Bæjarráð

2986. fundur 23. janúar 2020 kl. 08:15 - 10:40 á Digranesvegi 1, bæjarráðsherbergi - Víghóll
Fundinn sátu:
  • Birkir Jón Jónsson formaður
  • Margrét Friðriksdóttir varamaður
  • Ármann Kristinn Ólafsson varamaður
  • Bergljót Kristinsdóttir varamaður
  • Theódóra S Þorsteinsdóttir aðalmaður
  • Sigurbjörg Erla Egilsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Ása Arnfríður Kristjánsdóttir lögfræðingur
Fundargerð ritaði: Ása A. Kristjánsdóttir lögfræðingur
Dagskrá

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

1.2001025 - Beiðni um undanþágur (undanþágulisti) vegna verkfalla 2020

Frá starfsmannadeild, dags. 13. janúar, lögð fram drög að auglýsingu um störf sem undanskilin eru verkfallsheimild.
Lagt fram og samþykkt.

Erindi og umsagnir frá starfsmönnum

2.2001133 - Sumarstörf 2020

Frá deildarstjóra gatnadeildar, dags. 16. janúar, lagt fram erindi þar sem óskað er heimildar til að auglýsa laust til umsóknar sumarstörf hjá Kópavogsbæ 2020 fyrir 18 ára og eldri. Einnig lagðar fram til samþykktar vinnureglur við ráðningar sumarstarfsfólks.
Lagt fram og samþykkt.

Ýmis erindi

3.2001326 - Þjónustusamningur við Fjölsmiðjuna

Frá SSH, dags. 2. desember, lögð fram tillaga að nýjum þjónustusamningi við Fjölsmiðjunar sem stjórn SSH samþykkti að vísa til afgreiðslu aðildarsveitarfélaganna, ásamt minnisblaði framkvæmdastjóra SSH dags. 28. nóvember.
Bæjarráð veitir bæjarstjóra heimild til að undirrita þjónustusamning við Fjölsmiðjuna.

Ýmis erindi

4.2001330 - Álmakór 19. Ósk um leiðréttingu á lóðarmörkum

Frá Kristjáni Hjálmari Ragnarssyni og Kristjönu Unu Gunnarsdóttur lóðarhöfum Álmakórs 19, dags. 6. desember, lagt fram erindi um leiðréttingu á lóðarmörkum lóðarinnar.
Bæjarráð vísar málinu til sviðsstjóra umhverfissviðs til umsagnar.

Ýmis erindi

5.19081181 - Endurskoðuð áætlun móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleyfa skipa

Frá Umhverfisstofnun, dags. 14. janúar, lagt fram erindi um eftirlit með móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum. Einnig lagt fram erindi Umhverfisstofnunar, dags. 19. desember, um staðfestingu á áætlun Kópavogshafna um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa frá skipum.
Bæjarráð vísar erindinu til hafnarstjórnar.

Fundargerð

6.2001006F - Barnaverndarnefnd - 99. fundur frá 15.01.2020

Fundargerð í 5 liðum.
Lagt fram.

Fundargerð

7.1911016F - Lista- og menningarráð - 108. fundur frá 16.01.2020

Fundargerð í 41 lið.
Lagt fram.

Fundargerð

8.1912012F - Skipulagsráð - 67. fundur frá 20.01.2020

Fundargerð í 14 liðum.
Lagt fram.
  • 8.3 1911283 Auðbrekka - þróunarsvæði. Svæði 1 og 2. Deiliskipulag.
    Lagt fram erindi skipulags- og byggingardeildar dags. 20. janúar 2020 þar sem gert er ráð fyrir breyttu deiliskipulagi á svæði 1 og 2. Í breytingunni felst að íbúðum á ofangreindum svæðum fjölgar í heildina um 32 og verði eftir breytingu 132 íbúðir. Gert er ráð fyrir að falli verði frá sameiginlegri lóð húsanna að Nýbýlavegi 2 til 12 undir niðurgrafna bílageymslu og að lóðarmörk lóða stækki í samræmi við það. Heildarstækkun lóða verður 4.417 m2. Að Nýbýlavegi 4 og 8 er fallið frá áætlunum um að heimila alls 29 íbúðir og í þeirra stað verður gert ráð fyrir 2.900 2 í nýju athafnahúsnæði. Að Nýbýlavegi 6 er gert ráð fyrir að fallið verði frá að heimila 17 íbúðir og í þeirra stað verði gert ráð fyrir 1.700 m2 í nýju atvinnuhúsnæði. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á heildarbyggingarmagni, fjölda bílastæða eða hæð húsa á umræddum lóðum miðað við gildandi deiliskipulag. Að Nýbýlavegi 6 er gert ráð fyrir einni íbúð.
    á lóðinni að Nýbýlavegi 10 verður fallið frá áætlun um atvinnuhúsnæði (hótel með 111 herbergjum) í suðurhluta byggingarreits og í þess stað gert ráð fyrir 33 íbúðum auk bílageymslu og stoðrýma í kjallara. Heildarfjöldi íbúða eftir breytingu verður 80 íbúðir. Heildarflatarmál eykst í 10.615 m2 og hluti byggingareitar hækkar um eina hæð. Nýtingarhlutfall lóðar hækkar úr 2.9 í 3.1. Fjöldi bílastæða eykst úr 92 í 117 stæði.
    Stofnaðar verða tvær nýjar lóðir Auðbrekka 1 sem verður 2.553 m2 að stærð og Aubrekka 3-5 sem verður 4.918 m2 að stærð.
    Að lóðinni að Auðbrekku 3-5, nánar til tekið við staðföngin Auðbrekku 3-5 og Skeljabrekku 4 og 6 verður dregið úr stærð atvinnuhúsnæðis og þess í stað komið fyrir 47 íbúðum í austurhluta byggingarreitsins. Heildarflatarmál eykst um 2.000 m2. Gert er ráð fyrir 1.3 stæði á hverja íbúð og einu stæði á hverja 55 m2 í atvinnuhúsnæði eða í allt 170 stæðum. Aðkoma og byggingarreitir breytast á báðum lóðum breytast.
    Niðurstaða Skipulagsráð - 67 Skipulagsráð samþykkir með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa framlagða tillögu að breyttu deiliskipulagi. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarrsáð vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.
  • 8.6 2001183 Landfylling og brú yfir Fossvog. Umsögn.
    Lögð fram greinargerð Alta: Greinargerð með tilkynningu til ákvörðunar um matskyldu - Brú yfir Fossvog unnin fyrir Vegagerðina og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu dags. 17. desember 2019. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðin hafa ákveðið að vinna sameiginlega að undirbúningi brúar yfir Fossvog fyrir gangandi, hjólandi og umferð almenningsvagna. Framkvæmdin felur í sér gerð landfyllinga, byggingu brúar og bráðabirgðavegtengingar. Markmið með gerð brúar yfir Fossvog er að bæta samgöngutengingar milli Reykjavíkur og Kópavogs. Í greinargerðinni kemur fram ósk um ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort að lýst framkvæmd sé matskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. 3 mgr. 6. gr. laganna.

    Lagt fram erindi Skipulagsstofnunar dags. 30. desember 2019 sbr. 6. gr. laga nr. 106/200 m.s.b. og 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum þar sem óskað er eftir að Kópavogsbær gefi umsögn um hvort og á hvaða forsendum ofangreind framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í framangreindum lögum.

    Þá lögð fram umsögn sviðsstjóra Umhverfissviðs Kópavogsbæjar dags. 14. janúar 2020 þar sem m.a. kemur fram að gerð sé nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi og umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda í matsskyldufyrirspurninni og þar sé sömuleiðis fjallað um
    mótvægisaðgerðir og vöktun. Í umsögninni er tekið undir tillögur að mótvægisaðgerðum sem lagðar eru til í deiliskipulagi og matsskyldufyrirspurn.
    Niðurstaða umsagnarinnar er að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum út frá þeim atriðum sem falla undir starfssvið sveitarfélagsins. Eins og fram kemur í matsskyldufyrirspurn er gerð landfyllinga, bráðabirgðavegar og brúar háð framkvæmdaleyfi Kópavogsbæjar.
    Niðurstaða Skipulagsráð - 67 Skipulagsráð samþykkir framlagða umsögn dags. 14. janúar 2020. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarrsáð vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.
  • 8.9 1911706 Hraunbraut 18. Kynning á byggingarleyfi.
    Lagt fram að nýju að lokinni kynningu erindi Jóns Davíðs Ásgeirssonar arkitekts dags. 19. nóvember 2019 fh. lóðarhafa Hraunbrautar 18. Í erindinu er óskað eftir að reisa 100,3 m2 viðbyggingu við húsið að norðanverðu, að hluta til ofan á núverandi bílskúr. Auk þess verður komið fyrir nýju anddyri á neðri hæð hússins, tæknirými og lyftu sem tengir bílskúrinn við efri hæðina. Húsið er í dag 211,1 m2 en eftir breytingu verður það 311,4 m2. Á fundi skipulagsráðs 2. desember 2019 var samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð tillaga verði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum Kársnesbrautar 25, 27, 29, 31 og Hraunbrautar 11, 15, 16, 17, 19, 20 og 22. Kynningartíma lauk 10. janúar 2020. Ein ábending barst á kynningartímanum. Niðurstaða Skipulagsráð - 67 Skipulagsráð samþykkir erindið. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarrsáð vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.
  • 8.11 1911866 Grundarhvarf 10. Breytt deiliskipulag.
    Lagt fram erindi Þorgeirs Þorgeirssonar arkitekts fh. lóðarhafa að Grundarhvarfi 10. Lóðin er í dag einbýlishúsalóð en óskað er eftir að reisa parhús með kjallara í stað einbýlishúss á einni hæð. Í parhúsinu er gert ráð fyrir tveimur 150,6 m2 íbúðum en auk þess er undir öðru niðurgrafin bílgeymsla og geymsla, 67,9 m2 og undir hinu niðurgrafið opið bílskýli ásamt 16,3 m2 geymslu. Á fundi skipulagsráðs 2. desember 2019 var erindið lagt fram í formi fyrirspurnar og var samþykkt að málið yrði unnið áfram í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Uppdrættir í mkv. 1:100 og 1:500 dags. 25. nóvember 2019. Þá lagt fram undirritað samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, Grundarhvarfi 10a.
    Niðurstaða Skipulagsráð - 67 Skipulagsráð samþykkir með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa framlagða tillögu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarrsáð vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Fundargerðir nefnda

9.2001455 - Fundargerð 187. fundar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 17.01.2020

Fundargerð í 4 liðum.
Lagt fram.

Erindi frá bæjarfulltrúum

10.2001564 - Fyrirspurn bæjarfulltrúa um erindisbréf forsætisnefndar.

Frá Sigurbjörgu Erlu Egilsdóttur bæjarfulltrúa Pírata, lögð fram fyrirspurn um hvenær erindisbréf forsætisnefndar var samþykkt.
Erindinu er vísað til bæjarrita.

Erindi frá bæjarfulltrúum

11.1903496 - Fyrirspurn um Húsnæðisáætlun Kópavogsbæjar

Frá Theódóru S. Þorsteinsdóttur bæjarfulltrúa BF Viðreisnar, óskað er eftir því að húsnæðisáætlun Kópavogsbæjar verði lögð fram í bæjarráði.
Húsnæðisáætlun Kópavogsbæjar verður lögð fram á næsta fundi bæjarráðs.

Erindi frá bæjarfulltrúum

12.1909131 - Fyrirspurn bæjarfulltrúa BF Viðreisnar varðandi úttektir á starfsemi Sorpu

Frá Theódóru S. Þorsteinsdóttur bæjarfulltrúa BF Viðreisnar, óskað er eftir upplýsingum um þá úttekt sem gerð var af innri endurskoðun Reykjavíkurborgar á starfsemi Sorpu og samþykkt var í stjórn Sorpu í september 2019.
Theodóra S. Þorsteinsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun:

"Það að við kjörnir fulltrúar lesum um niðurstöðu þessarar úttektar í fjölmiðlum er algjörlega í takt við þær athugasemdir sem koma fram í úttektinni sjálfri um skort á upplýsingum og hafa verið gagnrýnd undanfarin ár. Sorpa er í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og bera bæjar- og borgarfulltrúar endanlega ábyrgð á félaginu. Það verður ekki nóg að bæta stöðugleika í stjórnarsetu eða koma með rekstrarúrbætur ef hugarfar og vinnubrögð verði ekki bætt.
Úttektin er ekki bara áfellisdómur fyrir Sorpu heldur einnig áfellisdómur fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem bera ríka ábyrgð. Ábyrgð stjórnarformanns er hins vegar mest og felst m.a. í því að tryggja að stjórn fái ávallt nauðsynlegar upplýsingar og halda öllum stjórnarmönnum upplýstum. Eins og fram kemur í úttektinni þá hafði stjórnarformaðurinn Birkir Jón ekki frumkvæði að því að afla upplýsinga um heildarkostnað á hverjum tíma til að gera viðeigandi samanburð við áætlanir. Í ljósi þeirra upplýsinga sem koma fram í úttektinni þá lýsir undirrituð yfir vantrausti á stjórnarformann Sorpu og óskar eftir því að Kópavogsbær tilnefni nýjan fulltrúa í stjórn sem óháður er eigenda félagsins, rétt eins og innri endurskoðun bendir á að þurfi að gera.
Theodóra S. Þorsteinsdóttir"

Hlé var gert á fundi kl. 09:24. Fundi framhaldið kl. 09:48

Lögð er fram eftirfarandi bókun:

,,Núverandi stjórn Sorpu hafði enga aðkomu að útboði gas- og jarðgerðarstöðvar. Það var hins vegar undir forystu núverandi stjórnar og stjórnarformanns að úttekt var gerð á verkinu og starfsemi félagsins þegar í ljós kom veruleg framúrkeyrsla við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar í júní 2018. Stjórn Sorpu fékk því Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar til þess að gera úttekt á verkinu og félaginu sem hefur leitt í ljós að upplýsingagjöf til stjórnar var verulega ábótavant.

Undirrituð lýsa yfir stuðningi við stjórn og stjórnarformann í þessari vegferð.

Ármann Kr. Ólafsson
Margrét Friðriksdóttir"


Hlé var gert á fundi kl. 09:49. Fundi framhaldið kl. 10:04

,,Núverandi stjórn Sorpu hafði aðkomu að eftirliti við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar og gerð er rík krafa til stjórnarformanns um að upplýsa stjórn um framgang mála og stuðla þannig að virkni stjórnar í allri umræðu og ákvarðanatöku. Úttektin er tilkomin m.a. vegna stjórnarhátta og vinnubragða þessarar stjórnar.
Theodóra Þorsteinsdóttir
Bergljót Kristinsdóttir
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir"

"Í ljósi niðurstöðu nýrrar úttektarskýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á stjórnarháttum og áætlanagerð hjá Sorpu BS, er mælst til þess að eigendavettvangur Sorpu BS komi strax saman til að bregðast við stjórnarvanda hjá Sorpu BS og komi með tillögu að nýrri skipan stjórnar fyrirtækins.
Bergljót Kristinsdóttir
Theódóra S. Þorsteinsdóttir
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir"

Hlé er gert á fundi kl. 10:10. Fundi framhaldið kl. 10:24

,,Stjórn Sorpu fékk reglulega framvinduskýrslu sem eiga að sýna heildarstöðu verksins þ.m.t. kostnað sem til er fallinn á hverjum tíma. Skýrslurnar gáfu hins vegar ekki rétta mynd af heildarkostnaði verksins og eins og segir í skýrslu Innri endurskoðunar „Að mati Innri endurskoðunar verður alvarlegur misbrestur í upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar þegar Mannvit leggur fram nýja áætlun aðeins mánuði eftir að fimm ára áætlun SORPU 2019- 2023 er samþykkt af stjórn í október 2018 sem er 500 m.kr. hærri en stjórn hafði ráðgert. Stjórn var aldrei upplýst um hina nýju áætlun né kom hún til umfjöllunar á vettvangi hennar"
Ármann Kr. Ólafsson og Margrét Friðriksdóttir".


Hlé er gert á fundi kl. 10:25. Fundi framhaldið kl. 10:33

,,Í skýrslunni er fjallað um ábyrgð stjórnarformanns á eftirfarandi hátt:
„Upplýsingagjöf til stjórnar um stærstu fjárfestingu félagsins frá upphafi var að mati Innri endurskoðunar ekki fullnægjandi. Eftirlitshlutverki stjórnar hefur ekki verið sinnt nægilega vel, til að mynda var ekki farið fram á upplýsingar um heildarkostnað framkvæmdarinnar á hverjum tíma í samanburði við áætlaðan kostnað ásamt skýringum á frávikum. Stjórnarformaður og aðrir stjórnarmenn jafnframt hefðu átt að hafa frumkvæði að því að afla upplýsinga um heildarkostnað á hverjum tíma til að gera viðeigandi samanburð við áætlanir.“
Það er með ólíkindum að enginn ætli að axla ábyrgð í þessu máli.
Bergljót Kristinsdóttir
Theódóra S. Þorsteinsdóttir
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir"

Hlé er gert á fundi kl. 10:35. Fundi framhaldið kl. 10:39






Fundi slitið - kl. 10:40.