Bæjarráð

2863. fundur 23. mars 2017 kl. 07:30 - 09:56 á Digranesvegi 1, bæjarráðsherbergi - Drangey
Fundinn sátu:
 • Theódóra S Þorsteinsdóttir formaður
 • Karen Elísabet Halldórsdóttir varaformaður
 • Hjördís Ýr Johnson aðalfulltrúi
 • Ása Richardsdóttir varafulltrúi
 • Margrét Júlía Rafnsdóttir varafulltrúi
 • Birkir Jón Jónsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
 • Ármann Kristinn Ólafsson bæjarstjóri
 • Anna Kristín Guðmundsdóttir starfsmaður nefndar
Fundargerð ritaði: Anna Kristín Guðmundsdóttir verkefnastjóri stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.1702218 - Fundartími bæjarráðs

Bókun um stjórn fundarins:
"Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarráðsmaður VGF getur ekki mætt á þennan fund bæjarráðs þar sem föstum fundartíma hefur verið breytt á miðju starfsári ráðsins. Bæjarfulltrúar gegna margvíslegum störfum og hafa margvíslegum skyldum að gegna sem í mörgum tilfellum eru skipulögð marga mánuði fram í tímann. Breytingar sem gerðar eru með þessum hætti án samþykkis allra fulltrúa eru afar óheppilegar. Enginn haldbær rökstuðningur hefur komið fram sem réttlætir breytingar á þessum tímapunkti. Velta má fyrir sér tilgangi breytinga sem þessara þ.s. þær geta útilokað rétt kjörinna fulltrúa frá aðkomu að málum."

Bókun Ármanns Kr. Ólafssonar:
"Þessi bókun frá bæjarfulltrúanum kemur mér verulega á óvart þar sem ný tímasetning var m.a. gerð í samráði við hann. Það var í því ljósi að ég gerði tillögu þann 23. febrúar um að flýta fundum til kl 07.30. Upphafleg tillaga var um að flýta fundum til kl 07.00 en um það var hins vegar ekki sátt og hafnaði bæjarfulltrúinn því alfarið, í framhaldinu hafði ég því samráð við hann og taldi ég að sátt væri um niðurstöðuna og kynnti hana sem slíka. Við endurskoðun á starfsumhverfi bæjarfulltrúa sem tók gildi síðari hluta síðasta árs kom það skýrt fram að bæjarfulltrúar ættu að geta sótt fundi utan hefðbundins vinnutíma, jafnframt fór forsætisnefnd yfir tímasetningar í nýjum ráðum bæjarins en ekki var fjallað um fundartíma bæjarráðs. Sjálfur vil ég taka fram að ég fagna þessari breytingu í ljósi þess að mikið munar um það í annasömu starfi bæjarstjóra að bæjarráð hafi samþykkt að flýta fundartímanum þar sem hefðbundin vinnutími nýtist mun betur en áður og hafa fleiri bæjarráðsmenn tekið undir það. Mér þætti vænt um að bæjarfulltrúinn talaði skýrar ef til þess kemur að við eigum frekara samráð."

Fundarhlé var gert kl. 9:19.

Fundi var fram haldið kl. 9:25.

Bókun Margrétar Júlíu Rafnsdóttur:
"Á fundi bæjarráðs þegar málið var tekið fyrir bað Arnþór Sigurðsson sem sat fundinn í fjarveru Ólafs Þórs Gunnarssonar um frestun, svo að Ólafur gæti tekið afstöðu til málsins. Samtöl höfðu átt sér stað í aðdraganda fundarins, en engar ákvarðanir teknar. Varafulltrúi VG á fundinum taldi heppilegra að þeir sem málið varðaði mest kæmu að ákvörðuninni. Við því var ekki orðið."

Bókun Ármanns Kr. Ólafssonar:
"Það var búið að fresta málinu einu sinni, Arnþór Sigurðsson lagði fram bókun og síðan var málið tekið til afgreiðslu. Annað sem kemur fram er ekki rétt."

2.1703957 - Lækjarbotnaland 53e. Heimild til veðsetningar

Frá bæjarlögmanni, dags. 21. mars, lögð fram beiðni f.h. lóðarhafa Lækjarbotnalands 53E, Eiríks Knúts Gunnarssonar, um heimild til að veðsetja lóðina. Lagt er til að bæjarráð heimili veðsetninguna.
Bæjarráð samþykkir umbeðið veðleyfi með fimm atkvæðum.

3.1612340 - Bólusetningar barna í leik- og grunnskólum.

Frá lögfræðideild, dags. 20. mars, lögð fram umsögn um fyrirspurn af fundi bæjarráðs þann 15. desember sl. að því er varðar bólusetningar barna í leik- og grunnskólum vegna kíghósta.
Lagt fram.

Bókun Karenar E. Halldórsdóttur:
"Ég þakka lögfræðingi Kópavogs fyrir greinagott og vandað svar.

Ég er hrygg yfir því að það sé ekkert sem Kópavogsbær má gera til þess að upplýsa foreldra og skólayfirvöld um mögulega smithættu af þeim sem ekki eru bólusettir fyrir t.d. Kíghósta. Bólusetning og "ekki bólusetning" er tilkynningarskyld til sóttvarnarlæknis sem hefur þessar upplýsingar og setur í sjúkraskrár. Erindi mitt vísaði í hvort leikskólar og skólar gætu óskað eftir upplýstu samþykki foreldra um hvort barn væri bólusett fyrir helstu smitsjúkdómum sem herja þá helst á óvarin ungabörn heima fyrir. Slíkt er bæjarfélaginu ekki heimilt. Þessar upplýsingar varða persónuverndarlög og hvílir þagnarskylda á heilbrigðisstarfsfólki um vernd sjúklinga.

Hafa skal samt í huga að lögin eru mannanna verk og vil ég hvetja Alþingi til að íhuga heimildir sveitarfélaga um upplýsingagjöf, á leikskólum og skólum, vegna bólusetninga til þess að vernda hagsmuni heildarinnar sem hlýtur að vera áframhald á því að bægja frá sem flestum smitsjúkdómum frá ungviði og lýð landsins."

Ása Richardsdóttir, Birkir Jón Jónsson og Margrét Júlía Rafndóttir taka undir bókun Karenar E. Halldórsdóttur.

4.1703033 - Nýbýlavegur 1. Krafa um að byggingarleyfisumsókn verði afgreidd án tafar

Frá lögfræðideild, dags. 20. mars, lagt fram minnisblað um kröfu lóðarhafa Nýbýlavegar 1 um tafarlausa afgreiðslu byggingarleyfis sem sótt var um vegna framkvæmda á lóðinni.
Lagt fram.

Karen E. Halldórsdóttir víkur af fundi kl. 7:39 við afgreiðslu málsins.

Karen E. Halldórsdóttir kemur aftur inn á fund að lokinni afgreiðslu málsins kl. 7:46.

5.1702253 - Austurkór 104, íb. 232-6115, Eignafélag Akralindar ehf. Umsagnarbeiðni vegna umsóknar um nýtt rekstrarleyfi

Frá lögfræðideild, dags. 21. mars, lagt fram bréf Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 10. febrúar, þar sem óskað er umsagnar um umsókn Eignarfélags Akralindar ehf., kt. 700899-2099, um nýtt rekstrarleyfi fyrir íbúðagistingu í flokki II, að Austurkór 104, 203 Kópavogi, skv. 10 gr. laga nr. 85/2007 og 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Samkvæmt 1. tl. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 staðfestir sveitarstjórn sem umsagnaraðili að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé utan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.
Bæjarráð leggst gegn veitingu umbeðins leyfis með vísan til framlagðrar umsagnar lögfræðideildar.

6.1702262 - Austurkór 104, íb. 232-6116, Eignafélag Akralindar ehf. Umsagnarbeiðni vegna umsóknar um nýtt rekstrarleyfi

Frá lögfræðideild, dags. 21. mars, lagt fram bréf Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 10. febrúar, þar sem óskað er umsagnar um umsókn Eignarfélags Akralindar ehf., kt. 700899-2099, um nýtt rekstrarleyfi fyrir íbúðagistingu í flokki II, að Austurkór 104, 203 Kópavogi, skv. 10 gr. laga nr. 85/2007 og 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Samkvæmt 1. tl. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 staðfestir sveitarstjórn sem umsagnaraðili að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé utan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.
Bæjarráð leggst gegn veitingu umbeðins leyfis með vísan til framlagðrar umsagnar lögfræðideildar.

7.1603633 - Íbúalýðræði þátttökufjárlagagerð

Frá deildarstjóra gatnadeildar, dags. 14. mars, lagt fram yfirlit yfir stöðu verkefna sem kosin voru áfram í Okkar Kópavogur.
Lagt fram.

8.1702371 - Áskorun til yfirvalda að fara eftir reglugerð um velferð gæludýra

Frá framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, dags. 1. mars, lögð fram umsögn um fyrirkomulag hundaeftirlits í tilefni af opnu bréfi sem barst kjörnum fulltrúum sem bæjarráð vísaði til umsagnar heilbrigðisfulltrúa á fundi þann 23. febrúar sl.
Lagt fram.

9.17031047 - Endurskoðun á rekstrarfyrirkomulagi endurvinnslustöðva

Frá SSH, dags. 21. mars, lagt fram erindisbréf starfshóps um endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi á rekstri endurvinnslustöðva sveitarfélaganna, þ.m.t. endurskoðun á núverandi samningi við Sorpu bs. vegna reksturs þeirra. Óskað er eftir að bæjarráð tilnefni sinn fulltrúa í starfshópinn.
Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum að skipa Karl Eðvaldsson í starfshóp um endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi á rekstri endurvinnslustöðva sveitarfélaga.

10.1703315 - Vogatunga 45. Óskað eftir undanþágu frá kvöð í lóðarleigusamningi um aldur

Frá Guðbjörgu Helgu Jóhannesdóttur, dags. 20 mars, lögð fram beiðni um endurupptöku á beiðni um undanþágu á aldri kaupanda vegna kaupa á Vogatungu 45 sem bæjarráð hafnaði á fundi þann 9. mars sl.
Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum beiðni um endurupptöku málsins.

Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum að veita undanþágu frá aldri kaupanda vegna kaupa á Vogatungu 45.

11.1703871 - Breyting á samþykktum Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar

Frá Brú lífeyrissjóði, dags. 16. mars, lögð fram tillaga að breytingum á samþykktum Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar sem samþykkt var á fundi stjórnar lífeyrissjóðsins þann 30. janúar sl.
Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum tillögu að breytingum á samþykktum Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar og vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar.

12.1703940 - Uppgjör vegna reksturs og framkvæmda á skíðasvæðum 2016

Frá Samstarfsnefnd skíðasvæða, dags. 17. mars, lagt fram uppgjör vegna reksturs og framkvæmda á skíðasvæðum 2016.
Lagt fram.

13.1703754 - Til umsagnar: Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (afnám lágmarksútsvars), 120. mál.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, dags. 14. mars, lagt fram til umsagnar frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (afnám lágmarksútvarps), 120 mál (þingmannamál).
Bæjarráð vísar málinu til bæjarlögmanns til afgreiðslu.

Bókun Karenar E. Halldórsdóttur:
"Sveitarfélög reyna langflest hver að halda sínu útsvari í eins miklu lágmarki og rekstur bæjarfélaganna leyfir hverju sinni. Því starfi sinna sveitarstjórnarfulltrúar allsstaðar á landinu af mikilli samviskusemi. Hvergi á landinu má greina óþarfa útsvars"píningu" sveitarfélaga. Verkefni þeirra eru ekki lítilvægleg og snúa m.a. að rekstri grunnskóla, leikskóla, velferðarþjónustu og skipulagningu nýrra hverfa. Við hafa bæst verkefni vegna mikils fjölda ferðamanna sem leitt hefur m.a. til húsnæðisskorts á höfuðborgarsvæðinu og mikils álags á helstu ferðamannastaði og innviði landsins.

Ég vil hvetja flutningsmenn frumvarpsins til þess að einbeita sér að breytingum á tekjustofnum sem lúta beint að rekstri ríkissjóðs sem að lokum eiga að greiða fyrir innviðauppbyggingu samfélagsins. Þegar og ef slíkt verður skoðað, að hafa þá jafnvel í huga hvort sveitafélög ættu að fá hlutdeild í tekjustofnum ríkisins vegna verkefna sinna."
Undirrituð hefur óskað eftir að bókunin verði send efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Bókun Ásu Richardsdóttur og Margrétar Júlíu Rafnsdóttur:
"Tek undir bókun Karenar Elísabetar Halldórsdóttur og hvet Alþingismenn til að hafna þessu frumvarpi."

14.1703828 - Til umsagnar: Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði samgangna, 234. mál

Frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, dags. 15. mars, lagt fram til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði samgangna (innleiðing alþjóðlegra skuldbindinga, EES-reglur), 234. mál (stjórnarfrumvarp).
Bæjarráð vísar málinu til bæjarlögmanns til afgreiðslu.

15.1703832 - Til umsagnar: Frumvarp til laga um útlendinga (frestun réttaráhrifa o.fl.), 236. mál

Frá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, dags. 16. mars, lagt fram til umsagnar frumvarp til laga um útlendinga (frestun réttaráhrifa o.fl.), 236. mál (stjórnarfrumvarp).
Bæjarráð vísar málinu til bæjarlögmanns til afgreiðslu.

16.1703873 - Til umsagnar: Frumvarp til laga um Umhverfisstofnun (heildarlög), 204. mál

Frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, dags. 17. mars, lagt fram til umsagnar frumvarp til laga um Umhverfisstofnun (heildarlög), 204. mál (stjórnarfrumvarp).
Bæjarráð vísar málinu til bæjarlögmanns til afgreiðslu.

17.1703004F - Jafnréttis- og mannréttindaráð - 54. fundur frá 09.03.2017

Fundargerð í 2. liðum.
Lagt fram.

18.1703006F - Lista- og menningarráð - 69. fundur frá 16.03.2017

Fundargerð í 3. liðum.
Lagt fram.

19.1703005F - Skipulagsráð - 4. fundur frá 20.03.2017

Fundargerð í 22. liðum.
Lagt fram.

Fyrirspurn frá Margréti Júlíu Rafnsdóttur, sem óskar eftir formlegu svari:
"Í ljósi umræðu undanfarið um að í byggingarreglugerð séu ekki kvaðir um hleðslu fyrir rafbíla við nýbyggingar þá óska ég eftir upplýsingum um hvort í því íbúðarhúsnæði sem er í byggingu í Kópavogi og verður reist á næstunni sé gert ráð fyrir hleðslu fyrir rafbíla."

Birkir Jón Jónsson tekur undir bókun Margrétar Júlíu Rafnsdóttur.
 • 19.8 1509910 Brekkuhvarf 20. Breytt deiliskipulag.
  Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju tillaga skipulags- og byggingardeildar að breyttu deiliskipulagi Brekkuhvarfs 20. Í breytingunni felst að lóðinni verður skipt í tvær lóðir, Brekkuhvarf 20 og 20a. Nýja lóðin, Brekkuhvarf 20a, verður 937,7 m2 að stærð. Á lóðinni verður byggingarreitur fyrir einbýlishús á einni til tveimur hæðum með hámarksnýtingarhlutfall 0,3. Heildarbyggingarmagn yrði um 220 m2, hámarksvegghæð og þakhæð byggingarreitar verður 5 m. suðvesturhliðar (að götu) verður 5 m. Staðsetning bílgeymslu verður í suðvesturhluta byggingarreitar. Fyrirhuguð nýbygging rúmast að öllu leyti innan núverandi byggingarreits Brekkuhvarfs 20. Uppdráttur í mkv. 1:1000 ásamt greinargerð og skýringarmyndum dags. 5. desember 2016.
  Skipulagsnefnd samþykkti með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að kynna ofangreinda tillögu og vísaði til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 13. desember 2016 staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar. Tillagan var kynnt frá 17. desember 2016 með athugasemdafresti til 6. mars 2017. Ábendingar og athugasemdir bárust frá Magnúsi Alfreðssyni og Þórönnu S. Sverrisdóttur, lóðarhöfum Brekkuhvarfi 22, dags. 5. mars 2017.
  Þá lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar um framkomnar athugasemdir og ábendingar. Er umsögnin dags. 17. mars 2017.
  Niðurstaða Skipulagsráð - 4 Skipulagsráð samþykkir framlagða tillögu með vísan í niðurstöðu ofangreindrar umsagnar skipulags- og byggingardeildar dags. 17. mars 2017. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

  Kristinn Dagur Gissurarson sat hjá við afgreiðslu málsins.
  Niðurstaða Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar.
 • 19.10 1703429 Geislalind 6. Viðbygging.
  Lögð fram tillaga Jóns Hrafns Hlöðverssonar byggingatæknifræðings fh. lóðarhafa þar sem óskað er eftir stækkun á einbýlishúsi auk byggingar á stakstæðri vinnustofu og bílskúr á lóðinni nr. 1 við Geislalind. Í breytingunni felst að við einbýlishúsið yrði byggð viðbygging og sólskáli, heildarstærð einbýlishúss eftir stækkun yrði um 145 m2. Stærð stakstæðar byggingar er áætluð um 133 m2, brúttóstærð eftir breytingu er 278 m2. Uppdrættir í mkv. 1:100 ásamt skýringarmyndum og erindi dags. 1. mars 2017. Niðurstaða Skipulagsráð - 4 Skipulagsráð samþykkir með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa ofangreinda tillögu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar.
 • 19.11 1703287 Austurkór 127. Breytt deiliskipulag.
  Lagt fram erindi Kristins Ragnarssonar, arkitekts f.h. lóðarhafa að Austurkór 127, dags. 28. febrúar 2017 þar sem óskað er eftir heimild til að breyta einbýlishúsalóð í parhúsalóð. Jafnfram er óskað eftir að byggingarreitur verði breikkaður um 5 metra. Niðurstaða Skipulagsráð - 4 Skipulagsráð samþykkir með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa ofangreinda tillögu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar.
 • 19.12 1703551 Dalaþing 7. Breytt deiliskipulag.
  Lögð fram tillaga Sigurðar Hafsteinssonar byggingatæknifræðings, dags. 6. mars 2017 fh. lóðarhafa þar sem óskað er eftir heimild til að breyta deiliskipulagi lóðarinnar við Dalaþing 7 úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð. Byggingarreitur yrði færður um 1 m. í suðvestur og 1 m. í norðaustur, reitur húss yrði 16 m. x 17 m. í stað 14 m. x 17 m. Uppdráttur í mkv. 1:1500. Niðurstaða Skipulagsráð - 4 Skipulagsráð samþykkir með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa ofangreinda tillögu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

  Steingrímur Hauksson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
  Niðurstaða Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar.
 • 19.13 1703626 Austurkór 85. Breytt deiliskipulag.
  Lögð fram tillaga Kristins Ragnarssonar, arkitekts f.h. lóðarhafa Austurkórs 85 dags. 28. febrúar 2017 þar sem óskað er eftir að breyta einbýlishúsalóð í lóð fyrir parhús á einni hæð. Jafnframt er óskað eftir því að byggingarreitur stækki til vesturs um 1.5 metra. Uppdráttur í mkv. 1:1000 ásamt skýringarmyndum. Niðurstaða Skipulagsráð - 4 Skipulagsráð samþykkir með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa ofangreinda tillögu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar.
 • 19.17 1703846 Melahvarf 3. Breytt deiliskipulag.
  Frá byggingarfulltrúa:
  Lögð fram tillaga Gunnars Sigurðssonar arkitekts fh. lóðarhafa lóðar nr. 3 við Melahvarf um byggingu einbýlishúss ásamt hljóðveri og gestahúsi. Í tillögunni felst að byggja 127,3 m2 einbýlishús á einni hæð ásamt 246,9 m2 hljóðveri með milligólfi og 54 m2 stakstæðu gestahúsi, í heildina samtals 428,2 m2. Lóðin er 1,569 m2 og með byggingunum yrði nýtingarhlutfall 0,27. Uppdráttur í mkv. 1:100 og 1:1500 ásamt skýringarmyndum dags. 2. janúar 2017.
  Niðurstaða Skipulagsráð - 4 Skipulagsráð samþykkir með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa ofangreinda breytingu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar.

20.1703009F - Velferðarráð - 5. fundur frá 13.03.2017

Fundargerð í 10. liðum.
Lagt fram.

21.1412337 - Markaðsstofa Kópavogs

Tillaga frá Birki Jóni Jónssyni:
"Staða Markaðsstofu Kópavogs. Óskað er eftir því að Heimir Jónasson komi á fund ráðsins til að ræða stöðu, stefnu og horfur í starfsemi Markaðsstofu Kópavogs."
Bæjarráð samþykkir tillögu Birkis Jóns Jónssonar og óskar eftir því að fá Heimi Jónasson frá Markaðsstofu Kópavogs á fund ráðsins.

22.17031082 - Launað orlof starfsmanna einum mánuði fyrir settan fæðingardag. Tillaga frá Birki Jóni Jónssyni

Tillaga frá Birki Jóni Jónssyni:
"Undirritaður óskar eftir því að bæjarstjóri taki saman minnisblað um kosti þess að veita starfsmönnum bæjarins möguleika á launuðu fríi einum mánuði fyrir settan fæðingardag. Jafnframt að mat verði lagt á kostnaðarauka við þessa kerfisbreytingu."

Greinargerð:
Kópavogsbær er einn stærsti vinnuveitandi landsins. Mikilvægt er að bærinn veiti starfsfólki sínu svigrúm til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf líkt og tilgangur laga um fæðingar- og foreldraorlof. Í þessu skyni er rétt að skoða hvort veita eigi verðandi foreldrum rétt til launaðs orlofs. Nú nýverið tók Hveragerðisbær þá ákvörðun að veita sínum starfsmönnum þessi réttindi. Það er brýnt að Kópavogsbær skoði kosti og galla þess að feta þá slóð sem Hveragerðisbær hefur markað.
Bæjarráð samþykkir tillögu Birkis Jóns Jónssonar með fjórum atkvæðum gegn mótatkvæði Karenar E. Halldórsdóttur.

Bókun Karenar E. Halldórsdóttur og Ásu Richardsdóttur:
"Við óskum eftir að tekið verði saman hversu margir starfsmenn fari í veikindaleyfi fyrir áætlaðan fæðingardag barns í umræddu minnisblaði."

23.17031084 - Hellisheiðarvirkjun. Úrræði Orkuveitu Reykjavíkur vegna mengunar. Tillaga frá Ólafi Þór Gunnarssyni

Tillaga frá Ólafi Þór Gunnarssyni:
"Undirritaður fer fram á að forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur verði kallaður á fund ráðsins. Töluverð brögð hafa verið að því í vetur að gætt hafi mengunar frá Hellisheiðarvirkjun, hennar orðið vart í byggð, og ekki að sjá að breyting hafi orðið á þrátt fyrir fyrirheit um annað. Undirritaður telur því rétt að forstjórinn verði boðaður á fund til viðræðna við bæjarráð til að ræða til hvaða úrræða orkuveitan hyggst grípa til að bæta úr."
Bæjarráð tekur undir tillögu Ólafs Þórs Gunnarssonar.

24.17031085 - Kópavogshælið. Staða framkvæmda. Fyrirspurn frá Ólafi Þór Gunnarssyni

Fyrirspurn frá Ólafi Þór Gunnarssyni:
"Hver er staðan á framkvæmdum við "Gamla Kópavogshælið" Bæjarstjórn samþykkti á síðasta ári að húsið yrði gert upp með það fyrir augum að þar yrði hægt að halda bæjarstjórnarfundi, og fleiri viðburði og undirritaður kallar eftir upplýsingum um gang mála."
Bæjarráð tekur undir fyrirspurn Ólafs Þórs Gunnarssonar.

Fundi slitið - kl. 09:56.