Kópavogsbær fær Bláfánann

Afhending Bláfána
Afhending Bláfána

Kópavogsbær fékk afhentan Bláfánann fyrir Fossvogshöfn í fimmta sinn í dag, föstudaginn 23. júní. Salóme Hallfreðsdóttir frá Landvernd afhenti Hjördísi Johnson formanni umhverfis- og samgöngunefndar sem veitti fánanum viðtöku fyrir hönd bæjarins ásamt Hannesi Sveinbjörnssyni, formanni Siglingafélagsins Ýmis.  

Landvernd afhendir Kópavogsbæ Bláfánann fyrir hönd The Foundation for Environmental Education (FEE) . Fáninn er alþjóðleg umhverfisviðurkenning fyrir smábátahafnir og baðstrendur.

Þær hafnir sem skarta Bláfánanum hafa uppfyllt skilyrði um umhverfisstaðal og umhverfisfræðslu verkefnisins. Þeir eru hreint umhverfi, öryggisatriði hafnarinna, umgengni og flokkun sorps og úrgangs og markviss fræðslu á þessum þáttum.

Meginmarkmið verkefnisins er að vernda umhverfi í og við smábátahafnir og baðstrendur og þannig tryggja heilbrigði umhverfisins til framtíðar, auk þess að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Bláfáninn er mikil viðurkenning fyrir Kópavogsbæ og mun Kópavogsbær í samstarfi við Siglingafélagið Ýmir standa að umhverfisfræðslu fyrir starfsmenn Kópaness, félagsmenn Ýmis og þau börn sem verða á siglinganámskeiði sumarið 2017.

Áhersla verður lögð á fræðslu um nærumhverfi hafnarinnar og umgengnisreglur á hafnarsvæðinu. Fáninn mun blakta við höfnina í Kópavogi fram til 15. september.

Bláfáninn 2017