafi ekki framfylgt rammasamkomulagi um þróun og uppbyggingu deiliskipulags við Dalbrekku. Byggingaraðili fékk afhent mikil verðmæti í formi byggingarréttar gegn skilyrðum sem ekki fæst séð að séu uppfyllt. Ekki var gert ráð fyrir gistiheimili á þessum reit í samkomulagi Kópavogsbæjar við byggingarverktaka."
Theódóra S. Þorsteinsdóttir, Thelma Bergmann Árnadóttir, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir og Hákon Gunnarsson.

Bókun:
"Undirrituð telur að fella eigi rammasamkomulag við verktakann úr gildi í ljósi þess að hann hefur ekki sýnt fram á að ákvæði þess séu uppfyllt af hans hálfu." Theódóra S. Þorsteinsdóttir

Almenn erindi

3.23061984 - Grænatún 22. Fyrirspurn.

Lögð fram fyrirspurn lóðarhafa lóðarinnar nr. 22 við Grænatún, ódagsett, um fyrirhugaðar breytingar á lóðinni. Í breytingunum felst fjölgun íbúða úr einni í tvær, fjölgun bílastæða úr tveimur í sex, viðbygging við suðurhlið núverandi húss á lóðinni og bygging frístandandi bílskúrs á norðausturhluta lóðarinnar. Þá er fyrirhugað að breyta nýtingu núverandi bílskúrs á lóðinni í útleiguherbergi ásamt íbúðarherbergjum í kjallara. Uppdrættir í mkv. 1:500 og 1:100 dags. 24. apríl 2023.
Skipulagsráð lítur neikvætt á framlagða fyrirspurn.

Almenn erindi

4.23062066 - Bláfjöll, skíðasvæði. Breytt deiliskipulag.

Lögð fram umsókn Ómars Ívarssonar, skipulagsfræðings, f.h. Skíðasvæða Höfuðborgarsvæðisins dags. 26. júní 2023 um breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Í breytingunni felst að byggingarreitur nýrrar stólalyftu Drottningar við Kóngsgil stækkar um 848 m² til vesturs úr 144.106 m² í 144.954 m² svo ný stólalyfta og botnstöð hennar verði innan byggingarreits. Aðliggjandi byggingarreitur toglyftunnar Patta broddgölts er minnkar til samræmis um 116 m² úr 32.024 m² í 31.908 m². Lega háspennulína breytist á kostnað framkvæmdaaðila. Uppdrættir í mkv. 1:5000 dags. 7. júlí 2023.
Skipulagsráð samþykkir framlagða tillögu með tilvísun í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs.

Almenn erindi

5.2306075 - Auðbrekka 16. Fyrirspurn.

Lögð fram fyrirspurn Jakobs E. Líndals arkitekts dags. 16. mars 2023 f.h. lóðarhafa lóðarinnar nr. 16 við Auðbrekku um nýjan stiga á vesturhlið núverandi húss á lóðinni til að mynda aðgengi að íbúð á þriðju hæð hússins. Jafnframt er spurst fyrir um hvort leyfi yrði veitt til að settar yrðu svalir á sömu hæð á norðurhlið hússins. Auðbrekka 16 en innan skipuagssvæðis deiliskipulags Auðbrekku 12-32. Meðfylgjandi eru uppdrættir í mkv. 1:100 ásamt skýringarmyndum dags. 27. maí 2022.
Skipulagsráð lítur jákvætt á að framlögð fyrirspurn verði unnin áfram. Vakin er athygli á að samþykki meðeigenda skal liggja fyrir.

Almenn erindi

6.2307584 - Vatnsendablettur 1B. Breytt aðalskipulag

Lögð fram umsókn lóðarhafa lóðarinnar Vatnsendablettur 1B, dags. 15. júní 2023, ásamt fylgiskjölum, um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040. Í breytingunni felst breytt landnotkun á lóðinni úr opnu svæði í íbúðarbyggð. Lóðin er 7.088 m² að flatarmáli. Umsókninni fylgja drög að tillögu að deiliskipulagi þar sem lóðinni er skipt upp í sjö minni lóðir fyrir einbýlishús með sameiginlegri aðkomu úr suðri frá Vatnsendabletti. Þá er lögð fram samantekt skipulagsdeildar, dags. 14. júlí 2023, ásamt fylgiskjölum.
Afgreiðslu frestað. Vísað til umsagnar skipulagsdeildar.

Almenn erindi

7.23031264 - Brú yfir Fossvog. Breytt deiliskipulag

Lögð fram tillaga Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar um breytingu á deiliskipulagi fyrir Fossvogsbrú. Í gildandi deiliskipulagi er leiðbeinandi lega akbrautar, göngu- og hjólastíga, áningarstaða og biðstöðva fyrir almenningsvagna sýnd á uppdrætti einnig er yfirborð landfyllingar merkt inn. Í tillögu að breytingu eru þessi atriði uppfærð í samræmi við þá hönnun sem liggur fyrir og svæði fyrir landfyllingu gefin rýmri mörk. Deiliskipulagsmörk breytast til að rúma að fullu legur akbrautar, stíga, landfyllingar við brúarendana og frágang á grjótgarði innan deiliskipulagsins, þar á meðal eru mörkin færð að lóðamörkum Vesturvarar 38A. Einnig er staðsetning háspennustrengs og varúðarsvæði hans skilgreind á vesturhluta svæðis. Samhliða er gerð tillaga að breytingu á deiliskipulagi Kársneshafnar, Vesturvör 38A og 38B. Meðfylgjandi uppdráttur mkv. 1:1000 dags. 11. maí 2023.
Skipulagsráð samþykkir með tilvísun í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð tillaga að breyttu deiliskipulagi verði auglýst. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs.

Almenn erindi

8.23062059 - Vesturvör 38A og 38B. Breytt deiliskipulag

Lögð fram tillaga umhverfissviðs Kópavogsbæjar um breytingu á deiliskipulagi Kársneshafnar, Vesturvör 38-50, fyrir lóðirnar nr. 38A og 38B við Vesturvör. Í samræmi við tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir brú yfir Fossvog sem yrði auglýst samhliða umræddri breytingu er lagt til að skipulagsmörk færist að lóðarmörkum Vesturvarar 38A til austurs og norðurs. Á lóðamörkum á austurhluta svæðisins er skilgreint varúðarsvæði fyrir háspennustreng í jörðu. Aðkoma að svæðinu og innan þess breytist vegna fyrirhugaðrar Borgarlínu og brú yfir Fossvog.

Í tillögunni er gert ráð fyrir lóð Vesturvarar 38A minnki um 300 m2 og verði 8.600 m2. Byggingarreitur Vesturvarar 38A breytast lítillega en byggingarmagn helst óbreytt. Gerð er krafa um að koma fyrir a.m.k. 60 hjólastæðum á lóð.

Í tillögunni er gert ráð fyrir lóð Vesturvarar 38B minnki um 400 m2 og verði 10.900 m2. Byggingarreitur Vesturvarar 38B breytast lítillega en byggingarmagn helst óbreytt. Gerð er krafa um að koma fyrir a.m.k. 60 hjólastæðum á lóð.

Heimilt verður að byggja minna byggingarmagn á umræddum lóðum eða allt að 75% að hámarks byggingarmagni. Fjöldi bílastæða helst óbreytt þ.e. 1 bílastæði á hverja 50 m² eða 240 á hvorri lóð, alls 480 stæði. Að öðru leiti er vísað í gildandi deiliskipulag og greinargerð fyrir Vesturvör 38 til 50 birt í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst 2017. Uppdráttur mkv. 1:2000 og 1:1000 dags. 15. júlí 2023.
Skipulagsráð samþykkir með tilvísun í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð tillaga að breyttu deiliskipulagi verði auglýst. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs.

Fundi slitið - kl. 16:42.