Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri, lagði fram eftirfarandi tillögu:
""Með vísan til 58. gr. samþykkta um stjórn Kópavogsbæjar leggur bæjarráð til við bæjarstjórn, að skipað verði framkvæmdaráð með eftirfarandi hætti:
Bæjarráð skipi 3 fulltrúa úr sínum röðum í framkvæmdaráð til eins árs og tvo til vara. Auk þeirra sitji í ráðinu bæjarstjóri og sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Formaður bæjarráðs skal jafnframt vera formaður framkvæmdaráðs og stjórna fundum þess. Framkvæmdaráð skal að jafnaði halda fund á föstum tíma og eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði.
Sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs undirbýr ráðsfund í samráði við formann og forstöðumenn deilda. Skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs er starfsmaður ráðsins og ritar fundargerðir þess. Hann sér um að ráðið sé boðað til fundar með skriflegu fundarboði ásamt dagskrá eigi síðar en einum sólarhring fyrir fund.
Framkvæmdaráð fer með mál sem falla undir framkvæmda- og tæknisvið, svo sem mannvirkjagerð, eignarekstur, veitustarfsemi og umferðarmál, samkvæmt ákvæðum laga ásamt útboðsgerð og innkaupum skv. innkaupareglum. Vinna við innkaup, með það að markmiði að auka hagkvæmni í rekstri stofnana bæjarins, sem áður var veitt á stjórnsýslusviði, færist með þessu á framkvæmda- og tæknisvið. Þá skal ráðið fara með eignaumsjón félagslegra íbúða húsnæðisnefndar.
Framkvæmdaráð gerir tillögur til bæjarráðs um afgreiðslu einstakra mála, sem það fær til meðferðar.
Fundargerðir ráðsins skulu lagðar fram í bæjarráði til afgreiðslu.
Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri""
Lagt fram.