Einstakur árangur Skólahljómsveitar Kópavogs

Skólahljómsveit Kópavogs
Skólahljómsveit Kópavogs

Skólahljómsveit Kópavogs náði merkum áfanga um síðustu helgi þegar A sveit SK fékk verðlaun á Nótunni 2013 fyrir framúrskarandi tónlistaratriði í sínum flokki. Þar með hafa allar sveitirnar þrjár sem starfa undir merkjum SK fengið viðurkenningu Nótunnar á síðustu þremur árum, því C sveitin fékk verðlaun í sínum flokki í fyrra og B sveitin árið 2011.

Nótan er uppskeruhátíð tónlistarskóla landsins og geta allir tónlistarskólar sent fulltrúa sína í forval fyrir lokahátíðina sem haldin er í Hörpu. Á sérstökum svæðistónleikum um land allt eru valin 24 atriði sem komast á lokahátíðina og af þeim eru níu atriði verðlaunuð sérstaklega, hvert í sínum flokki.
 

Það hlýtur að teljast merkur áfangi að komast í lokaathöfnina þrjú ár í röð að ekki sé talað um að vinna til verðlauna í hvert skipti.

Kópavogsbær óskar Skólahljómsveit Kópavogs til hamingju með þennan glæsta árangur.