Hallfríður J. Ragnheiðardóttir er handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör

Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri, Hafsteinn Karlsson bæjarfulltrúi, Jón Yngvi Jóhannsson formaður dómn…
Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri, Hafsteinn Karlsson bæjarfulltrúi, Jón Yngvi Jóhannsson formaður dómnefndar, Hallfríður Ragnheiðardóttir verðlaunahafi, Sigurður Pálsson, dómnefnd og Gerður Kristný, dómnefnd.

Hallfríður J. Ragnheiðardóttir hlaut í dag Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt Triptych í árlegri ljóðasamkeppni lista- og menningarráðs Kópavogs. Samkeppnin er haldin í ellefta sinn en tilgangur hennar er að efla og vekja áhuga á íslenskri ljóðlist.

Verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í Salnum á fæðingardegi Jóns úr Vör, 21. janúar. Á sama tíma voru úrslit kynnt í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs en þau sem urðu í þremur efstu sætunum eru Katrín Kemp úr Vatnsendaskóla fyrir ljóðið Vetrarkvöld, Hrönn Kristey Atladóttir úr Hörðuvallaskóla fyrir ljóð sitt Skógarljóð og Ólafur Örn Ploder úr Álfhólsskóla fyrir ljóð sitt Bolti.

Um 350 ljóð bárust í samkeppnina Ljóðstafur Jóns úr Vör undir dulnefni og vissi dómnefnd því ekki hver var höfundur fyrr en sigurljóðið hafði verið valið. Ljóðið skiptist í þrjá hluta og yfirskrift hvers kafla víasr í kristna hefð, fyrsti kaflinn nefnist Sakramenti, annar kaflinn Lausnarorð og sá þriðji Opinberun.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að ljóðið sé ort af öryggi og krafti og ásamt tilvísunum sé það borið upp af sterku myndmáli og markvissri uppbyggingu. . „Þetta var ljóð sem dómnefndin kom að aftur og aftur, það óx við hvern lestur," segir m.a. í rökstuðningnum. 

Hallfríður hlaut peningaverðlaun og Ljóðstaf Jóns úr Vör, áletraðan með nafni sínu, til varðveislu í eitt ár. Auk þess hlaut hún eignargrip sem Sigmar Maríusson gullsmiður hannaði.

Þrettán grunnskólabörn fengu bókaverðlaun fyrir ljóð sín í grunnskólakeppninni en yfir sextíu ljóð bárust frá sex skólum í Kópavogi.

Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri afhenti verðlaunin og Hafsteinn Karlsson, formaður menningar- og þróunarráðs, ávarpaði gesti og fór yfir sögu og markmið keppninnar. Þetta er í fyrsta sinn sem efnt er til slíkrar ljóðasamkeppni meðal grunnskólanema og er stefnt að því að það verði einnig árviss viðburður. 

Dómnefnd í ár skipuðu Gerður Kristný, ljóðskáld og rithöfundur, Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur og Sigurður Pálsson, ljóðskáld og rithöfundur.