- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Á Digranesi eru falleg og skemmtileg svæði sem gaman er að fara um.
Himnastiginn liggur frá Kópavogsdal og upp að Digranesheiði. Um er að ræða brattan stiga sem er einn vinsælasti líkamsræktarstaður höfuðborgarsvæðisins. Hafa göngufólk jafnt sem hlauparar notað stigann til æfinga og verður hann sífelt fjölsóttari. Bráðlega munu koma líkamsræktartæki við enda stigans og kemur það til með að auka vinsældir hans enn meira. Hvað eru tröppurnar margar?
Kópavogsdalur er eitt af stoltum Kópavogs.
Í dalnum má finna fjöldann allan af göngu- og hjólastígum og finna allir eitthvað við sitt hæfi í dalnum okkar.
Vestast í dalnum er andapollur með fjölbreyttu fuglalífi sem dregur að sér fjölda fólks. Þar má einnig finna eitt stærsta íþróttasvæði landsins sem er íþróttasvæði Breiðabliks. Árlega halda Breiðablik stærsta stúlknamót landsins í knattspyrnu í og við Kópavogsdal.
Ef farið er austar í dalinn má finna líkamsræktartæki og leiksvæði. Þessi frábæri dalur hefur fjöldann allan af setbekkjum fyrir þá sem vilja staldra við og virða fyrir sér umhverfið og það skemmtilega mannlíf sem er á staðnum. Í dalnum eru einnig skólagarðar fyrir börn á aldrinum 5 til 13 ára þar sem börnum gefst tækifæri til að rækta sitt eigið grænmeti. Margar skemmtilegar hlaupaleiðir í dalnum og má þar nefna hin vinsæla Himnastiga sem liggur frá Kópavogsdal og upp á Digranesheiði.
Kópavogsdalur hefur eitthvað fyrir alla.
Sjá myndavef
Hlíðargarður neðan Digranesvegar er sögufrægur og forvitnilegur skrúðgarður í hjarta Kópavogs. Garðurinn liggur frá Hlíðarvegi í norðri og niður að Fífuhvammi. Garðurinn var í upphafi hannaður líkt og gamlir hallargarðar Evrópu og var lengi notaður af Kópavogsbúum til 17. júní hátíðarhalda. Skjólið og friðurinn í garðinum er einstakt og nágrenni hans frábært. Við syðri enda garðsins er leiksvæði ásamt grasflötum. Perla í hjarta Kópavogs.
Sjá myndavef
Er svokallað hvalbak efst á Digraneshálsi. Hvalbakið myndaðist á þann hátt að ísaldarjökull lá yfir landinu á síðustu ísöld. Með hlýnun loftslags hefur jökulinn hopað af svæðinu og dregið efsta lag landsins með sér. Hefur hann þá skilið eftir grágrýtislag sem liggur líkt og hvalbak upp úr landinu. Á Víghól í dag má finna 10.000 ára gamlar jökulrispur í berginu.
Víghóll var eitt sinni skipulagður sem kirkjustaður fyrir Digraneskirkju. Framkvæmdir voru hafnar þegar ákveðið var að færa kirkjuna niður í Kópavogsdal, Í landlagi hólsins í dag má sjá móta fyrir grunni kirkjunnar.
Á svæðinu er útikennslustofa fyrir leik-og grunnskóla í nágrenninu enda frábært námsefni í náttúrunni allt um kring. Skógrækt er mikil á svæðinu og útsýnisskífa þar sem sést yfir mest allt höfuðborgarsvæðið.
Á svæðinu er fótboltavöllur sem var heimavöllur ÍK á árum áður.
Austan Skemmuvegar er að finna svokallaðan Einbúa. Á árum áður var einbúinn landamerki. Seinna fóru menn að vinna á staðnum grágrýti sem notað var til járnbrautargerðar sem áætlað var að leggja þar sem í dag liggur Reykjanesbraut. Þessi vinna var atvinnubótavinna á kreppuárunum. Ekki er talið óhult að hrófla meira við staðnum þar sem talið er að í honum búi álfur eða huldumaður. Sögur eru til af húsbyggjanda sem ætlaði sér að byggja hús á lóðinni en var beðinn að fara ekki nálægt hólnum í framkvæmdum sínum. Gerði hann það engu að síður og vildi ekki betur til en ýta sem nota átti til verksins bilaði þegar farið var nálægt Einbúa. Varð úr að ýtan var flutt á verkstæði og við skoðun á henni kom ekkert athugavert í ljós og fór hún í gang í fyrstu tilraun.
Dalurinn er einn fjölfarnasti útivistarstaður höfuðborgarsvæðisins. Þar liggja bæjarmörk Kópavogs og Reykjavíkur.
Á svæðinu eru göngu og hjólastígar sem tengja vestanvert höfuðborgarsvæðið við efribyggðir þess. Göngustígur dalsins er tengdur við annað stígakerfi höfuðborgarsvæðisins og er auðvelt að ferðast á hjóli eða fótgangandi til dæmis á ylströnd í Nauthólsvík, strandlengjuna á Kársnesi og inn í Elliðaárdal.
Í dalnum má finna fjöldann allan af afþreyingarmöguleikum. Strandblaksvöllur hefur verið settur upp og er hann vinsæll meðal fólks á öllum aldri ásamt því að íþróttasvæðið í Fagralundi er einnig í dalnum og er hægt að gera margt sér til skemmtunar í kringum það. Auk þessa er frisbígolfvöllur í dalnum sem eru frjáls afnot af.
Í austanverðum Fossvogdalnum er trjásafn. Byrjað var að gróðursetja í það árið 1997 og eru nú komnar um 500 tegundir trjáa og runna í safnið. Yndisgarðurinn er hluti trjásafnsins og er það samstarfsverkefni Kópavogsbæjar, Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri aðila. Innan garðsins eru matjurtagarðar fyrir íbúa, grill og setbekkir.
Sjá myndavef