Heimgreiðslur

Foreldrar barna 15 mánaða og eldri geta sótt um heimgreiðslur vegna barna sem hvorki eru í dvöl hjá dagforeldri né í leikskóla.

Skilyrði er að barn sé með lögheimili í Kópavogi, njóti ekki annarra niðurgreiðslna frá Kópavogsbæ vegna dvalar barnsins og sé ekki í vistun hjá dagforeldri eða í leikskóla.

Umsókn um heimgreiðslur

Sækja þarf um heimgreiðslur vegna barns í  Þjónustugátt Kópavogsbæjar. Umsókn um heimgreiðslur þarf að berast fyrir 20. dag mánaðar til þess að taka gildi frá og með næstu mánaðamótum á eftir. Aðeins þarf að sækja um heimgreiðslur einu sinni. Heimgreiðslur eru ekki afturvirkar.

Lok heimgreiðslna

Greiðslur falla niður þegar barn hefur dvöl í leikskóla eða hjá dagforeldri með starfsleyfi, ef dvöl í leikskóla er hafnað vegna barna sem eru 30 mán. eða eldri eða við flutning á lögheimili barnsins úr sveitarfélaginu.

Gjaldskrár

Heimgreiðslur

Prenta gjaldskrá

Upphæð heimgreiðslna frá 1. janúar 2025 er 111.356 kr. á mánuði.

Heimgreiðslur eru greiddar eftirá frá næstu mánaðamótum eftir að barn hefur náð 15

mánaða aldri. Heimgreiðslur reiknast í fyrsta lagi frá þeim degi sem barn verður 15 mánaða. Heimgreiðslur fást að hámarki greiddar í 11 mánuði á ári, ekki er greitt vegna júlí mánaðar.

Sjá nánar í reglum um heimgreiðslur.

Sjá einnig Umsókn um heimgreiðslur

Reglugerðir

Reglur um heimgreiðslur

1. gr. Markmið
Kópavogsbær veitir foreldrum/forsjáraðilum barna 15 mánaða og eldri heimgreiðslur vegna barna sem hvorki eru í dvöl hjá dagforeldri né í leikskóla.

2. gr. Skilyrði
Greiðslur eru bundnar eftirfarandi skilyrðum:

  • Barn sé með lögheimili í Kópavogi.
  • Barn njóti ekki annarra niðurgreiðslna frá Kópavogsbæ vegna dvalar barnsins.
  • Barn sé á biðlista eftir dvöl í leikskóla í Kópavogi.

3. gr. Umsókn
Sækja þarf um heimgreiðslur vegna barns í Þjónustugátt Kópavogsbæjar. Umsókn um heimgreiðslur þarf að berast fyrir 20. dag mánaðar til þess að taka gildi frá og með næstu mánaðarmótum á eftir. Aðeins þarf að sækja um heimgreiðslur einu sinni. Heimgreiðslur eru ekki afturvirkar.

4. gr. Afgreiðsla
Heimgreiðslur eru greiddar eftir á frá næstu mánaðamótum eftir að barn hefur náð 15 mánaða aldri. Heimgreiðslur reiknast frá þeim degi sem barn verður 15 mánaða.

Greiðslur falla niður þegar barn hefur dvöl í leikskóla eða hjá dagforeldri með starfsleyfi.
Greiðslur falla niður ef dvöl í leikskóla er hafnað vegna barna sem eru 30 mán. eða eldri.
Greiðslur falla niður við flutning á lögheimili barnsins úr sveitarfélaginu.

Heimgreiðslur fást að hámarki greiddar í 11 mánuði á ári, ekki er greitt vegna júlí mánaðar

5. gr. Upphæð
Mánaðarleg heimgreiðsla er 107.176 kr.

6. gr. Uppgjör
Menntasvið hefur umsjón með framkvæmd heimgreiðslna Kópavogsbæjar. Greiðslur fara fram í fyrstu viku hvers mánaðar með rafrænum hætti.

7. gr. Leiðréttingar
Verði um ofgreiðslu að ræða áskilur Kópavogsbær sér rétt til endurgreiðslu, m.a. í tilvikum þar sem ofgreiðsla kann að vera á grundvelli þess að umsækjandi hafi gefið upp rangar upplýsingar eða ekki tilkynnt um breytingar á högum sínum sem hafa áhrif á rétt til greiðslu.

Reglur þessar gilda frá 1. janúar 2024
Reglur þessar voru samþykktar í bæjarstjórn Kópavogs í nóvember 2023


Síðast uppfært 17. janúar 2025