Bæjarráð

2700. fundur 19. september 2013 kl. 08:15 - 10:15 í Fannborg 2, Bæjarráðsherbergi
Fundinn sátu:
  • Rannveig H Ásgeirsdóttir formaður
  • Ármann Kristinn Ólafsson aðalfulltrúi
  • Ómar Stefánsson aðalfulltrúi
  • Ólafur Þór Gunnarsson aðalfulltrúi
  • Hjálmar Hjálmarsson áheyrnarfulltrúi
  • Pétur Ólafsson aðalfulltrúi
  • Páll Magnússon bæjarritari
Fundargerð ritaði: Páll Magnússon bæjarritari
Dagskrá

1.1306024 - Barnaverndarnefnd, 5. september

30. fundur

Lagt fram.

2.1309008 - Félagsmálaráð, 17. september

1357. fundur

Sviðsstjóri velferðarsviðs sat fundinn undir þessum lið.

3.1308065 - Reglur um úthlutun félagslegs húsnæðis.

Greinargerð um félagslegt leiguhúsnæði, sbr. lið 3 í fundargerð félagsmálaráðs 17. september.

Bæjarráð tekur undir bókun félagsmálaráðs.

Hjálmar Hjálmarsson lagði fram eftirfarandi bókun:

Undirritaður leggur fram eftirfarandi bókun:

"5. grein húsnæðislaga nr. 44 frá árinu 1998:

"Sveitarstjórn ber ábyrgð á og hefur frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Í því skyni skal sveitarstjórn fylgjast með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu."

 

Lögum samkvæmt ber sveitarfélaginu að sinna þessum málum. Undirritaður telur ekki ásættanlegt að vísa verkefninu frá sér til annarra stjórnvalda.

Hjálmar Hjálmarsson."

Hlé var gert á fundi kl. 8:50. Fundi var fram haldið kl. 9:00.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:

"Það kristallast í bókun Hjálmars að fulltrúar næst besta flokksins eru ekki samstíga. Þá er vert að vekja athygli á því að biðlistinn er u.þ.b. sá sami og þegar Hjálmar var í meirihluta og aðhafðist hann ekkert þá. Hjálmari er síðan frjálst að leggja fram skýrar tillögur. Hins vegar er minnt á það að Kópavogsbær á 400 leiguíbúðir sem er mest í fjölda talið og hlutfallslega líka, á höfuðborgarsvæðinu að Reykjavík undanskilinni. Þá eru lög í landinu um skuldahlutfall sveitarfélaga sem vinnur gegn stórfelldum húsnæðiskaupum og því hljóta ríki og sveitarfélög að þurfa að taka höndum saman.

Ármann Kr. Ólafsson, Ómar Stefánsson, Rannveig Ásgeirsdóttir"

4.1112164 - Deild 18 og 20 Lsp Kópavogstúni. Erindi frá velferðarráðuneyti.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að rita ráðherra bréf vegna málsins.

5.1309007 - Framkvæmdaráð, 18. september

55. fundur

Lagt fram.

6.1209335 - Vesturvör 38a, umsókn um lóð

Borist hefur umsókn frá Kynnisferðum ehf. um lóðina Vesturvör 38a. Framkvæmdaráð vísar erindinu til afgreiðslu bæjarráðs, sbr. lið 1 í fundargerð frá 18. september.

Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.

7.1304099 - Vatnsendahlíð, gatnagerð 1. áfangi.

Framkvæmdaráð ítrekar samþykkt frá fundi 12. júní sl. um að heimilað verði opið útboð verksins "Vatnsendahlíð, gatnagerð 1. áfangi.", sem frestað var á fundi bæjarráðs þann 13. júní. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.

8.1210302 - Samkomulag um innlausn, Skeljabrekka 4.

Sviðsstjóri umhverfissviðs lagði fram drög að samkomulagi um innlausn Skeljabrekku 4. Framkvæmdaráð samþykkir drög að samkomulagi um innlausn Skeljabrekku 4 og vísar til afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.

9.1302672 - Samkomulag um innlausn, Lækjarbotnaland 50.

Sviðsstjóri umhverfissviðs gerði grein fyrir drögum að samkomulagi við lóðarhafa Lækjarbotnalandi 50 um innlausn á húsi, gróðri og öðrum mannvirkjum á lóðinni. Framkvæmdaráð samþykkir að heimiluð verði innlausn á húsi, gróðri og öðrum mannvirkjum Lækjarbotnalandi 50 og vísar til afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð staðfestir afgreiðslu framkvæmdaráðs og samþykkir innlausn á húsi, gróðri og öðrum mannvirkjum á Lækjarbotnalandi 50.

10.1309231 - Samkomulag um uppgjör, Skógarlind 2.

Lagt fram erindi sviðsstjóra umhverfissviðs og fjármálastjóra dags. 17. september varðandi fyrirliggjandi drög að samkomulagi um uppgjör og breytta lóðarstærð Skógarlind 2. Framkvæmdaráð samþykkir drög að samkomulagi um uppgjör og breytta lóðarstærð Skógarlind 2 og vísar til afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð staðfestir afgreiðslu framkvæmdaráðs og samþykkir drög að samkomulagi um uppgjör og breytta lóðarstærð að Skógarlind 2.

11.1309236 - Engjaþing 1-3, framsal lóðarréttinda

Borist hefur erindi Húsafls ehf. dags. 13. september sl. þar sem þess er óskað að lóðarréttindi Engjaþingi 1-3 verði færð af Húsafli ehf. kt. 700584-1359 til G.Á. bygginga ehf. kt. 660402-2680. Framkvæmdaráð samþykkir að heimilað verði að lóðarréttindi Engjaþingi 1-3 verði færð af Húsafli ehf. til G.Á.bygginga ehf. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð staðfestir afgreiðslu framkvæmdaráðs og heimilar að lóðarréttindi Engjaþingi 1-3 verði færð af Húsafli ehf., kt. 700584-1359, til G.Á.bygginga ehf., kt. 660402-2680.

12.1301110 - Baugakór 38, Hörðuvallaskóli, húsnæðismál

Sviðsstjóri umhverfissviðs óskar eftir heimild framkvæmdaráðs til útboðs á stækkun Hörðuvallaskóla, sbr. samþykkt bæjarstjórnar 12. febrúar sl. Framkvæmdaráð samþykkir heimild til útboðs stækkunar Hörðuvallaskóla, sbr. samþykkt bæjarstjórnar 12. febrúar 2013. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð staðfestir afgreiðslu framkvæmdaráðs og heimilar útboð vegna stækkunar Hörðuvallaskóla.

13.1309298 - Útboð snjómoksturs gangstétta og stíga, skv. rammasamningi.

Deildastjóri framkvæmdadeildar óskar eftir heimild til útboðs snjómoksturs gangstétta og stíga, skv. rammasamningi. Framkvæmdaráð heimilar útboð snjómoksturs gangstétta og stíga skv. rammasamningi. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs.

Bæjarráð staðfestir afgreiðslu framkvæmdaráðs og heimilar útboð snjómoksturs gangstétta og stíga skv. rammasamningi.

Hjálmar Hjálmarsson lagði fram eftirfarandi bókun:

"Ég er mótfallinn þessu útboði og tel gatnahreinsun betur fyrir komið í höndum starfsmanna bæjarins.

Hjálmar Hjálmarsson"

Ómar Stefánsson lagði fram eftirfarandi bókun:

"Eins og staðan er núna á bærinn ekki tæki til að hreinsa allan bæinn.

Ómar Stefánsson"

Ólafur Þór Gunnarsson lagði fram eftirfarandi bókun:

"Undirritaður er sammála því sjónarmiði Hjálmars Hjálmarssonar að betur fari á því að bærinn sinni þessu verkefni en forsenda þess er að bærinn fjárfesti í tækjum til að sinna því.

Ólafur Þór Gunnarsson"

14.1301024 - Svæðisskipulagsnefnd hbsv. (áður Samvinnunefnd um svæðisskipulag, 6. september

36. fundur

Lagt fram.

15.1309178 - Starfsreglur fyrir svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins

Breyttar starfsreglur samþykktar á fundi svæðisskipulagsnefndar 6. september, sbr. lið 2 í fundargerð.

Bæjarráð samþykkir starfsreglur fyrir sitt leyti.

16.1309270 - Nýbýlavegur 12. Kruðerí Kaffitárs. Beiðni um umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi.

Frá bæjarlögmanni, dags. 16. september, lagt fram erindi Sýslumannsins í Kópavogi, dags. 16. ágúst, þar sem óskað er umsagnar um umsókn Kruðerí ehf., kt. 621206-1410, um nýtt rekstrarleyfi til að mega reka kaffiús í flokki I, á staðnum Kruðerí Kaffitárs, að Nýbýlavegi 12, 200 Kópavogi, skv. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og 23. gr. rgl. nr. 585/2007.

Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti og staðfestir að staðsetning er í samræmi við gildandi skipulag og afgreiðslutími er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 1127/2007 um lögreglusamþykktir.

17.1308063 - Svar við fyrirspurn varðandi auðar íbúðir í Kópavogi.

Frá bæjarlögmanni, dags. 17. september, viðbótarupplýsingar sem óskað var eftir í bæjarráði um auðar íbúðir í Kópavogi í eigu fjármálastofnana.

Lagt fram.

18.1203001 - Yfirlit launagreiðslna.

Frá starfsmannastjóra, dags. 17. september, lögð fram umbeðin gögn um launakjör sviðsstjóra og deildarstjóra er heyra beint undir sviðsstjóra.

Lagt fram.

Pétur Ólafsson lagði fram eftirfarandi bókun:

"Samkvæmt nýafstaðinni launakönnun BSRB er óútskýrður launamunur kynja meiri hjá sveitarfélögum en hjá ríkinu. Svo virðist sem Kópavogsbær sé þar síst til fyrirmyndar. Bærinn hefur þegar fengið gula spjaldið vegna þess að launakönnun meðal starfsfólks hefur ekki verið framkvæmd. Oddviti Samfylkingarinnar lagði inn fyrirspurn um gögnin fyrir einu og hálfu ári. Þau gögn sem hér eru lögð fram um laun þeirra starfsmanna sem heyra beint undir sviðsstjóra sýna að karlar eru með um 17% hærri laun en konur. Vonandi er óútskýrður launamunur kynjanna í bæjarkerfinu öllu ekki svo gríðarlegur en þessar tölur endurspegla þann mikla vanda sem Kópavogsbær stendur frammi fyrir þegar konur fá minna borgað, að því er virðist, bara af því að þær eru ekki karlar.

Pétur Ólafsson"

Hjálmar Hjálmarsson og Ólafur Þór Gunnarsson taka undir bókun Péturs Ólafssonar.

Hlé var gert á fundi kl. 9:13. fundi var fram haldið kl. 9:30.

Starfsmannastjóri mætti til fundar undir þessum lið.

Hlé var gert á fundi kl. 9:40. Fundi var fram haldið kl. 9:47.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:

"Þegar Samfylkingin leiddi hér bæjarstjórn í 20 mánuði þá var ekki lyft litla fingri varðandi mögulegan kynbundin launamun. Hins vegar hefur þessi meirihluti sýnt þá ábyrgð að fá Háskólann á Akureyri til vinna launarannsókn sem nú stendur yfir og munu niðurstöður hennar liggja fyrir á næstu vikum. Útreikningum Samfylkingarinnar er vísað á bug enda er í þeim verið að bera saman epli og appelsínur. Sem dæmi má nefna að á stjórnsýslusviði er 0% launamunur. Hins vegar bendum við Samfylkingunni á að spara gífuryrði þar til niðurstaða rannsóknar HA liggur fyrir.

Ármann Kr. Ólafsson, Ómar Stefánsson, Rannveig Ásgeirsdóttir"

Fulltrúar Samfylkingar, VG og Næstbestaflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

"Í síðasta meirihluta var vinna hafin í málinu en eftir að meirihlutinn féll hefur ekkert verið gert. Það á að vera metnaðarmál sveitarfélagsins að vera í fararbroddi þegar kemur að jafnréttismálum og að sömu laun séu greidd fyrir sambærilega vinnu. Kyn á þar engu að skipta.

Pétur Ólafsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Hjálmar Hjálmarsson"

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, lagði fram eftirfarandi bókun:

"Það er rangt að ekkert hafi verið gert.

Ármann Kr. Ólafsson"

19.1308467 - Ósk um yfirlit yfir verkefni sviðsstjóra, sem ráðinn var til starfa á árinu.

Pétur Ólafsson lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

"Óskað er eftir skriflegri greinargerð um verkefni sviðsstjóra í sérstökum verkefnum. Mikilvægt er að verkefni séu afar vel skilgreind þegar almannafé er annarsvegar.

Pétur Ólafsson"

20.1309323 - Óskað umsagnar um tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað

Frá Alþingi, dags. 16. september, óskað umsagnar um tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað.

Pétur Ólafsson lagði til að málinu verði vísað til umsagnar félagsmálaráðs.

Bæjarráð hafnar tillögunni en einn greiddi atkvæði með henni en tveir greiddu atkvæði á móti.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, lagði fram eftirfarandi bókun:

"Við höfum ekki verið að eltast við að gefa umsagnir um einstakar þingsályktanir. Ef við værum að gera það myndi það kalla á fleiri stöðugildi hjá bænum. Þetta fyrirkomulag hefur ríkt allt kjörtímabilið.

Ármann Kr. Ólafsson"

Ármann Kr. Ólafsson lagði til að erindinu verði vísað til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga til úrvinnslu.

Pétur Ólafsson lagði fram eftirfarandi bókun:

"Lítið mál er að velja og hafna umsögnum um þær þingsályktunartillögur sem hingað berast. Okkar mat er að ef um verulega hagsmuni bæjarbúa að ræða, þá skal vísa þingályktunartillögum til umsagnar innan bæjarkerfisins.

Pétur Ólafsson"

Ólafur Þór Gunnarsson tekur undir bókun Péturs Ólafssonar.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, lagði fram eftirfarandi bókun:

"Þetta eru breyttar áherslur hjá Samfylkingunni frá því að hún var í ríkisstjórn. Núna á allt í einu að fara að veita umsagnir um þingsályktanir þingmanna.

Ármann Kr. Ólafsson"

Bæjarráð samþykkir tillögu Ármanns Kr. Ólafssonar með þremur samhljóða atkvæðum. Tveir bæjarfullrúar sátu hjá.

21.1309104 - Svar heilbrigðiseftirlitsins við fyrirspurn í bæjarráði þann 5. september sl.

Frá heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, dags. 12. september, lögð fram nánari skýring á syðri landgeira í upplandi Kópavogs, sem var til umræðu á síðasta fundi nefndarinnar.

Lagt fram.

22.1304095 - Erindi Samkeppniseftirlitsins við kvörtun Gámaþjónustunnar varðandi innleiðingu á bláum tunnum til e

Frá Samkeppniseftirlitinu, dags. 13. september, óskað eftir upplýsingum varðandi framkvæmd innleiðingar á svokölluðum blátunnum í sveitarfélaginu.

Bæjarráð vísar erindinu til stjórnar SSH til úrvinnslu.

23.1309271 - Beiðni um rökstuðning vegna stjórnsýsuákvarðana Kópavogsbæjar gagnvart Svifflugfélaginu

Frá Svifflugfélagi Íslands, dags. 12. september, óskað eftir rökstuðningi á stjórnsýsluákvörðunum við afgreiðslu erinda félagsins.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarstjóra til umsagnar.

24.1309220 - Boðið upp á "Verndum þau" námskeið

Frá Æskulýðsvettvangi, samstarfsvettvangur UMFÍ, KFUM og KFUK, Bandalags íslenskra skáta og Landsbjargar í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, dags. 5. september, upplýsingar um námskeiðið Verndum þau, sem boðið er sveitarfélaginu fyrir kr. 80.000,-.

Bæjarráð vísar erindinu til forvarna- og frístundanefndar til afgreiðslu.

25.1309317 - Styrkbeiðni vegna Ástráðs, forvarnastarfs læknanema

Frá Ástráði, forvarnastarfi læknanema, dags. í september, óskað eftir styrk til starfseminnar í vetur. Kostnaðurinn er áætlaður kr. 2.000.000,- og sótt er um styrk upp í þá fjárhæð.

Bæjarráð vísar erindinu til forvarna- og frístundanefndar til afgreiðslu.

26.1305483 - Uppgreiðsla skulda og verkferlar við skuldastýringu.

Pétur Ólafsson lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

"Bæjarstjóri tilkynnti í vor að hann hefði falið endurskoðunarskrifstofunni Deloitte að framkvæma úttekt á því hvort niðurgreiðslur á lánum bæjarins fram í tímann til ábúanda jarðarinnar á Vatnsenda hafi verið eðlilegar og endurspeglað vandaða stjórnsýslu. Héraðsdómur hafði þegar úrskurðað jörðina úr hans eigu og vakti þessi ákvörðun furðu og var gagnrýnd af umsjónarmanni dánarbús jarðarinnar. Óskað er upplýsinga hvað líður þessari úttekt og að bæjarstjóri leggi fram dagsettan undirritaðan verksamning við Deloitte.

Pétur Ólafsson"

27.1309396 - Hugmyndasamkeppni um nýtingu undirgangna. Tillaga frá Pétri Ólafssyni.

Pétur Ólafsson lagði fram eftirfarandi tillögu:

"Undirritaður leggur til að blásið verði til hugmyndasamkeppni meðal allra þeirra sem hafa áhuga á nýtingu undirgangnanna við gamla Pósthúsið. Undirgöngin lágu upphaflega frá gömlu skiptistöðinni að gamla Pósthúsinu við Digranesveg. Þau tengdu jafnframt Hamraborgina við samgöngur og auðvelduðu eldri borgurum í Vogatungunni aðgengi að samgöngum og verslun og þjónustu. Undirgöngin hafa alltaf verið samkomustaður unglinga úr Kópavogi og raunar höfuðborgarsvæðinu öllu. Undirgöngin léku stórt hlutverk í pönkmenningunni á áttunda og níunda áratugnum og sleit graffiti listin á Íslandi barnsskónum þar á þeim níunda og tíunda. Í upphaflegum teikningum Benjamíns Magnússonar var gert ráð fyrir litlu leikhúsi þar fyrir ungmenni í bænum. Lagt er til að hugmyndasamkeppni verði haldin um framtíð undirgangnanna sem nú eru mannlaus og læst almenningi.

Pétur Ólafsson"

Bæjarráð vísar tillögunni til lista- og menningarráðs til úrvinnslu.

 

Fundi slitið - kl. 10:15.