Toyota bakhjarl Tíbrár í Salnum

Úlfar Steindórsson forstjóri Toyota, Karen E. Halldórsdóttir formaður lista- og menningarráðs, Aino…
Úlfar Steindórsson forstjóri Toyota, Karen E. Halldórsdóttir formaður lista- og menningarráðs, Aino Freyja Jarvela, forstöðumaður Salarins og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

Toyota er aðal bakhjarl tónleikaraðarinnar Tíbrár í Salnum en samningur þess efnis var undirritaður í dag, fimmtudag. Samningurinn er gerður til tveggja ára þar sem Toyota styrkir Tíbrá um 2 milljónir hvort ár. 

Það er mikið ánægjuefni fyrir Kópavogsbæ að geta boðið upp á metnaðarfulla dagskrá í Salnum með okkar besta tónlistarfólki. Þetta verður ekki síst mögulegt vegna þessa veglega stuðnings frá Toyota“, segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

Fjöldi fremstu tónlistarmanna Íslands hefur komið fram á tónleikaröðinni Tíbrá sem hefur fest sig í sessi sem einn metnaðarfyllsti tónlistarviðburður landsins, en honum er ætlað að varpa ljósi á sígildan tónlistarflutning í fremstu röð.

Það er ánægjulegt fyrir Toyota að fá að styðja það blómlega starf sem fram fer í Salnum. Rætur fyrirtækisins eru í Kópavogi þar sem Toyota var með höfuðstöðvar áratugum saman. Það er okkur mikilvægt að rækta þessi tengsl við bæinn og samstarfið við Salinn er vel til þess fallið“, segir Úlfar Steindórsson forstjóri Toyota.

Í byrjun árs 2018 verður auglýst eftir umsóknum frá flytjendum til þátttöku í Tíbrá tónleikaröðinni veturinn 2018-19, en í byrjun árs 2019 mun Salurinn fagna 20 ára starfsafmæli.

Áhersla hefur verið lögð á fjölbreytt tónleikahald í Salnum undanfarin ár, auk þess að efla barna- og fræðslustarfið í samvinnu við önnur menningarhús Kópavogsbæjar. Í undirbúningi er stofnun tónverkasmiðju sem er ætlað að efla frumsköpun í tónsmíðum, auk þess að efla enn frekar tónleikahald í Salnum.

Aðsókn í Salinn hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár en á þriðja tug þúsund gesta sóttu Salinn heim á síðasta ári, auk þess sem tónleikum og viðburðum hefur fjölgaði til muna.