Stuðningur í skóla fyrir alla

Samvinna nemenda, foreldra og fagfólks um námsleiðir og stuðning er mikilvæg í skóla fyrir alla.
Í stefnu Kópavogsbæjar um stuðning við nemendur er lögð áhersla á að allir fái nám við hæfi og að stuðningur við nemendur sé hluti af almennu skólastarfi.

Ef foreldrar hafa áhyggjur af barni er mikilvægt að leita eftir aðstoð hjá skólanum. Vandi barns getur til dæmis tengst námi, hegðun, samskiptum eða líðan. Æskilegt er að hafa fyrst samband við kennara eða annað fagfólk viðkomandi skóla en einnig er hægt að hafa samband við skólaþjónustu Menntasviðs Kópavogsbæjar.
Skólaþjónusta grunnskóla byggir á heildarsýn á aðstæður nemenda og samvinnu við nemendur, foreldra og skóla.

Upplýsingar

Atvinnutengt nám

Atvinnutengt nám er ætlað nemendum í 9. og 10. bekk sem glíma við námsleiða eða vanlíðan í skóla og atvinnutengda námið er talið styðja við nám nemandans. Námið gefur nemanda kost á að kynnast atvinnulífinu og veitir undirbúning undir framtíðina.

Sjá nánar starfsreglur um atvinnutengt nám.

Iðjuþjálfi, sálfræðingur og talmeinafræðingur í skólum

Ef foreldrar telja þörf á ráðgjöf eða stuðningi frá iðjuþjálfa, sálfræðingi eða talmeinafræðingi er best að byrja á að hafa samband við kennara eða annað fagfólk skólanna. Verksvið iðjuþjálfa, sálfræðinga og talmeinafræðinga 

Kennsluráðgjöf

Almenn kennsluráðgjöf:

Starf kennsluráðgjafa í skóla fyrir alla felst í því að styrkja faglegt starf grunnskólanna þannig að nemendur og fagfólk fái notið sín sem best í námi og starfi. Lögð er áhersla á að boðið sé upp á fjölbreytta náms- og kennsluhætti til að mæta þörfum ólíkra nemenda. Verksvið kennsluráðgjafa.

Kennsluráðgjöf með áherslu á upplýsingatækni:

Starf kennsluráðgjafa felst í því að styrkja starf grunnskólanna í þróun kennsluhátta með áherslu á upplýsingatækni.

Kennsluráðgjöf í málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku:

Við skólaþjónustu grunnskóla starfar kennsluráðgjafi í málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku sem veitir ráðgjöf um móttöku og kennslu nemenda með íslensku sem annað mál.

Námskeið

Kvíðanámskeið fyrir börn og unglinga
Klókir Krakkar er meðferðarúrræði sem hefur það markmið að þjálfa börn til að takast á við kvíða svo hann trufli sem minnst í daglegu lífi. Einnig að foreldrar öðlist þekkingu og færni til að styðja við barnið sitt. Menntasvið og velferðarsvið bjóða upp á kvíðanámskeið fyrir börn í leik- og grunnskólum og foreldra.

Námskeið um uppeldi barna með ADHD
Námskeiðið felur í sér fræðslu um ADHD og uppeldisaðferðir sem henta börnum með ADHD einkenni. Markmiðið er að foreldrar tileinki sér hagnýtar og sannreyndar aðferðir sem nýtast til lengri tíma. Menntasvið býður uppá ADHD námskeið fyrir foreldra 5-12 ára barna.

Sjúkrakennsla

Nemendur, sem vegna langvarandi veikinda eða slysa geta ekki tekið þátt í almennu skólastarfi, eiga tímabundið kost á sjúkrakennslu. Umfang kennslunnar ræðst af aðstæðum hverju sinni og er skipulögð í samvinnu skólastjóra og foreldra.

Tröð

Ef þörf er á sérhæfðri ráðgjöf í skólastarfi eða tímabundinni breytingu á námsúrræði er hægt að sækja um Tröð. Starfsáætlun Traðar

Skammtíma skólaúrræði
Tröð starfrækir skammtíma skólaúrræði sem hefur það hlutverk að sinna nemendum í grunnskólum Kópavogsbæjar sem þurfa á tímabundinni breytingu á skólagöngu að halda. Úrræðið er ætlað nemendum sem glíma við erfiðleika tengda hegðun, líðan og samskiptum og ekki hefur náðst að vinna með vandann í heimaskóla.

Atferlisráðgjöf
Atferlisráðgjafi veitir ráðgjöf með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á hegðun nemenda. Verksvið atferlisráðgjafa við grunnskóla Kópavogs

Kennsluráðgjöf
Kennsluráðgjafi veitir ráðgjöf um kennslu einstakra nemenda í heimaskóla og skipuleggur samstarf við skóla fyrir og eftir dvöl nemenda í skólaúrræði Traðar.

Námskeið – Að verða betri ég
Í Tröð starfar forvarnarteymi sem samanstendur af fjölskylduráðgjafa og grunnskólakennara. Teymið heldur námskeið í grunnskólum fyrir nemendahópa með hegðunar- og tilfinningavanda.Markmið námskeiðanna er að styrkja sjálfsmynd, auka skilning á eigin hegðun, efla samkennd, bæta samskiptahæfni og ýta undir jákvæð viðhorf og vellíðan.

Nánari upplýsingar

Hægt er að koma fyrirspurnum, ábendingum og kvörtunum á framfæri við verkefnastjóra skólaþjónustu í síma 441 0000.