Andvari og Stúdíó Gerðar

Myndlist
Myndlist

Tvær sýningar opna í Listasafni Kópavogs - Gerðarsafni á laugardag klukkan 15.00. Andvari eftir Valgerði Hafstað og fræðslu- og upplifunarsýningin Stúdíó Gerðar þar sem lögð er áhersla á sköpun og ímyndunarafl  þátttakenda. Karen Elísabet Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs, opnar sýningarnar formlega.

Valgerður Hafstað (1930-2011) nam myndlist í Reykjavík, Kaupmannahöfn og París, en þar lærði hún einnig mósaíkgerð samhliða málaralistinni. Í París bjó hún til ársins 1974 ásamt eiginmanni sínum, André Énard myndlistarmanni en þau settust að í New York í Bandaríkjunum þar sem þau stunduðu kennslu samhliða listmálun. Verkin á sýningunni spanna allan listamannsferil Valgerðar, unnin í gvass, akrýl og olíu ásamt mósaíkmyndum. Elstu verkin eru geometrískar abstraktmyndir frá 1953-55 í takt við þá strauma sem voru hjá íslenskum myndlistarmönnum á sjötta áratug síðustu aldar. Í byrjun sjöunda áratugarins leysast formin upp og má jafnvel greina áhrif frá franska impressjónismanum. Verk Valgerðar eru á mörkum þess hlutbundna og óhlutbundna, þar sem oft á tíðum má grein óljóst landslagsmótíf eða innanstokksmuni sem hún virðist hafa umbreytt á einn eða annan hátt. 

Valgerður hélt bæði einkasýningar og tók þátt í samsýningum hér á landi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Fyrsta myndlistarsýning Valgerðar var samsýning hennar og Gerðar Helgadóttur árið 1957 í Galerie La Rouge í París en einnig hélt hún einkasýningu í Gerðarsafni árið 2002 undir yfirskriftinni Yfirgrip. 

Stúdíó Gerðar er fræðslu- og upplifunarsýning þar sem sýningargestum býðst að líta á bak við tjöldin og forvitnast um listsköpun Gerðar út frá vinnustofunni. Settar hafa verið upp vinnustöðvar innblásnar af vinnustofu Gerðar Helgadóttur til ánægju og fróðleiks og veita gestum, ungum sem öldnum tækifæri til að taka virkan þátt í uppbyggingu sýningarinnar. Með sýningunni leitast Gerðarsafn sérstaklega við að bjóða upp á skemmtilega möguleika í safnfræðslu fyrir börn á forskólaaldri og grunnskólanemendur. Fjölskyldufólk er sérstaklega hvatt til að koma í heimsókn á eigin vegum og njóta skapandi samverustunda. Listamaðurinn Guðrún Benónýsdóttir er hugmyndasmiður sýningarinnar í samstarfi við Gerðarsafn en hún mun leiða opnar vinnusmiðjur fyrir ólíka aldurshópa á meðan sýningu  stendur.

Gerðarsafn fagnar hópum á öllum aldri sem vilja koma heimsókn í Stúdíó Gerðar með eða án leiðsagnar. Tekið er á móti nemendum virka daga eftir samkomulagi. Vinsamlegast bókið leiðsagnir á netfangið gerdarsafn@kopavogur.is. Mælt er með að hópar sem koma á eigin vegum á opnunartíma safnsins láti vita af komu sinni. 

Nánari upplýsingar um viðburði meðan á sýningum stendur sjá www.gerdarsafn.is (Opnast í nýjum vafraglugga)