- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fólk með fötlun
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Mikilvægt er að tilkynna til barnaverndar ef áhyggjur eru af aðstæðum barns. Tilkynna þarf um bágan aðbúnað barns, óviðeigandi uppeldisaðstæður og um áhættuhegðun. Einnig er mikilvægt að tilkynna ef áhyggjur eru af því að lífi ófædds barns sé stofnað í hættu með líferni barnshafandi konu.
Þú mátt skila á þínu móðurmáli, ef þú vilt. You may write in your mother´s tongue, if you prefer. Możesz napisać w swoim ojczystym języku, jeśli chcesz.
Einnig er hægt er að senda tilkynningu til barnaverndar á netfangið barnavernd(hjá)kopavogur.is eða hringja í síma 441-0000 á opnunartíma Þjónustuvers Kópavogsbæjar. Utan opnunartíma, á kvöldin og um helgar, er hægt að fá samband við bakvakt barnaverndar í gegnum Neyðarlínuna 112.
Líta þarf á tilkynningu til barnaverndar sem beiðni um stuðning og aðstoð fyrir barnið og fjölskyldu þess. Starfsfólk barnaverndar leggur áherslu á samstarf við börn og foreldra við vinnslu mála og nærgætni og virðingar er gætt í samskiptum við alla. Fyllsta trúnaðar er heitið.
Barnavernd Kópavogs
Starfsmenn barnaverndar vinna samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Unnið er að því að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem sýna áhættuhegðun fái nauðsynlega aðstoð.
Ferli barnaverndarmáls er á þann veg að þegar tilkynning berst til barnaverndar um vanrækslu, ofbeldi eða áhættuhegðun barns taka starfsmenn ákvörðun um hvort hefja skuli könnun málsins. Foreldrum er sent bréf til upplýsingar um að tilkynning hafi borist. Tilkynnanda er einnig sent bréf til staðfestingar á móttöku tilkynningar auk þess sem veittar eru almennar upplýsingar um málsmeðferðina.
Við vinnslu barnaverndarmála er megin áhersla lögð á aðstæður og líðan barna, að talað sé við börnin og að þau fái að koma sjónarmiðum sínum og skoðunum á framfæri. Áhersla er jafnframt lögð á samvinnu við foreldra og samstarf er haft við aðrar fagstéttir sem koma að málefnum barna þegar það á við. Fyllsta trúnaðar er gætt við vinnslu barnaverndarmála.
Sálfræðiþjónusta
Við barnavernd starfa sálfræðingar sem veita börnum og foreldrum þeirra stuðnings- og meðferðarviðtöl. Viðtölin eru að mestu byggð á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar.
Sálfræðingar barnaverndar veita einnig almenna uppeldisráðgjöf til foreldra sem fá stuðning barnaverndar.
Stuðningsfjölskyldur
Samkvæmt 85. gr. barnaverndarlaga skulu barnaverndarnefndir hafa tiltækar stuðningsfjölskyldur. Markmið stuðningsins er að tryggja öryggi barna, létta álagi af börnum og fjölskyldum þeirra og styðja foreldra í uppeldishlutverkinu.
Persónulegir ráðgjafar
Úrræðið persónulegur ráðgjafi er veitt samkvæmt barnaverndarlögum. Persónulegir ráðgjafar hafa það hlutverk að styrkja barn félagslega og tilfinningalega í tengslum við tómstundir, menntun og vinnu. Verkefni persónulegra ráðgjafa eru því fjölbreytt. Lögð er áhersla á að samband persónulegs ráðgjafa og barns byggist á gagnkvæmu trausti og vinsemd.
Tilkynningarhnappur til barnaverndar
Á haustmánuðum 2020 var sérstakur hnappur innleiddur á spjaldtölvur nema í 5.-10. bekk í grunnskólum Kópavogs. Táknið opnar aðgang að síðu þar sem börn geta lýst líðan sinni, áhyggjum eða aðstæðum og óskað eftir aðstoð frá barnavernd fyrir sig sjálf eða önnur börn. Þegar barn óskar eftir aðstoð í gegnum táknið hefur starfsmaður barnaverndar samband við barnið og fær nánari upplýsingar ásamt því að upplýsa foreldra um hjálparbeiðnina, sé talin ástæða til. Úrvinnsla hjálparbeiðna fer síðan að verkferlum barnaverndar.
Myndböndin hér að neðan upplýsa frekar um tilgang táknsins og hlutverk barnaverndar.
Mikilvægt er að hafa ávallt í huga að öll börn eiga að njóta verndar og umönnunar og skiptir þar mestu að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.
Kópavogsbær er að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Liður í innleiðingarferlinu er að börn hafi tækifæri til að tjá sig um eigin málefni (12. grein Barnasáttmálans).
Tilsjón
Starfsmenn í tilsjón eru ráðnir á vegum barnaverndar samkvæmt barnaverndarlögum til að aðstoða fjölskyldur inni á heimilum þeirra. Stuðningurinn er margþættur en felst oftast í uppeldisráðgjöf, samstarfi við stofnanir sem fjölskyldan er í tengslum við og aðstoð við skipulag heimilisins.
Vistheimili (einkaheimili starfrækt allt árið)
Samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga skulu barnaverndarnefndir hafa tiltæk úrræði til að veita börnum móttöku í bráðatilvikum. Barnavernd er með þjónustusamning við einkaheimili sem þjónar þessum tilgangi. Áhersla er lögð á að börnin sæki heimaskóla sinn á meðan á vistun stendur, að þau sinni tómstundum sínum og haldi vinatengslum.
Saman gegn ofbeldi
Saman gegn ofbeldi er samstarfsverkefni velferðarsviðs og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Samstarfið felst í ákveðnu verklagi þegar tilkynningar berast um heimilisofbeldi.
Nánari upplýsingar veitir deildarstjóri barnaverndar í síma 441 0000
Takk fyrir! Ábending þín er móttekin