Spjaldtölvur afhentar í Kópavogi

Theodóra Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Guðrún Soffía Jónas…
Theodóra Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Guðrún Soffía Jónasdóttir skólastjóri Vatnsendaskóla við afhendingu spjaldtölva í Vatnsendaskóla 11. júní 2015.

Kópavogsbær afhenti í dag 500 spjaldtölvur til kennara í grunnskólum bæjarins. Í byrjun næsta skólaárs verða fyrstu nemendatækin afhent og þegar innleiðingu lýkur haustið 2016 munu allir nemendur á mið- og unglingastigi í grunnskólum Kópavogs hafa spjaldtölvur til afnota.

Meðal markmiða í spjaldtölvuvæðingu skólanna er aukin einstaklingsmiðun og fjölbreytni náms og kennslu auk þess að stefnt er að því að auka þátt sköpunar í skólastarfi.

 „Spjaldtölvuvæðing skólanna er þáttur í þeirri stefnu okkar að skólar í Kópavogi séu í fremstu röð skóla á Íslandi.  Það hefur sýnt sig að spjaldtölvur eru vel til þess fallnar að auka áhuga og ánægju nemenda og við þeim þar að auki betri tækifæri til þess að deila námsvinnu með foreldrum. Með þessu verkefni er líka verið að fjárfesta í framtíð nemenda í grunnskólum bæjarins,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, sem afhenti tölvurnar í Kársnesskóla. 

 „Við erum að leggja grunninn að miklum breytingum á skólastarfi í Kópavogi. Kennsla verður fjölbreyttari, nemendur munu hafa meira um nám sitt að segja og auðveldara verður að mæta þörfum og áhuga hvers og eins," segir Björn Gunnlaugsson, verkefnastjóri spjaldtölvuvæðingar grunnskóla Kópavogs.

Auk Björns hefur Kópavogsbær ráðið kennsluráðgjafa sem verða kennurum til halds og trausts við notkun spjaldtölva í kennslu, bæði er varðar val á námsefni og kennslu með spjaldtölvum.

Öllum kennurum í Kópavogi er svo boðið á námskeið í Hörpu þar sem möguleikar spjaldtölva í kennslu verða kynntar. Þar mun Rikke Dahl Thornbo segja frá árangri spjaldtölvuinnleiðngar í bænum Odder á Jótlandi, en þar hafa skólar unnið með spjaldtölvur frá árinu 2011. Ingvi Hrannar Ómarsson mun einnig kynna möguleika spjaldtölva í námi og kennslu en hann starfar sem upplýsingatækniráðgjafi hjá sveitarfélaginu Skagafirði auk þess að kenna við Árskóla á Sauðárkróki.