Salurinn sækir fram

Salurinn í Kópavogi
Salurinn í Kópavogi

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar hefur ákveðið að veita samtals 9 milljónum króna úr menningarsjóði bæjarins í tónleikaröðina Tíbrá, tónverkasmiðju og barnastarf í Salnum. Með þessu er verið að efla enn frekar tónleikahald í Salnum, frumsköpun í tónverkagerð og tónlistarfræðslu í Menningarhúsum Kópavogsbæjar.  

Í byrjun mars síðastliðinn var auglýst eftir umsóknum flytjenda til þátttöku í Tíbrá-tónleikaröðinni næsta vetur og bárust 48 umsóknir. Verið er að leggja lokahönd á úrvinnslu umsókna og er stefnt að því að dagskrá verði kynnt fljótlega. 

„Salurinn er mikilvæg stoð í menningarlífi landsins,“ segir Aino Freyja, forstöðumaður Salarins. „Hér næst einstök nánd á milli flytjenda og áhorfenda í sérdeilis fallegu umhverfi. Því er einkar ánægjulegt að Tíbrár-tónleikaröðin sé nú aftur hafin til vegs og virðingar auk myndarlegs framlags til annars konar verkefna í Salnum.“  

Salurinn tilheyrir Menningarhúsum Kópavogsbæjar og hefur verið þátttakandi í sameiginlegu starfi þeirra eins og fræðsluverkefninu Menningu fyrir alla, fjölskyldustundum, Barnamenningarhátíð Kópavogsbæjar, aðventuhátíð, Safnanótt, ljóðahátíð og alþjóðlegu listahátíðinni Cycle.  

„Við freistum þess nú að efla starfsemi Salarins enn á ný og um leið að auðga tónlistarlíf bæjarins í samræmi við tilgang menningarsjóðs bæjarins,“ segir Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar. 

Kópavogsbær á og rekur Salinn sem er fyrsti sérhannaði tónleikasalur landsins og var opnaður árið 1999.

Á þriðja tug þúsund gesta sóttu Salinn heim á síðasta ári.