Leikskólar

Leikskólar

Leikskólar Kópavogs starfa samkvæmt aðalnámsskrá leikskóla og námsskrá leikskóla Kópavogs.

Arnarsmári v/Arnarsmára
Sími 441-5300/840-2670, netfang: arnarsmari@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Brynja Björk Kristjánsdóttir

Leikskólinn Arnarsmári tók til starfa í janúar 1998. Arnarsmári er 5 deilda skóli og stendur á Nónhæð, þaðan er mjög fallegt útsýni í allar áttir. Frjáls leikur er aðalatriði í öllu starfi skólans, þar sem ímyndunarafl og sköpunargleði barnanna fær að njóta sín. Lögð er áhersla á að leikföng skólans og efniviður sé breytilegur, sveigjanlegur og skapandi og bjóði upp á fleiri en eina leið/lausn. Markmiðið er að laða fram í fari barnanna frumkvæði, vináttu og gleði.

Lögð er sérstök áhersla á iðkun dyggða. Unnið er eftir uppeldisstefnu sem nefnist Uppbygging sjálfsaga-Uppeldi til ábyrgðar, sem miðar að því að kenna börnum sjálfsstjórn og sjálfsaga. Útikennsla er ríkur þáttur í námi barnanna.

Skólinn hefur flaggað grænfána frá 2010 og umhverfisvernd í hávegum höfð í Arnarsmára.


Austurkór v/Austurkór

Sími 441-5100/898-9092, netfang; austurkor@kopavogur.is 
Leikskólastjóri:  Guðný Anna Þóreyjardóttir

Leikskólinn Austurkór var formlega opnaður 1. febrúar 2014 í hátíðlegri athöfn þar sem fjöldi gesta var viðstaddur. Leikskólinn Austurkór er sex deilda leikskóli staðsettur við götuna Austurkór í Kórahverfinu í Kópavogi. Eins og aðrir leikskólar Kópavogsbæjar þá vinnum við í Austurkór eftir lögum um leikskóla og aðalnámskrá leikskóla. Vinna við okkar eigin námsskrá er ekki hafin og ætlum við að gefa okkur skólaárið 2014-2015 til að festa í sessi starfsaðferðir okkar. 

Hornsteinar skólastarfsins í Austurkór eru:  Lýðræðisleg vinnubrögð - útinám - námslotur byggðar á gildum skólans. Gildi skólans eru Samvinna-lýðræði-atorka. 

 Álfaheiði v/Álfaheiði

Sími 441-5400/840-2671, netfang: alfaheidi@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Elísabet Eyjólfsdóttir

Einkunnarorð leikskólans eru:Deilum gildum okkar til að skapa betri heim.

Leikskólinn Álfaheiði tók til starfa 1990 og er á sunnanverðum Digraneshálsi. Stutt er í skemmtileg útivistarsvæði og staði sem tengjast þjóðtrúnni um álfa og huldufólk. Álfaheiði er 5 deilda leikskóli sem vinnur eftir námsefninu Lífsmennt en það byggir á 12 jákvæðum gildum. Meginmarkmið þess er að örva jákvæða sjálfsmynd nemenda, siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Til að ná tökum á gildunum þurfa nemendur að upplifa þau í öllu daglegu starfi.

Leikskólinn flaggar Grænfánanum sem er alþjóðlegt merki um gott umhverfisstarf og menntun í skólum. Í leikskólanum er stuðlað að virðingu barnanna fyrir náttúrunni og lögð er áhersla á að börnin upplifi hana af eigin raun og læri að njóta hennar sér til yndisauka.

Álfatún v/Álfatún
Sími 441-5500/840-2673, netfang: alfatun@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Lilja Kristjánsdóttir

Leikskólinn Álfatún tók til starfa í nóvember 2001.  Álfatún er í skjólsælum reit austarlega í Fossvogsdalnum í beinum tengslum við fjölbreytt útivistarsvæði. Álfatún er 5 deilda leikskóli þar sem áhersla er lögð á málörvun, hreyfingu og skapandi starf í gegnum leik. Einnig er lögð áhersla á viðurkennandi samskipti og að njóta samvista með öðrum, tjá sig eftir fjölbreyttum leiðum og styrkja sjálfsmynd barnanna. Við viljum að traust, umhyggja og jákvæðni einkenni samskipti á milli allra sem að leikskólanum koma.  

Baugur v/Baugakór
Sími 441-5600/840-2673, netfang: baugur@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Margrét Magnúsdóttir

Enkunnarorð leikskólans eru: skynjun, uppgötvun og þekking

Leikskólinn Baugur opnaði haustið 2007. Baugur er 8 deilda leikskóli í Kórahverfi. Hugmyndafræði leikskólans hefur starfsaðferðir Reggio Emilia að leiðarljósi þar sem börn og fullorðnir uppgötva heiminn í sameiningu, allur fjársjóður heimsins býr í hversdagsleikanum og galdurinn felst í því að gefa börnunum tækifæri til að skynja og uppgötva, þannig eykst þekking þeirra. Það eru engin rétt eða röng svör, það er rannsóknarferlið sem skiptir máli, börnin fá þjálfun í að skoða hlutina frá öllum sjónarhornum og kryfja þau til mergjar. Lögð er áhersla á lýðræðisleg vinnubrögð, að hver einstaklingur fái að njóta sín og að traust og gott samband ríki við foreldra.

Dalur v/Funalind
Sími 441-6000/840-2674, netfang: dalur@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Sóley Gyða Jörundsdóttir

Leikskólinn Dalur tók til starfa 11. maí 1998. Dalur er 4ja deilda leikskóli í Lindahverfi. Þar er lögð áhersla á viðurkennandi samskipti og unnið út frá hugtökunum virðing, ábyrgð og sjálfstæði. Grundvöllur starfsins er byggður á kenningum John Dewey um „learning by doing“ og Berit Bae um viðurkennandi samskipti, ásamt uppeldisfræði „dauðu músarinnar“. Lögð er áhersla á góð og traust samskipti við foreldra.

Efstihjalli v/Efstahjalla
Sími 441-6100/840-2675, netfang: efstihjalli@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Hafdís Hafsteinsdóttir

Leikskólinn Efstihjalli tók til starfa 1982. Haustið 2002 var tveimur deildum bætt við leikskólann þannig að í dag er hann 5 deilda. Leikskólinn er í grónu hverfi í göngufæri við Fossvogsdal, Kópavogsdal og Digraneshæð. Leikurinn, í allri sinni fjölbreytni, er kjarninn í uppeldisstarfinu. Einnig er unnið í litlum hópum að hinum ýmsu verkefnum sem örva félagsfærni barnanna, styrkja sjálfsmynd þeirra og auka skynreynslu. Skipulögð hreyfing fer fram í aldursskiptum hópum einu sinni í viku.

Fagrabrekka v/Fögrubrekku
Sími 441-6200/840-2676, netfang: fagrabrekka@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Edda Valsdóttir

Leikskólinn Fagrabrekka var opnaður 1976. Leikskólinn er fjögurra deilda, staðsettur í gamalgrónu hverfi í austurbæ Kópavogs. Starfað er eftir Reggio Emilia starfsaðferðinni, sem segir að börn hafi 100 mál en við fullorðna fólkið tökum frá þeim 99. Starfsaðferðin snýst um að leyfa börnunum að nota öll 100 málin með lýðræðið að leiðarljósi. Gengið er út frá því að barnið sé hæfileikaríkur og virkur einstaklingur og eru verkefnin unnin samkvæmt því. Að „uppgötva, sjá og skynja“ með orðunum „hvað, hvernig og hvers vegna“. Í leikskólanum er unnið sérstaklega með tónlist. Markmið leikskólans eru að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, gleði og frumkvæði.

Fífusalir v/Salaveg
Sími 441-5200/840-2677, netfang: fifusalir@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Erla Stefanía Magnúsdóttir

Leikskólinn Fífusalir er 6 deilda leikskóli sem tók til starfa síðla árs 2001. Skólinn er í Salahverfi þar sem stutt er í ósnortna náttúru. Áhersla er lögð á heilbrigt líferni, jákvæð samskipti, uppgötvunarnám og umhverfismennt.  . Einkunnarorð skólans eru: virðing - uppgötvun - samsvinna.  Leikskólinn byggir hugmyndafræði sína á kenningum John Dewey um uppgötvunarnám, lýðræði og kenningum Berit Bae um samskipti barna og kennara.

Furugrund v/Furugrund
Sími 441-6300/840-2678, netfang: furugrund@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Helga Elínborg Jónsdóttir

Furugrund hóf starfsemi sína 1978. Furugrund er í grónu íbúðarhverfi við Fossvogsdalinn, sem býður upp á óþrjótandi möguleika hvað varðar útivist og vettvangsferðir allt árið. Furugrund er fjögurra deilda leikskóli. Helstu áherslur eru: Að rækta með börnunum sjálfstæði og sjálfsaga. Áhersla er lögð á þrjár grunnþarfir: öryggis-, sjálfsvirðingar- og félagslega þörf. Daglegt starf er byggt upp með þessi markmið í huga. Frjáls leikur er grunnur en þættir eins og þemastarf, leikfimi, matartímar og samverustundir eru stærstu hjálpartæki í uppeldisstarfinu.

Grænatún v/Grænatún
Sími 441-6400/840-2679, netfang: graenatun@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Sigríður Ólafsdóttir

Leikskólinn Grænatún tók til starfa 1984. Grænatún er 3ja deilda leikskóli í nálægð við Fossvogsdal sem býður upp á skemmtilega útivist allt árið. Helstu áherslur eru virkt nám barnsins þannig að barnið læri með því að framkvæma og gera tilraunir sjálft. Leikurinn er þungamiðjan en einnig er rík áhersla lögð á hinar daglegu þarfir. Þá er unnið markvisst með hreyfingu, myndlist og tónlist.

Kópahvoll v/Bjarnhólastíg
Sími 441-6500/821-8758, netfang: kopahvoll@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Linda Hrönn Þórisdóttir

Leikskólinn Kópahvoll tók til starfa 1970. Kópahvoll er í austurbæ Kópavogs og stendur við Víghólinn, sem er friðað leik- og útivistarsvæði, útsýni stórbrotið og mikið um álfa og huldufólk í umhverfinu. Kópahvoll er 4ra deilda leikskóli. Helstu áherslur eru: Menning, list, lífsleikni, útivera og skapandi starf.

Kópasteinn v/Hábraut
Sími 441-5700/840-2681, netfang: kopasteinn@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Heiða Björk Rúnarsdóttir

Einkunnarorð leikskólans eru: Gaman saman.
Leikskólinn stendur í jaðri Borgarholts og er í göngufæri frá helstu menningarstofnunum Kópavogsbæjar. Kópasteinn er 4ra deilda leikskóli, tvær yngri deildir og tvær eldri. Áherslur í starfi eru þessar helstar: leikur, upplifun, samvera, gleði. Samverustundir og vinnustundir eru dag hvern og þar er unnið með m.a. tónlist, skapandi starf, hreyfingu, stærðfræði, lífsleikni og margt fleira.

Lækur  Lækjarsmára 114 og Dalsmára 21

Sími 441-5900/840-2685, netfang: laekur@kopavogur.is

Leikskólastjóri:  Maríanna Einarsdóttir 

Lækur er 6 deilda leikskóli sem varð til við sameiningu Smárahvamms og Kjarrsins 2011.  Deildirnar eru aldurskiptar, eldri börnin eru í stóra Læk og yngri börnin í litla Læk.  Leikskólinn er í Kópavogsdal, þar sem stutt er í góð og skemmtileg útisvistarsvæði á öllum árstímum.  Hann hefur afnot af Lækjavelli, fyrrum gæsluvelli, sem nýtist sem útiskóli.

Lækur er opinn leikskóli þar sem meiginhluti leikrýmis barnanna er notað sameiginlega en hver deild er með sína heimastofu.  Lækur starfar í anda hugsmíðahyggju og eru einkunnarorð skólans sjálfræði, hlýja og virðing.

 Marbakki v/Marbakkabraut

Sími 441-5800/840-2682 netfang: marbakki@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Hólmfríður K. Sigmarsdóttir, sími 570-1651

Leikskólinn Marbakki tók til starfa 1986. Hann er í nálægð við hafið, eins og nafnið gefur til kynna, og er 5 deilda leikskóli. Megináhersla er lögð á skapandi starf í öllum listgreinum, þar sem hugmyndafræði sem kennd er við borgina Reggio Emilia á Ítalíu er höfð að leiðarljósi. Hugmyndafræðin er aðlöguð að íslenskum aðstæðum og menningu. Til að börnin verði skapandi, virk og gagnrýnin er þeim kennt að skilgreina hlutina og skoða frá öllum hliðum, skynja margbreytileika þeirra, ígrunda og taka afstöðu. Mikilvægt er að börnin fái að vinna verkefnin út frá eigin forsendum. Starfsfólk leikskólans hefur mikilvægu hlutverki að gegna í öllu námi barnanna.

Núpur v/Núpalind
Sími 441-6600/840-2683, netfang: nupur@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Svana Kristinsdóttir

Leikskólinn Núpur tók til starfa í janúar 2000 og er fimm deilda fyrir allt að 114 börn. Lögð er áhersla á hugmyndaflug og sjálfræði barnsins og að börnin fái að reyna, skynja og skapa á eigin forsendum út frá áhugasviði og þroska hvers og eins. Einkunnarorð skólans eru: sjálfstæði og sköpun í samvinnu og gleði.

Rjúpnahæð v/Rjúpnasali
Sími 441-6700/840-2684, netfang: rjupnahaed@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Hrönn Valentínusardóttir

Rjúpnahæð er sex deilda leikskóli og stendur efst í Salahverfi þar sem stutt er í ósnortna náttúru.
Stefna hans er hugsmíðahyggja og meginmarkmið er sjálfræði. Unnið er út frá hugtökum sem stuðla að sjálfræði og sjálfstæði barnsins. Hugtökin eru frelsi, gleði, sjálfstæði, sjálfsbjargarviðleitni, virðing, ábyrgð, samvinna og lýðræði. Skipulag umhverfis er hvetjandi og örvandi til vísinda, lista og rannsókna.

 Sólhvörf V/Álfkonuhvarf

Sími: 441-7700/840-2687, netfang: solhvorf@kopavogur.is
Leikskólastjóri: Bjarney Magnúsdóttir

Leikskólinn Sólhvörf er 6 deilda leikskóli, tekin í notkun árið 2005. Leikskólinn er staðsettur í fögru umhverfi Elliðavatns. Kópavogsbær tók við rekstri leikskólans 1. maí 2008. Framundan er faglegt uppbyggingarstarf í anda hugsmíðahyggjunnar, með áherslu á tónlist, skapandi starf og frjálsan leik.

Urðarhóll, Kópavogsbraut 19
Sími 441-5000/8402686, netfang: urdarholl@kopavogur.is
Skólatröð við Skólatröð, sími 554-4333
Leikskólastjóri: Sigrún Hulda Jónsdóttir

Urðarhóll er heilsuleikskóli í vesturbæ Kópavogs og var opnaður árið 2000. Leikskólanum tilheyra tvær deildir: Skólatröð og Stubbasel, sem frá því 1995 voru reknar sem sjálfstæð eining undir nafninu heilsuleikskóli. Urðarhóll heilsuleikskóli er 7 deilda leikskóli. Markmið skólans er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Leikskólinn hefur tvívegis fengið styrk frá Heilsueflingu og gefið út „Heilsubók barnsins“ sem við skráningu gefur leikskólakennurum og foreldrum yfirsýn yfir stöðu barnsins í þroska, leik og starfi. Lögð er áhersla á nýbreytni og þróunarstarf.

 






Þetta vefsvæði byggir á Eplica