Fyrsta sjálfbærniskýrsla Kópavogs hefur litið dagsins ljós. Í skýrslunni kemur glöggt í ljós hversu viðamikil og fjölbreytt verkefni eru á könnu sveitarfélagsins. Hér er þó ekki ætlunin að tíunda þau öll heldur varpa ljósi á verkefni
sem falla að markmiðum Kópavogsbæjar um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Innleiðing þeirra er hluti af viðamikilli stefnumótun sem átt hefur sér stað undanfarin ár hjá Kópavogsbæ og grunnur var lagður að í Bæjarstjórn Kópavogs með samþykkt heildarstefnu Kópavogsbæjar.
Markmið Kópavogsbæjar er að tryggja þróun sjálfbærni í sveitarfélaginu og lífsgæði íbúa bæjarins. Til þess að svo megi verða höfum við haldið stefnumótunarvinnunni áfram og haft yfirmarkmið okkar að leiðarljósi, en þau eru sótt úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Má þar nefna að árið 2021 var ráðist í að móta stefnu allra fimm sviða bæjarins; menntasviðs, umhverfissviðs, velferðarsviðs, fjármálasviðs og stjórnsýslusviðs.
Stefnunum fylgja tengdar aðgerðaáætlanir með mælanlegum markmiðum, mælikvörðum og aðgerðum. Fjárhagsáætlunargerð bæjarins tók mið af þeim markmiðum og áherslum sem birtust í stefnum sviðanna og varð þar með fyrsta stefnumiðaða fjárhagsáætlunin sem unnin hefur verið af sveitarfélagi. Haldið verður áfram á þeirri braut í ár.
Við erum stolt af því hjá Kópavogsbæ hversu vel hefur tekist til í þessum efnum en óhætt er að segja að bærinn hafi verið i forystu sveitarfélaga við innleiðingu Heimsmarkmiðanna. Sjálfbærniskýrslan veitir innsýn í þetta stóra verkefni
auk þess að fjalla um starfsemi Kópavogsbæjar í víðara samhengi. Af nógu er að taka enda Kópavogur stórt og öflugt bæjarfélag.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.