Málefnasamningur 2014 - 2018

MÁLEFNASAMNINGUR
Um meirihlutasamstarf Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks kjörtímabilið 2014-2018. Samningurinn er grundvallaður á stefnuskrám flokkanna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014.

Skóla- og menntamál
Skólar í Kópavogi eiga að halda sér í fremstu röð. Til þess að svo megi verða þarf að skerpa á ýmsum þáttum innan skólanna sem snúa að náminu en um leið tryggja að börnunum líði vel í skólanum og að hugað sé að velferð þeirra í hvívetna. Faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði verður eflt, farið verður í stefnumótandi verkefni um leið og ráðist verður í framkvæmdir á ýmsum sviðum:
Stefnumótun í upplýsingatækni fyrir leik- og grunnskóla
Spjaldtölvur verða innleiddar í samvinnu við skólana og starfsfólk þeirra og munu nemendur á mið- og efsta stigi grunnskólanna fá spjaldtölvu til afnota
Skólunum verði gert kleift að vinna að sameiginlegu stefnumarkandi verkefni ár hvert
Mörkuð verði ný stefna fyrir dægradvölina
Boðið verður upp á sveigjanleg skil milli skólastiga sem tekur mið af áhuga, getu og hæfni barna
Nýr leikskóli byggður í Þingum
Skemmtilegri skóla- og leikskólalóðir

Velferðarmál
Kópavogsbær veitir öfluga og markvissa þjónustu sem mætir þörfum íbúa bæjarins. Lögð er áhersla á mannréttindi, virðingu fyrir fjölbreytileika og að ungir sem aldnir eigi jafnan möguleika á samfélagsþátttöku. Kópavogur skal vera leiðandi í velferðarþjónustu á Íslandi og eiga samráð við notendur þjónustunnar til að ná því markmiði. Kópavogur veitir framsýna og öfluga velferðarþjónustu og leggur áherslu á að einstaklingarnir verði virkir í samfélaginu á eigin forsendum:
Frítt í sund fyrir eldri borgara frá áramótum
Aukið framboð á félagslegu húsnæði
Núverandi íbúum í félagslega íbúðakerfinu verði auðveldað að eignast íbúðirnar
Skipa skal starfshóp sem hefur það hlutverk að fara yfir stöðu húnæðismarkaðarins m.t.t. uppbyggingar eigin húsnæðis, leiguhúsnæðis og félagslegs húsnæðis
Heimaþjónustan verði efld og endurskoðað samstarf um heimahjúkrun
Fjölbreyttari úrræði í dagþjónustu og atvinnumálum fatlaðra
Unnið að útfærslu á NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð)
Í samstarfi við ríkið verði hjúkrunarrýmum í Kópavogi fjölgað
Efling stoðþjónustu við barnafjölskyldur
Lögð verði áhersla á að þeir sem njóta fjárhagsaðstoðar fái stuðning til aukinnar virkni

Æskulýðs-, tómstunda- og íþróttamál
Það er mikilvægt að hafa gott aðgengi allra til þátttöku og virkni. Öll börn hafi möguleika á að taka þátt í fjölbreyttum íþróttum og tómstundum. Aukin áhersla verði lögð á almenningsíþróttir og aukið samstarf milli skóla, dægradvala, félagsmiðstöðva og íþrótta- og tómstundafélaga til að mynda heilsteypt þjónustumynstur fyrir börn og ungmenni. Þátttaka í tómstundum, íþróttum og listum er þroskandi og hefur mikið forvarnargildi:
Endurskoða reglur um íþrótta- og tómstundastyrki
Bæta aðgengi yngri barna að hreyfingu í samvinnu við skóla, dægradvalir og íþróttafélög
Nýtt íþróttahús í Vatnsenda
Þjónustumiðstöð við GKG verði byggð til eflingar barna- og unglingastarfs
Fjölga kostum í íþrótta-, leik- og tómstundaaðstöðu s.s. körfuboltavöllum, skapandi list, leiksvæðum, hjólabrettaaðstöðu og annarri virkni fyrir ungt fólk.
Skemmtilegra sund með fjölbreyttari starfsemi
Frítt í sund fyrir börn að 10 ára aldri
Sett verður lýðheilsustefna í Kópavogi

Menningarmál
Kópavogur er skemmtilegur bær sem leggur áherslu á frumkvæði íbúa, bæjarhátíðir og samvinnu ólíkra aðila. Aukið samstarf félagasamtaka, verslunar, ferðaþjónustu, menningarstofnana og annarra fyrirtækja gerir bæinn enn eftirsóknarverðari, eykur tekjur hans og kraft. Lista- og menningarstarf á að njóta sín í allri mögulegri mynd. Íbúar sjálfir, á öllum aldri, eiga að geta tekið þátt í því:
Skólahljómsveit Kópavogs fái varanlegt húsnæði
Umhverfi menningartorfunnar skipulagt á ný með nýjar og breyttar áherslur sem laða að menningartengda viðburði
Unnið verði að varðveislu gamla Kópavogsbæjarins og Hressingarhælisins
Stefna í menningarmálum verði endurskoðuð

Skipulags- og umhverfismál
Í Kópavogi taka íbúar þátt í að efla umhverfi sitt. Kópavogsbær sýnir ábyrgð gagnvart umhverfinu og eflir náttúruvernd og endurnýtingu. Lögð er áhersla á góðar almenningssamgöngur sem mæta þörfum íbúa. Kópavogsbær stuðlar að umhverfisvænum samgöngum með því að bæta aðstöðu fyrir gangandi, hlaupandi og hjólandi vegfarendur auk þess að bæta alla snyrtimennsku og frágang í bæjarfélaginu:
Aukin áhersla á flokkun sorps
Áfram unnið að fegrun bæjarins m.a. með trjágróðri (kirsuberjatré), fjölgun bekkja og viðhaldi grænna svæða
Auka útivistarmöguleika við strandlengjuna með fjölgun áningarstaða og grænna svæða
Kópavogshöfn verði yndishöfn með íbúabyggð og fjölbreyttri þjónustu
Skipulag stuðli að uppbyggingu minni íbúða og stúdentaíbúða
Þétting byggðar til að nýta betur innviði og mannvirki bæjarins
Fyrri hluti Arnarnesvegar verði tekinn í notkun og stefnt að lúkningu hans með samkomulagi við ríkisvaldið
Skoðaðar verði almenningssamgöngur í Kópavogi samhliða nýjum Arnarnesvegi og þéttingu byggðar
Áframhaldandi átak í uppbyggingu hjólastíga og aðgreining gangandi og hjólandi vegfarenda
Átak verði gert í fjölgun vegvísa í bæjarlandinu
Merkt verði útivistarsvæði fyrir hunda
Aukið umferðaröryggi með fjölgun hraðamælingaskilta
Fegrun atvinnuhverfa, bætt þjónusta og samstarf við þau

Atvinnu- og ferðamál
Það eykur lífsgæði að geta búið nálægt vinnustaðnum, skóla barnanna og allri þjónustu. Fyrirtækjum skal auðveldað að staðsetja þjónustu sína í Kópavogi, hlúð að rótgrónum fyrirtækjum og hvatt til nýsköpunar. Öflugt atvinnulíf er undirstaða bættra lífskjara:
Efla tengsl við atvinnulífið í gegnum Markaðsstofu Kópavogs til að stuðla að uppbyggingu bæjarins
Lóðaframboð undir atvinnuhúsnæði verði tryggt og atvinnusvæði markaðssett með frekari uppbyggingu í huga
Kópavogsbær setji sér markmið um eflingu ferðaþjónustu í bænum

Þjónusta, stjórnsýsla og íbúalýðræði
Þjónusta í Kópavogi snýst um að bregðast við þörfum og væntingum íbúa með markvissari og öflugri hætti en áður hefur verið gert. Sýna skal frumkvæði og metnað til að liðsinna íbúum og hlýða á þær ábendingar sem berast og bregðast við með markvissum úrræðum og lausnum. Íbúar Kópavogs eiga rétt á framsýnni og faglegri þjónustu og stjórnsýslu til að takast á við krefjandi verkefni. Lögð er áhersla á að veita íbúum tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu:
Endurskoða skipulag hverfaráða með eflingu í huga
Ráðist verði í heildar stefnumótun fyrir allar stofnanir bæjarins þar sem sett verða fram skýr markmið og árangursmælikvarðar
Kópavogsbær opni bókhald sitt þannig að íbúum gefist kostur á að fylgjast betur með ráðstöfun fjármagns
Aukin áhersla á íbúagátt þannig að bæjarbúar geti sótt meiri þjónustu með rafrænum hætti og að hún geti nýst við íbúakosningar
Bæjarbúar komi að forgangsröðun verkefna og kosningu um framgang mála þegar við á
Lögð verður áhersla á fjölbreytt rekstrarform og nýjar leiðir í þjónustu Kópavogs til að auka lífsgæði Kópavogsbúa
Alþjóðasamstarf bæjarins verði endurskoðað með aukna áherslu á að skólar og stofnanir taki þátt í alþjóðlegum verkefnum

Fjármál
Lögð er áhersla á ábyrga fjármálastjórn þar sem leitast er eftir hagkvæmni í rekstri, lækkun skulda og að dregið verði úr álögum á íbúa. Áhersla er lögð á markmiðssetningu í rekstri og að áætlanir standist. Einnig að fjárhagsupplýsingar séu aðgengilegar í framsetningu og nýtist við stjórnun sveitarfélagsins og íbúum til aðhalds:
Minnka álögur á fjölskyldur
Ábyrg fjármálastjórnun verði viðhöfð og áhersla lögð á niðurgreiðslu skulda
Fasteignagjöld og önnur gjöld endurskoðuð með lækkun í huga
Gjaldskrá lóða verði breytt þannig að hún ýti undir byggingu minni íbúða

 

Kópavogur 6. júní 2014


Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Bæjarfulltrúar Bjartrar framtíðar

Undirritaður málefnasamningur Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks

Síðast uppfært 03. maí 2017