- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fólk með fötlun
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Kópavogsbær var fyrsta sveitarfélagið til þess að gera ráð fyrir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun i aðalskipulagi sínu sem var samþykkt árið 2021.
Vatnsendahvarf
Skipulag fyrir nýtt hverfi, Vatnsendahvarf, var samþykkt á árinu 2023. Í hverfinu er áformað að rísi íbúðabyggð með um 500 íbúðum, bæði í sérbýli og fjölbýli. Gert er ráð fyrir góðum útivistarsvæðum, hundagerði, leikskóla, og verslun og þjónustu innan hverfisins auk sleðabrekku að beiðni ungu kynslóðarinnar.
Víðtækt samráð við íbúa Kópavogs fór fram í tengslum við mótun deiliskipulag fyrir Vatnsendahvarf og gert var áhættumat til að meta möguleg áhrif loftslagsbreytinga. Til að bregðast við því áhættumati þá er til dæmis gert ráð fyrir blágrænum ofanvatnslausnum í formi grænna þaka á fjölbýlishúsum í deiliskipulagi svæðisins.
Samráð við börn í skipulagsmálum
Tæplega 20 börn á á aldrinum 9 til 16 ára tóku þátt í fundi með starfsfólki skipulagsdeildar Kópavogs um skipulag leiksvæðis við Lund í Kópavogi.
Sérstaklega var kallað eftir hugmyndum barnanna að leiktækjum á svæðinu. Kópavogsbær er Barnvænt sveitarfélag og ein af grunnstoðum Barnasáttmálans er að kalla eftir hugmyndum barna og virða skoðanir þeirra, samanber 12. og 13. grein Barnasáttmálans.
Mikið af hugmyndum komu fram. Sumar er hægt að nýta fyrir leiksvæðið en aðrar voru settar í hugmyndabankann og geta nýst við skipulag annarra leiksvæða.
Framkvæmdir við Arnarnesveg gengu samkvæmt áætlun 2023, myndin er tekin í desember. Mynd/Vegagerðin.
Arnarnesvegur
Vel gengur við veglagningu á þriðja áfanga Arnarnesvegar en fyrsta skóflustunga var tekin í ágúst 2023. Þessi áfangi er á milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar. Áætlað er að verkinu ljúki haustið 2026.
Markmiðið með framkvæmdinni er að auka umferðaröryggi vegfarenda og stytta ferðatíma, auk þess að létta verulega á umferð um Vatnsendaveg en í Kópavogi, austan Reykjanesbrautar, búa hátt í 15.000 manns. Þá mun vegkaflinn bæta viðbragðstíma fyrir neyðaraðila í efri byggðum Kópavogs og Reykjavíkur til muna.
Frá því að verkið hófst hefur verið unnið við breikkun Breiðholtsbrautar sunnan núverandi vegar, milli Vatnsendahvarfs og Jaðarsels. Í Elliðaárdal er búið er að malbika hjáleið fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem eiga leið um svæðið og einnig er búið að setja upp lýsingu við stíginn.
Unnið var mat á umhverfisáhrifum fyrir Vegagerðina og niðurstaða þess mats var að Arnarnesvegur komi ekki til með að hafa umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfið. Helstu áhrifin af framkvæmd Arnarnesvegar eru hávaði frá umferð og aðgengi að þeim svæðum sem í dag eru notuð til útivistar. Framkvæmdaraðili telur mögulegt að draga úr þessum neikvæðu áhrifum með skeringum, byggingu hljóðmana og undirganga. Sett voru skilyrði í útboðsgögn hvað varðar vinnulag við framkvæmd vegna umhverfismála.
Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkur, Kópavogs, Betri samgangna, Veitna og Mílu. Verkið er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum, sem gerður var 2019 milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu, þar sem markmiðið er m.a. að stuðla að auknu umferðaröryggi, hagkvæmum, greiðum og skilvirkum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.
Aðgengilegar gönguleiðir
Upplýsingar um fjölbreyttar gönguleiðir í landi Kópavogs voru gerðar aðgengilegar á vef Kópavogsbæjar og gönguleiðarforritinu Wikiloc undir heitinu Kópavogsgöngur vorið 2023.
Settar voru inn upplýsingar um níu gönguleiðir og gagnlegar upplýsingar sem þeim tengjast svo sem vegalengd, áætlaðan göngutíma og hækkun á gönguleið. Þá eru gönguleiðirnar skilgreindar eftir erfiðleikastigi. Á hverri leið á forritinu Wikiloc hefur auk þess verið bætt við fróðleiksmolum um athyglisverða staði á leiðinni eða öðrum fróðleik um svæðið.
Gönguleiðirnar eru bæði innanbæjar og utan, til að mynda er bent á leið um Fossvogsdal, frá Guðmundarlundi að Elliðavatni, Kópavogsdal og Kópavogstún, Vífilsfell og umhverfis Linda- og Salahverfi.
Skógræktarfélag Kópavogs hefur aðsetur í Guðmundarlundi í Kópavogi. Þar og víðar í bæjarlandi hefur verið unnið ötullega að skógrækt.
Kópavogur vill auka gróðursetningu og skógrækt sem stuðlar að kolefnisbindingu með samstarfi við félagasamtök.
Skógræktarfélag Kópavogs hlaut Landgræðsluverðlaunin 2023 fyrir verkefnið Endurheimt birkivistkerfa, söfnun og sáning á birkifræi.
Verkefnið Söfnun og sáning á birkifræi hófst sem samstarfsverkefni fjölmargra aðila, þar með talið Kópavogsbæjar, vorið 2020. Markmiðið var að efla útbreiðslu birkiskóga með sameiginlegu átaki landsmanna við söfnun og dreifingu birkifræs.
Frá upphafi var Skógræktarfélag Kópavogs í farabroddi verkefnisins og sinnti fræðslu, leiðbeindi um fræsöfnun og dreifingu og aflaði verkefninu stuðnings og samstarfsaðila. Í Guðmundarlundi er fallegt grænt útivistarsvæði í eigu og rekstri Skógræktarfélags Kópavogs þar sem má meðal annars finna 10 brauta frísbígolfvöll, leiktæki og 9 holu minigolfvöll. Inni í miðjum lundinum er Hermannsgarður, lítill og vinalegur blómagarður með steinbeðum, stígum og bekkjum og svo er það auðvitað skógurinn sjálfur sem býður upp á mikla möguleika til leikja og útivistar.
Markmið Kópavogsbæjar er að nýta orku á hagkvæman hátt og draga úr notkun hennar eins og mögulegt er. Stofnanir og starfsfólk Kópavogs er hvatt til orkusparandi umgengni bæði hvað varðar raforku og hitaveitu. Við endurnýjun stærri tækja Kópavogs er hugað að orkusparandi tækjum. Vel er fylgst með orkunotkun í stofnunum sveitafélagsins til þess m.a. að lækka rekstrarkostnað bæjarins ásamt því að stuðla að umhverfisvænna sveitarfélagi. Leitast hefur verið við að minnka orkunotkun í stofnunum bæjarins, meðal annars með því að skipta út hefðbundinni lýsingu fyrir LED lýsingu.
Árið 2023 var sett upp LED lýsing í ýmsum fasteignum. Íþróttamannvirkin eru ofarlega í forgangi, enda í notkun 14 til 16 klukkustundir á dag. Sem dæmi má nefna að notkun í einu íþróttamannvirki í febrúar var 37.470 kWst lægri en árið á undan sem er samdráttur um 46,5% milli ára. Meðalstórt heimili notar um 4.000kWst á ári. Ef við lítum á árið í heild sinni þá samsvarar það ársnotkun um 100 heimila sem sparast í orkunotkun.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna sameiginlega að loftslagsmálum og eru með sameiginlega loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins þar sem sveitarfélögin stefna að því að höfuðborgarsvæðið verði kolefnishlutlaust í síðasta lagi árið 2035. Það þýðir að það ár verði reiknuð heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á svæðinu, að landnotkun meðtalinni, ekki meiri en sem nemur reiknaðri bindingu kolefnis.
Kolefnisbókhald er aðferðafræði sem er notuð til að áætla hversu mikið losnar af gróðurhúsalofttegundum innan svæðis á einu ári. Horft er til losunar sem hlýst af starfsemi sveitarfélaganna og einnig losun sem verður vegna ferða og amsturs íbúa, framleiðslufyrirtækja og atvinnustarfsemi innan svæðisins.
Losunarbókhaldið sem birt hefur verið fyrir árið 2022 byggir, líkt og í fyrri reikningum fyrir árið 2019, á svonefndum samfélagsleiðarvísi GCP sem World Resources Institute gaf út í samvinnu við ICLEI og C40 Cities18 (Global Protocol for Community-Scale Greenhouse Gas Emission Inventories). (Greenhouse Gas Protocol, 2019). Leiðarvísirinn er notaður fyrir losunarbókhald borga og bæja um allan heim.
VSÓ ráðgjöf hefur unnið skýrslu um kolefnisspor höfuðborgarsvæðisins fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) sem tekur til ársins 2022. Eins og fram kemur í kökuriti hér fyrir neðan þá vegur þar þyngst losun frá vegasamgöngum, iðnaði og efnanotkun, og landbúnaði og landnotkun. Staðbundin orkunotkun, úrgangur og fráveita koma þar á eftir og siglingar og flug eru lítill hluti heildarinnar.
Mynd 1.1 Hlutfallsskipting losunar frá höfuðborgarsvæðinu árið 2022
Í tengslum við breytingu á sorphirðu og fjölgun úrgangsflokka þurfti að taka fjöldan allan af tunnum í notkun. Starfsmenn Kópavogsbæjar eru hér að störfum við samsetningu og dreifingu á nýjum tunnum.
Hafist var handa við innleiðingu á nýju flokkunarkerfi sorps á höfuðborgarsvæðinu í maí 2023, sjá nánar á flokkum.is. Breytingarnar fólu í sér að nú varð skylt að flokka sorp í fjóra flokka: matarleifar, plast, pappír og óflokkaðan úrgang. Þessar breytingar hafa haft töluverð áhrif til góðs.
Ef horft er til magns blandaðs úrgangs þá sést að hann minnkar til muna eftir breytingar sem skýrist af því að stærri hluti úrgangsefna er að fá rétta úrgangsmeðhöndlun og ratar í réttan úrgangsstraum. Það fjölgar í hópi fjölbýlishúsa sem óska eftir að fækka tunnum fyrir blandaðan úrgang þar sem úrgangsmagnið hefur skroppið saman. Flokkun matarleifa og lífræns úrgangs hefur einnig í för með sér mikinn umhverfisávinning þar sem urðun á honum losar gróðurhúsalofttegundir. Með því að koma matarleifum og lífrænum úrgangi í meðhöndlun í Gas og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA) er hægt að fanga metanið sem losnar við niðurbrot lífrænna efna og sömuleiðis framleiða nothæfa moltu úr úrganginum. Íbúar virðast meðvitaðri um úrgangsmeðhöndlun sína. Það eru ennþá tækifæri hjá íbúum og stofnunum að flokka betur og þá sérstaklega að draga úr magni plasts sem ratar í ranga úrgangsstrauma.
Samræming sorphirðukerfis á höfuðborgarsvæðinu er framfaraskref sem mun skipta miklu máli í baráttunni gegn loftslagsvánni og fyrir innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Á meðal þeirra áskorana sem Kópavogur stendur frammi fyrir við innleiðingu Heimsmarkmiðanna er að huga að ábyrgri neyslu og magni úrgangs í samræmi við Heimsmarkmið 12.
Kópavogsbúar höfðu tækifæri til að koma með hugmyndir og ábendingar um framtíðarsýn þeirra fyrir Kópavogsdal í lok ársins 2023 sem lið í vinnu við að móta heildarsýn fyrir dalinn. Mikill áhugi var á hugmyndasöfnuninni og skráðu 4.000 íbúar sig inn á vefinn til að kynna sér málið eða setja inn tillögu. Það endurspeglar áhuga íbúa á dalnum sem skipar mikilvægan sess í útivist og íþróttalífi bæjarins og veitir dalurinn og aðliggjandi svæði Kópavogsbúum ómetanleg lífsgæði.
Íbúar gátu sett inn tillögur á vef verkefnisins í fimm flokkum: Náttúra, afþreying og útivist, stígar og tengingar, íþróttasvæði og annað.
Starfshópur sem bæjarráð skipaði haustið 2023 til þess að vinna tillögur að heildarsýn fyrir Kópavogsdal og leggja mat á hvort ástæða sé til að gera breytingar á gildandi skipulagsáætlun Kópavogs vann úr hugmyndum íbúa. Starfshópurinn kallaði einnig eftir þarfagreiningu frá skilgreindum hagaðilum á svæðinu.
Takk fyrir! Ábending þín er móttekin