Dagforeldrar | Kópavogsbær

Dagforeldrar eru sjálfstætt starfandi, en Kópavogsbær sér um leyfisveitingar og sinnir lögbundnu eftirliti með starfseminni auk ráðgjafar til dagforeldra og foreldra.
Dagforeldrar sjá sjálfir um skráningu og innritun barna. Kópavogsbær greiðir framlag með börnum hjá dagforeldrum.

Upplýsingar

Listi yfir starfandi dagforeldra

Smelltu hér til að sjá lista yfir dagforeldra

Hvernig er sótt um pláss hjá dagforeldri?

Dagforeldrar sjá um innritun og skráningu barna.

Hvað kostar daggæslan?

Dagforeldrar eru sjálfstætt starfandi. Gjaldskrá er frjáls og hvert dagforeldri setur fram sína gjaldskrá. Kópavogsbær greiðir ákveðna upphæð með hverju barni sem er vistað hjá dagforeldrum. Framlag með barni ræðst af hjúskapar- og námsstöðu foreldra. Sjá gjaldskrá.

Hvernig er sótt um framlag?

Dagforeldri og foreldri gera dvalarsamning og staðfesta með undirskrift. Dagforeldri sendir samninginn til daggæslufulltrúa Kópavogs sem einnig undirritar samninginn f.h. Kópavogsbæjar og skráir barnið í skráningarkerfi bæjarins.

Þegar vistun lýkur er dvalarsamningi sagt upp á þar til gerðu eyðublaði með undirskrift foreldris og dagforeldris.

Fyrirspurnir, ábendingar og ráðgjöf

Þú getur komið ábendingu eða kvörtun um þjónustu dagforeldra á framfæri við daggæslufulltrúa Kópavogsbæjar. Með kvartanir og ábendingar er farið samkvæmt

Þér er einnig velkomið að leita ráða um það sem þér liggur á hjarta og varðar barnið þitt eða annað varðandi daggæslu.

Þú getur komið ábendingu eða kvörtun um þjónustu dagforeldra á framfæri við daggæslufulltrúa Kópavogsbæjar. Með kvartanir og ábendingar er farið samkvæmt

Þér er einnig velkomið að leita ráða um það sem þér liggur á hjarta og varðar barnið þitt eða annað varðandi daggæslu.

Starfsleyfi dagforeldra

Kópavogsbær veitir daggæsluleyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og dagforeldrar gera þjónustusamning við bæinn. Í fyrstu er leyfi veitt til eins árs og má dagforeldri þá hafa 4 börn samtímis í gæslu að meðtöldum eigin börnum undir 6 ára, að ári liðnu er veitt leyfi til 4 ára í senn og má þá dagforeldri hafa 5 börn í daggæslu. Sjá reglugerð.

Eftirlit og ráðgjöf

Dagforeldrar og foreldrar gegna ákveðnu eftirliti, en auk þess er eftirlit og ráðgjöf á höndum starfsfólks á menntasviði Kópavogs. Eftirlitsaðili fer a.m.k. í þrjár óboðaðar heimsóknir árlega til dagforeldra og daggæslufulltrúi fer að lágmarki í tvö skipti árlega í heimsóknir.

Dagforeldrar skila skráningarblöðum mánaðarlega með upplýsingum um fjölda barna. Einnig er upplýsinga aflað einu sinni á ári með formlegum hætti hjá foreldrum um viðhorf þeirra til daggæslunnar hjá dagforeldrum.

Gjaldskrár

Framlög vegna dvalar barna hjá dagforeldrum

Prenta gjaldskrá

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að greiða mánaðarlega í ellefu mánuði á ári framlag vegna dvalar barna hjá dagforeldri. *Ekki er greitt fyrir sumarleyfismánuði, júlí eða ágúst.

Skilyrði fyrir greiðslu framlags vegna barns hjá dagforeldri eru eftirfarandi:

  1. Barn sé með lögheimili í Kópavogi
  2. Barn sé slysatryggt hjá dagforeldri
  3. Fyrir liggi dvalarsamningur milli dagforeldris, foreldra og Kópavogsbæjar
  4. Viðkomandi dagforeldri hafi starfsleyfi samkvæmt reglugerð um daggæslu í heimahúsum
  5. Barn njóti ekki annarra niðurgreiðslna vegna vistunar barnsins

Greiðslur geta hafist þegar barn hefur náð tíu mánaða aldri en sex mánaða aldri ef foreldi er einstætt.

Einstæðir foreldrar, námsmenn þar sem báðir foreldrar eru í fullu námi og öryrkjar með metna örorku 75% eða meira greiða lægra gjald og er framlag Kópavogsbæjar því hærra í þeim tilvikum.

Námsmenn þurfa að framvísa vottorði til staðfestingar um námsárangur eftir hverja önn og er afsláttur leiðréttur eftirá fyrir hverja önn. Afsláttur til námsmanna gildir ekki 1. júní til 31. ágúst, nema foreldrar séu í fullu sumarnámi.

Kópavogsbær veitir 50% systkinaafslátt með öðru barni og 75% vegna þriðja barns ef um er að ræða systkini í dvöl hjá dagforeldri

Framlög vegna dvalar barna hjá dagforeldrum miðast við neðangreindar gjaldskrár. Annarsvegar eru framlög vegna barna að 15 mánaða aldri og hins vegar framlög vegna barna 15 mánaða og eldri. Miðað er við mánuðinn sem barnið verður 15 mánaða.

Ný gjaldskrá tekur gildi 1. janúar 2024

Framlög vegna barna að 15 mánaða aldri

Tímafjöldi
Hjón og foreldrar í sambúð
Einstæðir foreldrar, foreldrar í námi, öryrkjar
4,0
46.987 kr.
57.496 kr.
4,5
52.862 kr.
64.684 kr.
5,0
58.735 kr.
71.871 kr.
5,5
64.608 kr.
79.058 kr.
6,0
70.483 kr.
86.245 kr.
6,5
76.356 kr.
93.432 kr.
7,0
82.229 kr.
100.618 kr.
7,5
88.103 kr.
107.806 kr.
8,0
93.976 kr.
114.992 kr.
8,5
93.976 kr.
114.992 kr.
9,0
93.976 kr.
114.992 kr.

Subsidisation of fees to day parents

Framlög vegna barna 15 mánaða og eldri

Tímafjöldi
Hjón og foreldrar í sambúð
Einstæðir foreldrar, foreldrar í námi, öryrkjar
4,0
57.283 kr.
70.093 kr.
4,5
64.444 kr.
78.855 kr.
5,0
71.562 kr.
87.617 kr.
5,5
78.767 kr.
96.379 kr.
6,0
85.926 kr.
105.140 kr.
6,5
93.087 kr.
113.902 kr.
7,0
100.247 kr.
122.664 kr.
7,5
107.408 kr.
131.430 kr.
8,0
114.568 kr.
140.192 kr.
8,5
114.568 kr.
140.192 kr.
9,0
114.568kr.
140.192 kr.

Reglugerðir

Reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum
Reglur Kópavogsbæjar um dvöl barna hjá dagforeldrum.

Reglur þessar kveða í fyrsta lagi á um greiðslur, í öðru lagi um ábyrgð, skyldur og rétt foreldra barna í dvöl hjá dagforeldrum, í þriðja lagi um ábyrgð, skyldur og rétt dagforeldra gagnvart börnum og samskipti við foreldra barnanna og í fjórða lagi kveða reglur þessar á um aðkomu og eftirlit af hálfu Kópavogsbæjar. Þær byggja m.a. á reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005 og reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002.

Dagforeldri skal kynna foreldrum reglurnar áður en daggæsla hefst.

Greiðslur
Framlag Kópavogsbæjar
1.gr.
Kópavogsbær greiðir mánaðarlega, í allt að ellefu mánuði á ári, framlag vegna dvalar barna með lögheimili í Kópavogi hjá dagforeldri. Greiðslur geta hafist þegar barn hefur náð tíu mánaða aldri en sex mánaða aldri ef foreldri er einstætt. Framlög eru í samræmi við gildandi gjaldskrá hverju sinni.

Við 15 mánaða aldur barna hækkar framlag Kópavogsbæjar með börnum hjá dagforeldrum.
Hækkun framlags er ætlað að koma til móts við mismun á kostnaði foreldra við annars vegar dvalargjöld hjá dagforeldrum og leikskólagjöldum hins vegar.

Ekki eru greidd framlög til dagforeldra vegna leikskólabarna sem kunna að dvelja í daggæslu yfir sumartímann.
Skilyrði fyrir greiðslu er að dagforeldri hafi starfsleyfi samkvæmt reglugerð nr. 907/2005 og að barnið sé slysatryggt. Framlag bæjarins er ákveðið að teknu tilliti til þess að dagforeldri innheimti dvalargjald af foreldrum barns. Framlagi skal ráðstafa í þágu þess barns sem það er veitt.

Dagforeldri og Kópavogsbær gera með sér þjónustusamning vegna greiðslu framlagsins.

Gera skal þríhliða dvalarsamning staðfestan af foreldri, dagforeldri og daggæslufulltrúa Kópavogsbæjar, við upphaf dvalar hvers barns. Dvalarsamningi skal skilað til daggæslufulltrúa eigi síðar en 15. dag næsta mánaðar á undan útborgunardegi.

Útreikningur framlags
2.gr.
Framlag Kópavogsbæjar greiðist fyrirfram einn mánuð í senn og skal greiða fyrsta virka dag mánaðarins. Við útreikninga framlagsins er miðað við fjölda virkra daga í hverjum mánuði fyrir sig. Ef dvöl hefst eða lýkur á öðrum tímum mánaðar en um mánaðarmót miðast upphæð framlags við fjölda dvalardaga sem hlutfall af virkum dögum í viðkomandi mánuði.

Við upphaf dvalartíma barna sendir dagforeldri dvalarsamning til Kópavogsbæjar. Allar breytingar þar eftir skulu gerðar á breytingareyðublaði. Mánaðarleg framlög taka mið af forsendum sem fram koma á dvalarsamning og þeim breytingum sem fram koma á breytingareyðublaði.

Frestur til að skila inn dvalarsamningum og breytingareyðublöðum er til 20. hvers mánaðar. Ef gögn berast eftir þann tíma verða greiðslur og leiðréttingar í samræmi við innsend gögn afgreidd um næstu mánaðarmót þar á eftir.

Framlag er ekki greitt í sumarleyfi dagforeldris né á þeim dögum þar sem um er að ræða lokanir og veikindi umfram það sem reglur þessar heimila. Við útreikninga á frádrætti frá framlagi vegna framangreindra daga reiknast fjöldi þeirra daga sem hlutfall af fjölda virkra daga í mánuðinum.
Framlag Kópavogsbæjar greiðist að hámarki tvo mánuði aftur í tímann.

Ef barn fær úthlutað leikskólaplássi í Kópavogi eftir 1. maí og gefst kostur á að hefja leikskóladvöl í maí eða júní, þá greiðir Kópavogsbær framlag út júnímánuð ef ekki vistast annað barn í staðinn. Ef barn fær úthlutað leikskólaplássi eftir 1. júní greiðir Kópavogsbær framlög vegna þess allt til loka ágústmánaðar að undanskildu 4 vikna sumarleyfi, að því gefnu að ekki vistist annað barn í staðinn. Þetta ákvæði á eingöngu við um dagforeldra sem eru starfandi í Kópavogi.

Afslættir
3.gr.
Afslættir er í samræmi við gildandi gjaldskrá hverju sinni.

Lækkun framlags
4.gr.
„Nú fær dagforeldri ofgreitt framlag af einhverjum ástæðum þá áskilur Kópavogsbær sér rétt til að lækka framlagið sem því nemur við næstu greiðslu eða krefjast
endurgreiðslu ef:
    a. Dagforeldri verður uppvíst að rangfærslum við tilkynningar til foreldra og/eða daggæslufulltrúa um lokanir og veikindi umfram það sem reglur þessar
         heimila.
    b. Dagforeldri missir leyfi Kópavogsbæjar til daggæslu í heimahúsi.
    c. Dagforeldri fær ofmikið greitt vegna barns.
    d. Önnur brot á reglum þessum“

Námskeið
5.gr.
Kópavogsbær greiðir 71 stunda starfsréttindanámskeið fyrir dagforeldra í Kópavogi vegna leyfisveitinga.

Kópavogsbær býður upp á námskeið á starfsdegi dagforeldra þeim að kostnaðarlausu. Annað hvert ár er haldið eldvarnanámskeið og annað hvert ár er haldið slysavarnanámskeið.
Dagforeldrum ber að sækja námskeið í samræmi við reglugerð.

Styrkir

Stofnstyrkur að upphæð kr. 300.000.- er greiddur þegar starfsleyfi hefur verið gefið út. Tilgangur styrksins er að gera dagforeldrum í Kópavogi kleift að undirbúa húsnæði sitt fyrir daggæsluna og kaupa nauðsynlegan búnað til þess, s.s. barnahúsgögn, hlið, fjölburakerru32. Ef dagforeldri starfar skemur en 1 ár skal það endurgreiða stofnstyrkinn í hlutfalli við starfstíma. Gerð er krafa um skil á nótum fyrir að lágmarki 2/3 hluta stofnstyrks.

„…Aðstöðustyrkur að upphæð kr. 150.000.- er greiddur í ágúst ár hvert til dagforeldra sem starfa innan Kópavogs. Tilgangur styrksins er að gera starfandi
dagforeldrum kleift að endurnýja búnað til viðhalds og viðurkenndrar fræðslu. Styrkurinn er fyrir komandi starfsár. Hann er reiknaður út frá fjölda starfsmánaða
dagforeldris 12 mánuðina áður en styrkurinn er greiddur. Dagforeldri sem hefur starfað í 11 mánuði og sumarfrí í 4 vikur fær greiddan fullan styrk. Þeir sem hafa
starfað í færri mánuði fá greitt hlutfallslega í samræmi við starfstíma. Það er upphæð styrks margfölduð með fjöldi starfsmánaða og deilt með 12.“

Dvalargjöld
6.gr.
Dvalargjald er það gjald sem greitt er mánaðarlega af foreldrum fyrir daggæslu. Í dvalargjaldi er innifalinn allur kostnaður vegna dvalar barns nema annað sé tekið fram í dvalarsamningi. Dvalargjald er ekki samræmt milli dagforeldra.

Dvalargjald miðast við einn almanaksmánuð. Byrji barn í miðjum mánuði er innheimt fyrir þá
virku daga sem barnið er í gæslu.

Ef greiðsla vegna dvalargjalds foreldra hefur ekki borist dagforeldri fyrir annan virka dag hvers mánaðar er dagforeldri ekki skylt að taka barnið í gæslu nema um annað sé samið.

Dagforeldri skal gefa kvittun fyrir því gjaldi sem foreldrar greiða. Millifærsla í heimabanka getur gilt sem kvittun.

Dagforeldri er óheimilt að innheimta dvalargjald fyrir fleiri en fimm börn á hverjum tíma.

Uppsagnarfrestur
7.gr.
Fyrsti mánuður barns hjá dagforeldri er reynslumánuður foreldra og dagforeldris. Fullt dvalargjald greiðist á reynslumánuði. Fresti foreldri upphafi dvalar greiðist fullt dvalargjald, frá þeim degi er samið var um að dvöl hæfist samkvæmt dvalarsamningi.

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur á dvalarsamningi áður en dvöl hefst er tvær vikur.

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er tvær vikur í fyrsta dvalarmánuði frá þeim degi sem uppsögn er lögð fram og einn mánuður að loknum reynslutíma. Framlag Kópavogsbæjar tekur mið af sömu reglu. Foreldrum og dagforeldri er heimilt að semja um styttri uppsagnarfrest t.a.m. þegar
annað barn kemur inn í staðinn fyrir það sem hættir áður en uppsagnarfrestur er liðinn eða dagforeldri hættir störfum.

Uppsögn skal vera skrifleg á þar til gerðu breytingarblaði og lögð fram hjá dagforeldri á virkum degi. Samningi skal sagt upp í síðasta lagi 1. eða 15. dag hvers mánaðar og hefst uppsagnarfrestur 1. eða 15. dag hvers mánaðar.

Sé um fyrirvaralausa uppsögn að ræða af hálfu dagforeldris skal forráðamaður fá endurgreitt dvalargjald fyrir þann tíma sem ónýttur er. Einnig skal dagforeldri endurgreiða framlag Kópavogsbæjar.

Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur og báðum aðilum ber að virða hann. Kjósi foreldri að hefja leikskóladvöl áður en uppsagnarfresti lýkur skal það greiða hvorutveggja, dvalargjald hjá dagforeldri út uppsagnarfrest auk leikskólagjalds. Í því samhengi er foreldrum bent á að kynna
sér frest til þess að hefja leikskóladvöl samkvæmt innritunarreglum leikskóla og í samráði við leikskólastjóra.

Orlof
8.gr.
Orlof er innifalið í dvalargjaldi og því greiðist ekkert gjald á meðan á sumarleyfi dagforeldris stendur. Dagforeldri skal tilkynna forráðamanni og daggæslufulltrúa hvenær það tekur orlof fyrir 1. apríl ár hvert

Lengd orlofs skal vera að lágmarki fjórar vikur. Orlofstímabil er frá 1. maí - 31. ágúst. Starfsár telst vera frá 1. ágúst til 31. júlí. Lokað er hjá dagforeldrum á aðfangadag og gamlársdag.

Ábyrgð, skyldur og réttur foreldra.
9.gr.
Ákvörðun um dvöl barns hjá dagforeldri er ætíð á ábyrgð foreldra. Foreldrar skulu í upphafi kynna sér aðstæður hjá dagforeldri og hvernig daggæslunni verði háttað. Þeir skulu upplýsa dagforeldri um daglegar venjur barnsins. Foreldrar skulu upplýsa dagforeldri verði breytingar á
högum barns sem geta haft áhrif á líðan þess að mati foreldra.

Foreldrar eiga rétt á upplýsingum um skipulag dagsins svo sem svefntíma barna, mataræði, útiveru, leikföng og svefnaðstöðu.

Aðlögun að dvöl barns skal miðast við þarfir þess og skal foreldri dvelja hjá barni sínu í upphafi eftir nánari samkomulagi við dagforeldri.

10.gr.
Foreldrum er skylt að virða dvalatíma barnsins. Dagforeldri hefur heimild til að innheimta sérstaklega ef barn er sótt of seint. Ítrekuð brot á þessari reglu jafngildir uppsögn að hálfu foreldris.

11.gr.
Foreldrar skulu láta dagforeldri vita sem fyrst og eigi síðar en kl. 9:00 ef barnið kemur ekki í dvöl þann daginn. Foreldrum ber skylda til að láta dagforeldra vita komi einhver annar að sækja barnið.

12.gr.
Í samskiptum sínum við dagforeldra skulu foreldrar virða það að um heimahús er að ræða.
Telji foreldri barns að dagforeldri hafi lokað umfram það sem reglur þessar heimila skal tilkynna daggæslufulltrúa um það. Telji foreldri barns eða annar aðili að barn njóti ekki þess aðbúnaðar og atlætis hjá dagforeldri sem því ber, skal hann tilkynna það þegar í stað til daggæslufulltrúa,
sem kannar málið.

Árlega er haldinn kynningarfundur fyrir nýja foreldra til upplýsingamiðlunar varðandi þjónustu dagforeldra og hlutverk Kópavogsbæjar gagnvart daggæslumálum, m.a. stuðningi og eftirliti með dagforeldrum.

Ábyrgð, skyldur og réttur dagforeldra.
13.gr.
Dagforeldri ber ábyrgð á barni á dvalartíma og skal hlúa að andlegri og líkamlegri velferð þess í sem víðtækustum skilningi, sbr. 28. gr. reglugerðar nr. 907/2005. Dagforeldri skal tilkynna daggæslufulltrúa ef barn slasast í daggæslu og jafnframt skrá slys á þar til gert skráningarblað.

Dagforeldri skal veita foreldrum og daggæslufulltrúa upplýsingar um skipulag dagsins svo sem svefntíma barna, mataræði, útiveru, leikföng og svefnaðstöðu sem og upplýsingar um þrif.

14.gr.
Dagforeldri ber að fara að ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfisskilyrða sem um starfsemina gilda. Dagforeldri er skylt að stuðla að öryggi barna í hvívetna með því að hafa sjúkrakassa á heimilinu og barnalæsingu á skápum með hættulegum efnum. Nota skal örugg og viðurkennd beisli í vögnum og háum barnastólum. Börn í daggæslu skulu aldrei vera skilin eftir eftirlitslaus.

Dagforeldri er skylt að sækja námskeið í skyndihjálp, slysavörnum barna og eldvarnarnámskeið á tveggja ára fresti.

Dagforeldri er skylt að stuðla að öryggi barna í hvívetna og skal sérstaklega huga að því að öryggisatriði séu í lagi s.s. slökkvitæki, reykskynjarar, eldvarnarteppi, að öryggishlið séu þar sem það á við og að rétt bil sé milli rimla í handriðum.

15.gr.
Dagforeldri ber að passa vel upp á eigur barns s.s. fatnað, leikföng, vagna og annað sem tilheyrir barninu, en ber ekki kostnað af því ef eitthvað skemmist eða týnist.

16.gr.
Dagforeldri ber að bíða til kl. 9:00, sbr. 11. gr., á morgnana eftir komu barns. Eftir þann tíma áskilur dagforeldri sér rétt til að fara í gönguferð eða aðra útivist án þess að láta foreldra vita eða bíða lengur.

17.gr.
Dagforeldri getur ekki tekið á móti veiku barni. Ef grunur leikur á að barn sé að veikjast eða beri smit á barnið ekki að mæta í daggæslu. Ef barnið veikist eða slasast í daggæslu ber dagforeldri að láta foreldra vita eins fljótt og kostur er og foreldrar sæki barnið. Nauðsynlegt er að barnið nái að jafna sig vel heima af veikindum og mæti aftur þegar það er fært um að taka þátt í allri daglegri starfsemi úti sem inni. Börnum eru ekki gefin lyf hjá dagforeldrum nema brýna nauðsyn
beri til.

18.gr.
Daglegt fæði barnanna skal vera í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um næringu barna. Dagforeldri skal hafa matseðil dagsins skriflegan og sýnilegan svo að foreldrar geti fylgst með mataræði barna sinna.

19.gr.
Verði dagforeldri þess áskynja að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða aðbúnaði þess sé áfátt er því skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. Mælst er til að dagforeldri hafi samráð við daggæslufulltrúa um slík mál. Að öðru leyti fer um slíkar tilkynningar skv. 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Áður en dvöl hefst skal tilkynna foreldrum ef gæludýr eru á heimilinu. Dagforeldri og foreldri geri með sér samkomulag um umgengni, ef dýr eru á heimilinu. Ekki er æskilegt að gæludýr séu innan um börnin.

Dagforeldri skal tryggja að gæludýr hafi ekki slæm áhrif á aðbúnað barna á heimilinu og að fyllsta öryggis og hreinlætis sé gætt. Ávallt skal fylgja reglum um dýrahald í Kópavogi.

20.gr.
Dagforeldri kaupir slysatryggingu vegna barna í samræmi við reglur Kópavogsbæjar og Samtaka dagforeldra.

21.gr.
Dagforeldri á rétt á veikindaleyfi í allt að 10 daga á starfsárinu án þess að komi til lækkunar á framlagi Kópavogsbæjar eða frádrætti á dvalargjaldi foreldra. Veikindadagar umfram þessa daga dragast frá framlagi Kópavogsbæjar og dvalargjaldi.
Dagforeldri bera að tilkynna daggæslufulltrúa um veikindi eins fljótt og auðið er.

22.gr.
Dagforeldri skal taka einn starfsdag til símenntunar á ári án þess að það sé dregið frá dvalargjaldi. Fræðsla á árlegum starfsdegi er dagforeldrum að kostnaðarlausu og skipulögð af daggæslufulltrúa Kópavogsbæjar í samráði við samtök dagforeldra. Dagsetning starfsdags skal liggja fyrir eigi síðar en 1. október ár hvert. Dagforeldri skal gera forráðamönnum grein fyrir dagsetningu starfsdags með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Dagforeldrum ber skylda til að mæta á starfsdaginn. Forfallist dagforeldri ber að upplýsa daggæslufulltrúa fyrirfram með viðhlítandi skýringum.

Dagforeldrar hafa heimild til að taka sér allt að fimm daga leyfi á ári sem nýttir eru annaðhvort milli jóla og nýárs eða um páska eða í annan tíma í samráði við foreldra. Framlag Kópavogsbæjar skerðist ekki vegna þessara frídaga og dvalargjald foreldra helst óbreytt.

Aðrar tilfallandi skammtíma fjarvistir dagforeldra s.s. vegna jarðarfara eða sérstakra fjölskyldu aðstæðna skal samið um sérstaklega við foreldra.

Loki dagforeldri umfram framangreint af öðrum ástæðum lækkar framlag Kópavogsbæjar hlutfallslega og dagforeldri ber einnig að lækka dvalargjald foreldra þann mánuð. Dagforeldri ber að tilkynna foreldrum og daggæslufulltrúa um lokun umfram framangreindra daga eigi síðar en 15. dag mánaðarins áður en leyfi hefst þannig að til lækkunar niðurgreiðslu komi í þeim mánuði er umframlokun á sér stað.

23.gr.
Dagforeldri hefur ekki heimild til að fela öðrum daggæslu barna sem það hefur leyfi fyrir nema með samþykki foreldra, sem þá bera ábyrgð á barninu, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum.

24. gr.
Fullur trúnaður skal ríkja á milli dagforeldris og forráðamanna um hagi hvors annars. Áríðandi er að upplýsingastreymi sé gott og óþvingað á milli forráðamanna og dagforeldris.

Reglur um leyfisveitingar, eftirlit og leyfissviptingar

Leyfisveitingar.
25.gr
Leikskólanefnd veitir daggæsluleyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sbr. reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005.

Um fjölda barna í daggæslu og aldur þeirra vísast til 8. greinar reglna nr. 907/2005, þar sem fram kemur m.a. að leyfi til daggæslu við upphaf leyfisveitingar nær til allt að fjögurra barna, samtímis að meðtöldum þeim sem fyrir eru á heimilinu yngri en sex ára, þó þannig að eigi skulu vera á heimilinu fleiri en tvö börn undir eins árs aldri að jafnaði.

Eftir eins árs samfelldan starfstíma er leikskólanefnd heimilt að veita leyfi fyrir fimmta barninu, enda hafi dagforeldri sýnt fram á hæfni til starfsins og veitt börnunum góðan aðbúnað.

Ekki er greitt framlag með börnum dagforeldra, nema að viðkomandi hafi einnig önnur börn í dvöl.

Eftirlit með starfsemi dagforeldris

Athugasemdir við störf dagforeldris og áskorun um úrbætur
26.gr.
Daggæslufulltrúi hefur með höndum ráðgjöf, eftirlit og umsjón með daggæslu í heimahúsum.

Daggæslufulltrúi og eftirlitsaðili skrá athugasemdir um það sem áfátt er í störfum dagforeldris, hvort sem það kemur fram í boðuðum eða óboðuðum heimsóknum þeirra til dagforeldris, athugasemdum frá foreldrum eða með öðrum hætti. Dagforeldri skal tilkynnt skriflega um það
sem áfátt er og veittur ákveðinn frestur til úrbóta/andsvara, enda sé ekki talið að sá frestur stofni velferð barns í hættu.

Foreldrum skal tilkynnt þegar í stað ef aðbúnaði barns hjá dagforeldri er ábótavant, skilyrði til leyfisveitingar eru ekki lengur fyrir hendi, önnur atriði benda til þess að ekki fari nægilega vel um barn hjá dagforeldri eða barn er í hættu statt hjá dagforeldri, svo sem vegna lélegs aðbúnaðar eða of margra barna í gæslu.

Daggæslufulltrúi og eftirlitsaðili hafa eftirlit með því hvort dagforeldri bætir úr því sem áfátt er og skulu slíkar upplýsingar skráðar.

Máli vísað til leikskólanefndar
27.gr.
Daggæslufulltrúi skal vísa máli til leikskólanefndar verði hann þess var að:
    a) Aðbúnaði barns hjá dagforeldri er ábótavant samkvæmt reglugerð nr. 907/2005
    b) Skilyrði til leyfisveitingar eru ekki lengur fyrir hendi
    c) Önnur atriði sem benda til þess að ekki fari nægilega vel um barn hjá dagforeldri
    d) Barn er í hættu statt hjá dagforeldri, svo sem vegna lélegs aðbúnaðar eða of margra
         barna í gæslu.

Eftirfarandi atriði kunna að leiða til þess að máli verði vísað til leikskólanefndar:
    a) Sæki dagforeldri ekki námskeið í skyndihjálp, slysavörnum barna og
         eldvarnarnámskeið á tveggja ára fresti án viðhlítandi ástæðna, sbr. 14. gr.
    b) Sæki dagforeldri ekki starfsdag til símenntunar einu sinni á ári án þess að boða
         viðhlítandi forföll, sbr. 22. gr.
    c) Bæti dagforeldri ekki úr því sem áfátt er eftir ábendingu daggæslufulltrúa eða
         eftirlitsaðila, sbr. 26. gr.
    d) Ítrekaðar athugasemdir við störf dagforeldris.
    e) Önnur atriði sem leiða til þess að skilyrðum 25. gr. er ekki fullnægt, svo sem brot
         dagforeldris á reglum þessum eða reglugerð nr. 907/2005.

Leiðbeiningar leikskólanefndar
28. gr.
Leikskólanefnd skal bregðast strax við og vinna að því með leiðbeiningum og á annan hátt að
dagforeldri bæti úr því sem áfátt er, sbr. 27. gr.

Leyfissvipting leikskólanefndar
29. gr.
Leikskólanefnd tekur afstöðu til tímabundinna leyfissviptinga dagforeldris á meðan málið er kannað nánar, sé það talið brýnt vegna velferðar barna, sbr. 39. gr. reglugerðar nr. 907/2005, að þau séu tekin tafarlaust úr gæslu.

Leikskólanefnd tekur afstöðu til þess hvort svipta skuli dagforeldri leyfi fari það ekki eftir reglum eða að leiðbeiningum eftirlitsaðila Kópavogsbæjar.

Leikskólanefnd tekur afstöðu til leyfissviptinga dagforeldris ef grunur er um að barn geti verið í hættu statt hjá dagforeldri, svo sem vegna lélegs aðbúnaðar, umönnunar eða of margra barna í gæslu.

Málsmeðferð vegna mögulegrar leyfissviptingar
30. gr.
Leyfissvipting byggist á XI. kafla reglugerðar nr. 907/2005 um daggæslu barna í heimahúsum, sem og ákvæðum reglna þessara.

Komi til greina að svipta dagforeldri leyfi tímabundið eða varanlega skal, svo fljótt sem því verður við komið, vekja athygli viðkomandi á því að mál hans sé til meðferðar, nema ljóst sé að hann hafi fengið vitneskju um það fyrir fram.

Áður en ákvörðun er tekin um tímabundna eða varanlega leyfissviptingu skal leikskólanefnd sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst og dagforeldri skal veittur andmælaréttur.

Ákvörðun um leyfissviptingu skal birt dagforeldri með ábyrgðarbréfi þar sem leiðbeint er um heimild til að óska eftir rökstuðningi, kæruheimild og kærufrest.

Ýmis ákvæði.
31.gr.
Dagforeldri er óheimilt að setja sér eigin reglur sem eru í andstöðu við reglur þessar.

32.gr.
Komi upp ágreiningur á milli forráðamanns barns og dagforeldris getur hvor aðili um sig leitað til daggæslufulltrúa og/eða stjórnar samtaka dagforeldra. Fullur trúnaður skal ríkja á milli aðila.

33.gr.
Leikskólanefnd fer með úrskurðarvald um ágreining sem upp kann að koma vegna ákvæða þessara reglna.

34.gr.
Kópavogsbær áskilur sér rétt til að kanna hvort farið er að reglum þessum, t.d. með skoðun dvalarsamninga, heimsóknum til dagforeldra og með annarri upplýsingagjöf frá dagforeldrum og foreldrum.

Reglur þessar voru fyrst gerðar í september 2012, yfirfarnar og samþykktar á fundi leikskólanefndar Kópavogs í mars 2014 og í desember 2015.

Samþykkt í leikskólanefnd Kópavogs 10. des 2015 og bæjarráði 17.des 2015
Uppfært í samræmi við samþykktir bæjarráðs um aðgerðir í málefnum dagforeldra í maí 2018.

Uppfært og samþykkt í leikskólanefnd febrúar 2020 og í desember 2020. Samþykkt í bæjarráði 2021.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um dagforeldra gefur daggæslufulltrúi í síma 441 0000