Umhverfis- og samgöngunefnd

159. fundur 20. desember 2022 kl. 16:30 - 18:43 á Digranesvegi 1, Vatnsenda 1. hæð
Fundinn sátu:
  • Hannes Steindórsson, aðalmaður boðaði forföll og Andri Steinn Hilmarsson varamaður, sat fundinn í hans stað.
  • Guðjón Ingi Guðmundsson aðalmaður
  • Gunnar Sær Ragnarsson aðalmaður
  • Jane Victoria Appleton aðalmaður
  • Indriði Ingi Stefánsson aðalmaður
  • Leó Snær Pétursson, aðalmaður boðaði forföll og Andrés Pétursson vara áheyrnarfulltrúi, sat fundinn í hans stað.
  • Sigurlaug Kristín Sævarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Smári Magnús Smárason arkitekt
  • Guðmundur Gunnarsson starfsmaður umhverfissviðs
  • Auður Finnbogadóttir embættismaður
  • Encho Plamenov Stoyanov embættismaður
Fundargerð ritaði: Guðmundur Gunnarsson ritari skipulagsdeildar
Dagskrá

Almenn erindi

2.2009744 - Bakkabraut 2-4, Bryggjuvör 1, 2, 3 og Þinghólsbraut 77 og 79. Breytt deiliskipulag.

Lögð fram að nýju tillaga Atelier arkitekta að breytingu á deiliskipulaginu Kársneshöfn fyrir lóðirnar nr. 2-4 við Bakkabraut, 1-3 við Bryggjuvör og 77 og 79 við Þinghólsbraut. Í breytingunni felst að núverandi atvinnuhúsnæði á lóðunum víki og íbúðarhús rísi í þess stað. Skipulagssvæðið afmarkast af Þinghólsbraut og lóðamörkum Þinghólsbrautar 73 og 75 í austri, fyrirhugaðri nýrri vegtengingu milli Borgarholtsbrautar og Bakkabrautar í norðri, fyrirhugaðs nýs hafnarkants til vesturs og núverandi grjótgarðs og strönd til suðurs. Gert er ráð fyrir að heildarfjöldi íbúða á reitnum verði að hámarki 150, á 2-4 hæðum þar sem 4. hæðin verður inndregin. Gert er ráð fyrir 0,75-1 bílastæði pr. íbúð, auk 0.2 fyrir gestastæði og að u.þ.b. 90% þeirra verði í innbyggðum og niðurgröfnum bílageymslum. Fyrirhugað er að heildarbyggingarmagn á svæðinu verði 24.995 m² ofan- og neðanjarðar með nýtingarhlutfalli 1,81. A-rými ofanjarðar 18.810m². B-rými ofanjarðar 2.385m². A-rými neðanjarðar 1.980m². B-rými neðanjarðar - Bílakjallari - 3.800m². Uppdrættir í mkv. 1:1000 og 1:500 ásamt greinargerð og skýringarmyndum dags. 30. mars 2022 og breytt 7. desember 2022. Tillögunni fylgir minnisblað um samgöngur frá VSÓ ráðgjöf dags. 17. febrúar 2021 og uppfært 7. desember 2022, minnisblað um umhverfisáhrif frá Mannviti uppfært 1. desember 2022, áhættumat vegna loftslagsbreytinga dags. 27. apríl 2022 og húsakönnun dags. 1. desember 2022 og uppfært 15. desember 2022.
Þá lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 15. desember 2022.
Lagt fram og kynnt.

Fundarhlé kl. 17:54

Fundur hófst á ný kl.18:10

Bókun Indriða I. Stefánssonar, Sigurlaugar K. Sævarsdóttur, Jane Appleton og Andrésar Péturssonar:
"Leiðarljósið í ráðgjöf umhverfis- og samgöngunefndar í skipulagsmálum á að vera að náttúru og umhverfi verði ekki spillt. Neðan reits 13 er strandlengjan meðfram smábátahöfninni, einn fjölfarnasti hlekkurinn í keðju opinna svæða í heimalandi Kópavogs. Önnur opin svæði í keðjunni, Fossvogsdalur, Kópavogsdalur, Vatnsendi og strönd Elliðavatns, eru öll í austurbæ. Miklum almannahagsmunum er fórnað með tillögunni sem gengur freklega á landrými sem nú þjónar lýðheilsu- og útivistarhagsmunum almennings. Rauði þráðurinn í athugasemdum íbúa við deiliskipulagstillöguna er sá að þessa fórn megi ekki færa. Í ljósi fyrirheita í bæjarráði í október sl. um íbúalýðræði og samráð við gerð hverfisáætlunar þar sem hafnarsvæðið á Kársnesi á að vera í forgangi er lagt til að deiliskipulagstillagan verði meðal þess sem íbúum gefst kostur á að taka afstöðu til í samráði um hverfisáætlun.

Á samráðsfundum með íbúum vegna þéttingar komu fram miklar áhyggjur íbúa og í ljósi þess mikla fjölda athugasemda sem borist hafa eru það mikil vonbrigði að sjá tómlæti bæjarins gagnvart eðlilegum áhyggjum og kvörtunum íbúa. Sé alvara á bak við samráð við íbúa þarf bærinn jafnframt að rækta leiðbeiningarskyldu sína. Samráði þarf að fylgja raunhæfur möguleiki til breytinga annars þjónar það engum tilgangi.

Forsenda þéttingar er uppbygging þjónustu. í því verslunar,- og þjónustu húsnæði þéttingarreita sem byggt hefur verið upp á Kársnesi er fólk flutt inn og því lítið mark takandi á áformum um uppbyggingu þjónustu."

Fundarhlé kl. 18:14
Fundur hófst á ný kl. 18:24

Bókun Gunnars S. Ragnarssonar, Andra S. Hilmarssonar og Guðjóns I. Guðmundssonar:
"Umrædd vinna er í samræmi við aðalskipulag Kópavogs um Kársnes. Öll vinna málsins hefur verið afar vönduð, enda um mikilvæga ákvörðun að ræða. Skipulagsvinna á reit 13 á sér langan aðdraganda og ferill málsins liggur fyrir."




Almenn erindi

3.2211273 - Þverslár á hjólastígum

Fyrirspurn Indriða Inga Stefánssonar. Erindi um að nota ekki þverslár til að stöðva umferð um hjólastíga.
Lagt fram og kynnt.

Almenn erindi

4.2212286 - Aðgengi fatlaðra að rafhleðslustæðum

Fyrirspurn Bergs Þorra Benjamínssonar um að tekið verði tillit til fatlaðra og hreyfihamlaðra við uppsetningu á rafhleðslustöðvum á bæjarlandi
Umhverfis- og samgöngunefnd tekur undir ábendingu um að við hönnun og uppsetningu rafhleðslustöðva verði hugað að aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra.°

Bókun Andrésar Péturssonar:
"Hver er stefna meirihluta í uppbyggingu rafhleðslustöðva fyrir bíla í bænum? Bæði fyrir utan fjölbýlishús og við opinberar byggingar."

Almenn erindi

5.2208218 - Fundarröð umhverfis- og samgöngunefndar

Tillaga að fundarröð umhverfis- og samgöngunefndar til júní 2023
Næsti fundur er áætlaður á þriðjudaginn 17. janúar 2023, að öðru leiti er afgreiðslu áætlunar um fundardaga frestað.


Fundi slitið - kl. 18:43.