Heilsueflandi samfélag

Góðar aðstæður eru fyrir íbúa til að stunda útivist og hreyfingu í bænum.
Kópavogsbær hefur verið þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélag frá árinu 2015. Bærinn hefur frá þeim tíma markað sér lýðheilsustefnu og nær núverandi stefna til ársins 2025.

Í núverandi lýðheilsustefnu er lögð áhersla á fjögur svið:

  • Umhverfi
  • Geðrækt
  • Næring og hreyfing
  • Forvarnir og heilsuefling

Kópavogsbær hefur innleitt Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og hefur hlotið viðurkenningu Unicef sem Barnvænt sveitarfélag. Lýðheilsustarf tekur mið af þessu og sérstök áhersla er lögð á að hlúa að heilsu og líðan barna og fjölskyldna.

Fjölmörg lýðheilsuverkefni snúa að því að efla hreysti eldri borgara í Kópavogi. Eitt þeirra er verkefnið Virkni og vellíðan sem er hreyfiúrræði fyrir 60 ára og eldri. Þá eru ýmis önnur hreyfiúrræði í boði í félagsmiðstöðvum bæjarins og í heimaþjónustu.

Ein megin áhersla bæjarins er að skapa aðstæður fyrir íbúa til að ástunda útivist og hreyfingu auk þess sem Kópavogsbær hefur Geðræktarhús þar sem haldnir eru fundir og námskeið til að efla andlega heilsu. Sveitarfélagið hefur innleitt heimsmarkmiðin og leggur þannig drög að sjálfbærri þróun og tekur þátt í að bæta hin efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu áhrif á lýðheilsu.