Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Árið 2000 settu Sameinuðu þjóðirnar fram Þúsaldarmarkmið til ársins 2015 sem sneru fyrst og fremst að þróunarríkjunum. Mikill árangur náðist og því var ákveðið að setja ný markmið til ársins 2030 og ná þau til allra ríkja heims. 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt árið 2015. Þau eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og ná bæði til alþjóðasamstarfs og innanríkismála. Markmiðin eru algild, sem merkir að aðildarríki SÞ hafa skuldbundið sig til að innleiða þau bæði innanlands og með alþjóðasamstarfi.

Bæjarstjórn hefur samþykkt að yfirmarkmiðin taki mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þannig verður unnið markvisst að því að uppfylla þau fyrir árið 2030.  Í myndböndunum er kynningarefni um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Heimssamband sveitarfélaga

Heimssamband sveitarfélaga (United Cities and Local Governments)

Heimsmarkmið 11, Sjálfbærar borgir og samfélög, snýr sérstaklega að sveitarfélögum. Engu að síður snerta öll Heimsmarkmiðin starfsemi sveitarfélaga með einhverjum, en mismiklum hætti.

Heimssamband sveitarfélaga, eða United Cities and Local Governments (UCLG) hefur flokkað undirmarkmið Heimsmarkmiðanna og tekið saman hver þeirra falla að starfsemi sveitarfélaga og eru þau 92 talsins. Flokkun Heimssambandsins var notuð við val Kópavogsbæjar yfirmarkmiðum.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um Heimssamband sveitarfélaga, www.uclg.org.