Skipulagsráð

102. fundur 05. júlí 2021 kl. 15:30 - 18:00 í bæjarstjórnarsal, Hábraut 2
Fundinn sátu:
 • Helga Hauksdóttir formaður
 • Sigríður Kristjánsdóttir varamaður
 • Hjördís Ýr Johnson aðalmaður
 • Kristinn D Gissurarson aðalmaður
 • Bergljót Kristinsdóttir aðalmaður
 • Einar Örn Þorvarðarson aðalmaður
 • Sigurbjörg Erla Egilsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
 • Smári Magnús Smárason arkitekt
 • Auður Dagný Kristinsdóttir arkitekt
 • Pálmi Þór Másson bæjarlögmaður
 • Bergljót Sigríður Einarsdóttir verkefnastjóri
 • Kristjana H Kristjánsdóttir verkefnastjóri
 • Hildur Inga Rós Guðmundsdóttir starfsmaður umhverfissviðs
 • Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri skipulags- umhverfissviðs
Fundargerð ritaði: Karlotta Helgadóttir ritari
Dagskrá

Afgreiðsla bæjarráðs og bæjarstjórnar

1.2106002F - Bæjarstjórn - 1240. fundur frá 22.06.2021

2104325 - Nýbýlavegur 10. Breytt deiliskipulag.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsráðs með 11 atkvæðum.

2103699 - Fagrihjalli 11. Breytt deiliskipulag.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsráðs með 11 atkvæðum.

2106143 - Haukalind 6. Breytt aðkoma að bílastæði.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsráðs með 11 atkvæðum.

2103945 - Hraunbraut 14. Kynning á byggingarleyfi. Ósk um að fá samþykkt dvalarsvæði á þaki bílskúrs.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsráðs með 11 atkvæðum.

2106157 - Skemmuvegur 2A, skrifstofur Byko. Breytt deiliskipulag
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsráðs með 11 atkvæðum.

Afgreiðsla bæjarráðs og bæjarstjórnar

2.2106017F - Bæjarráð - 3051. fundur frá 01.07.2021

2106832 - Heilsuhringur við Kópavogstún.
Bæjarráð samþykkir með fimm atkvæðum að lagður verði heilsuhringur við Kópavogstún og leggur til að samræmis verði gætt við lýðheilsuhringinn í Salahverfinu hvað varðar merkingar, fjölda bekkja og aðra umgjörð.

2011485 - Arnarnesvegur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Tillaga að deiliskipulagi.
Bæjarráð samþykkir tillöguna með 5 greiddum atkvæðum.

Almenn erindi

3.1901481 - Aðalskipulag Kópavogs 2019-2040

Lögð fram að nýju tillaga að nýju Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040.
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti 9. mars 2021 að auglýsa tillögu að nýju Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 - dags. 24. nóvember 2021, uppfærð í febrúar 2021 - í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um auglýsingu aðalskipulagstillögu. Tillagan var uppfærð í febrúar 2021 með vísan til athugasemda Skipulagsstofnunar dags. 8. febrúar 2021.
Í tillögunni kemur m.a. fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál innan lögsögu Kópavogs til næstu 20 ára. Enn fremur er kynnt umhverfismat aðalskipulagsins sem sett er fram í umhverfisskýrslu. Matið er unnið í samræmi við lög nr. 105 frá 2006 en markmið laganna er að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og jafnframt stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Kynningartími var framlengdur um þrjár vikur til 27. maí 2021.
Kynningartíma lauk þann 27. maí 2021. Athugasemdir, ábendingar og umsagnir bárust á kynningartíma.
Á fundi skipulagsráðs 7. júní 2021 var afgreiðslu málsins frestað og vísað til umsagnar skipulagsdeildar. Lögð er fram umsögn skipulagsdeildar dags. 2. júlí 2021 ásamt minnisblaði dags. 2. júlí 2021. Jafnframt er lögð fram uppfærð tillaga að nýju Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 ásamt landnotkunaruppdrætti dags. 2. júlí 2021.
Skipulagsráð samþykkir með tilvísan í 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 framlagða tillögu að nýju Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 með áorðnum breytingum dags. 2. júlí 2021 ásamt umsögnum í greinargerð dags. 2. júlí 2021. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Almenn erindi

4.2103185 - Glaðheimar - vesturhluti. Breytt deiliskipulag.

Lögð fram að nýju tillaga skipulagsdeildar Kópavogs að breyttu deiliskipulagi vesturhluta Glaðheima (reit 1). Skipulagssvæðið, sem er 8.6 ha að flatarmáli, afmarkast af veghelgunarsvæði Reykjanesbrautar til vesturs, til norðurs afmarkast það af fyrirhugaðri tengibraut sem liggur frá gatnamótum Bæjarlindar og Glaðheimavegar að Reykjanesbraut, Álalind 1-3 og til austurs af athafnasvæði við Askalind og Akralind og til suðurs afmarkast það af veghelgunarsvæði Arnarnesvegar. Í gildandi deiliskipulagi frá 2009 er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði á umræddu svæði samtals um 88.000 m² ofanjarðar. Í breytingunni felst að áður fyrirhugaðri byggð um miðbik deiliskipulagssvæðisins er breytt úr atvinnuhúsnæði á 5-8 hæðum í 9 fjölbýlishús sem verða 3-12 hæða með um 468 íbúðum, leikskóla og opið svæði. Á norðurhluta skipulagssvæðisins nánar tiltekið við húsagötu A nr. 2-3 er fallið frá verslunar- og þjónustuhúsnæði á þremur efstu hæðum hússins (húsa) og þess í stað komið fyrir 32 íbúðum. Heildarfjöldi íbúða á svæðinu öllu verður að hámarki 500 íbúðir. Í miðju skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir leikskóla. Suðvestan fyrirhugaðs Glaðheimavegar (á suðurhluta svæðisins) er gert ráð fyrir 7 lóðum fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði á 2 til 4 hæðum. Byggingarreitir, lóðir og lóðastærðir verslunar- þjónustu og athafnahúsa breytast sem og aðkoma og fjöldi bílastæða. Auk þess er gert ráð fyrir að lega tengibrautar um svæðið í framhaldi af Glaðheimavegi að Arnarnesvegi breytist. Heildarstærð atvinnuhúsnæðis með kjallara og bílageymslum er áætluð um 50.000 m² en um 36.000 m² án bílageymslna og heildarstærð íbúðarhúsnæðis með kjallara og bílageymslum er áætluð um 89.000 m². Stærð leikskóla er um 1.500 m². Heildar byggingarmagn á deiliskipulagssvæðinu er áætlað um 135.000 m² þar af um 106.000 m² án bílageymslna. Svæðisnýtingarhlutfall deiliskipulagssvæðisins miðað við heildarbyggingarmagn er áætlað um 1.57 og 1.22 án bílakjallara neðanjarðar. Gert er ráð fyrir einu stæði á hverja 75 m² í verslun og þjónustu og einu stæði á hverja 100 m² í atvinnuhúsnæði, geymslu - og kjallararými. Reikna skal með 1,2 stæðum á hverja íbúð með gestastæðum. Miðað við 2,5 íbúa á íbúð er áætlað að á svæðinu verði um 1.250 íbúar.
Uppdrættir í mkv. 1:1000 ásamt greinargerð, skýringarmyndum, skipulagsskilmálum og skýringahefti B dags. 19. apríl 2021. Með tillögunni fylgir minnisblað verkfræðistofunnar Mannvits um forsendur fyrir bílaumferð dags. 15. apríl 2021, umhverfismat og hljóðskýrsla dags. 19. apríl 2021 og skýrsla um áhrif nýs deiliskipulags Glaðheima á dags. 29. 3 2021 og áhættumat vegna loftslagsbreytinga dags. 30. mars 2021 frá verkfræðistofunni Mannviti. Þá eru lagðar fram athugasemdir, ábendingar og umsagnir sem bárust á kynningartíma.
Afgreiðslu frestað. Vísað til umsagnar skipulagsdeildar.

Almenn erindi

5.1905126 - Dalaþing 13. Breytt deiliskipulag.

Lögð fram að nýju að lokinni kynningu breytt tillaga Einars Ólafssonar arkitekts að breyttu deiliskipulagi á lóðinni. Í gildandi deiliskipulagi er á lóðinni gert ráð fyrir einbýlishúsi á tveimur hæðum, stakstæðum bílskúr og hesthúsi ásamt gerði. Í breyttri tillögu felst að komið verði fyrir tveimur einbýlishúsum á einni hæð ásamt parhúsi á tveimur hæðum auk þess sem aðkoma að húsunum breytist með vegi og bílastæðum miðlægt á lóðinni. Parhús Dalaþing 13a og 13b er áætlað 400 m² að flatarmáli á tveimur hæðum með innbyggðum bílskúr og fjórum bílastæðum á lóð. Einbýlishús Dalaþing 13c er áætlað um 220 m² að flatarmáli á einni hæð með innbyggðum bílskúr og þremur bílastæðum á lóð. Einbýlishús Dalaþing 13d er áætlað um 210 m² að flatarmáli á einni hæð með þremur bílastæðum á lóð. Lóðin er 3.349 m² að flatarmáli og verður nýtingarhlutfall eftir breytingu 0,25. Á fundi skipulagsráðs 15. júlí 2019 var samþykkt með tilvísan í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar yrði auglýst. Kynningartíma lauk 18. september 2019 og bárust ábendingar og athugasemdir við tillöguna. Tillagan sem nú er lögð fram er breytt að því leiti að byggingarreitum fyrirhugaðra húsa hefur verið breytt og staðsetning þeirra endurskoðuð til að koma til móts við sjónarmið athugasemdaaðila. Breytt tillaga er sett fram á uppdrætti í mkv. 1:1000 ásamt skýringarmyndum dags. 26. mars 2021.
Þá eru lagðar fram athugasemdir og ábendingar sem bárust á kynningartíma.
Afgreiðslu frestað. Vísað til umsagnar skipulagsdeildar.

Almenn erindi

6.2105939 - Breikkun Suðurlandsvegar frá Fossvöllum að Lögbergsbrekku. Umsókn um framkvæmdaleyfi.

Lögð fram að nýju umsókn Vegagerðarinnar dags. 27. maí 2021 um framkvæmdaleyfi fyrir breikkun Suðurlandsvegar frá Fossvöllum að Lögbergsbrekku. Umsókninni fylgir útboðslýsing dags. í apríl 2021, uppdrættir í mkv. 1:20.000-1:20 dags. 21. apríl 2021, matsskýrsla dags. í júní 2009, áhættumat vatnsverndar dags. í maí 2021, jarðkönnun dags í nóvember 2008 ásamt fylgigögnum.
Skipulagsráð samþykkir með tilvísan í 8. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 að grenndarkynna ofangreinda umsókn um framkvæmdaleyfi með takmörkunum fyrir hagsmunaaðilum og umsagnaraðilum að fengnu áliti Skipulagsstofnunar um matsskyldu.

Almenn erindi

7.210616547 - Suðurlandsvegur, lagning strengja. Umsókn um framkvæmdaleyfi.

Lögð fram umsókn Verkís fh. Veitna ohf. um framkvæmdaleyfi til lagningar 11 kV rafstrengs, Lögbergslínu, nærri Suðurlandsvegi um Hellisheiði. Strengnum er ætlað að taka við hlutverki núverandi loftlínu sem verður tekin niður í kjölfarið. Framkvæmdin er á um 16,5 km löngum kafla og nær yfir land Kópavogsbæjar og Sveitarfélagsins Ölfus. Þar af er leiðin 10 km löng innan Kópavogsbæjar. Umsókninni fylgir greinargerð og uppdrættir í mkv. 1:35000 og 1:5000 dags. 25. júní 2021.
Skipulagsráð samþykkir með tilvísan í 8. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 að grenndarkynna ofangreinda umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir hagsmunaaðilum og umsagnaraðilum.

Almenn erindi

8.2003236 - Borgarlínan. Verk- og matslýsing aðalskipulagsbreytinga í Reykjavík og Kópavogi.

Lögð fram að nýju að lokinni kynningu vinnslutillaga að rammahluta Aðalskipulags Kópavogs 2019-2040, Borgarlínan í Kópavogi dags. í janúar 2021. Viðfangsefni tillögunnar er nánari útfærsla fyrir Borgarlínuna í Kópavogi. Þar er lögð fram tillaga að legu, staðsetningu stöðva, áherslum á forgang og skipulag göturýmis. Jafnframt eru kynnt þau viðmið sem líta ber til við útfærslu Borgarlínunnar, hvort sem er í deiliskipulagi göturýmis eða hönnun innviða Borgarlínunnar. Rammahlutinn um 1. lotu Borgarlínunnar er ítarlegri stefna tillögu að Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 til að tryggja framfylgd meginmarkmiða skipulagsins um Borgarlínuna. Viðfangsefni tillögunnar eru liður í því að stuðla að framfylgd samgöngusáttmála ríkis- og sveitarfélaganna og tryggja framfylgd samgönguáætlunar 2020-2034. Kynning á vinnslutillögu að rammahluta er ætlað að tryggja að sjónarmið og ábendingar íbúa og hagaðila nýtist við mótun skipulagstillögu og hönnunarvinnu fyrir Borgarlínuna. Samhliða kynningu á vinnslutillögunni verða kynnt frumdrög 1. lotu Borgarlínunnar, Ártúnshöfði - Hamraborg dags. í janúar 2021. Frumdrögin eru fylgigögn til hliðsjónar vinnslutillögunni. Á fundi skipulagsráðs 18. janúar 2021 var afgreiðslu málsins frestað. Á fundi skipulagsráðs 1. febrúar 2021 var samþykkt að framlögð vinnslutillaga að rammahluta tillögu að Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040, Borgarlínan í Kópavogi, verði kynnt ítarlega fyrir íbúum Kópavogs og í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Kynningartíma lauk 31. maí 2021. Þá lagðar fram athugasemdir, ábendingar og umsagnir sem bárust á kynningartíma. Á fundi skipulagsráðs þann 7. júní 2021 var afgreiðslu málsins frestað. Þá er lögð fram samantekt um innkomnar athugasemdir.
Skipulagsráð samþykkir að á grundvelli framlagðrar vinnslutillögu rammahluta Aðalskipulags Kópavogs 2019-2040, Borgarlínan í Kópavogi dags. í janúar 2021 og umsagna, athugasemda og ábendinga er fram komu er vinnslutillagan var kynnt verði hafin vinna við gerð tillögu að rammahluta aðalskipulags þar sem sjónarmið í ofangreindum ábendingum verða höfð til hliðsjónar. Samhliða þeirri vinnu verður farið í frekara samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila.

Kristinn D. Gissurarson og Sigríður Kristjánsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Almenn erindi

9.210616349 - Hvannhólmi 24, kynning á byggingarleyfi.

Lagt fram erindi lóðarhafa Hvannhólma 24 dags. 23. júní 2021 þar sem sótt er um leyfi til að breyta íbúðarhúsnæði 1. hæðar (010101) í atvinnuhúsnæði. Um er að ræða starfsemi sem felur í sér nuddmeðferðir, námskeiðahald og litla verslun með smávörur tengdar starfseminni. Breytingar á húsnæðinu hafa í för með sér tilfærslu á eldhúsi og þvottahúsi og uppsetningu á meðferðarrýmum í lokuðum herbergjum. Uppdrættir í mkv. 1:100 og 1:500 ásamt greinargerð dags. 3. júní 2021.
Afgreiðslu frestað.

Almenn erindi

10.2103140 - Birkigrund 57. Kynning á byggingarleyfi.

Lagt fram að nýju að lokinni kynningu erindi Hildar Bjarnadóttur arkitekts dags. 14. febrúar 2021 fh. lóðarhafa Birkigrundar 57. Í erindinu er óskað eftir að þegar framkvæmdar breytingar verði samþykktar auk þess að reisa 15,7 m² viðbyggingu við efri hæð, ofan á svölum. Það sem hefur þegar verið framkvæmt er sólskáli á suðvesturhorni hússins, aflokuð geymsla undir svölum og útihurð komið fyrir á austurhlið þar sem áður var gluggi auk þess sem innra skipulagi hefur verið breytt. Uppdrættir í mkv. 1:100 og 1:500 dags. 14. febrúar 2021. Kynningartíma lauk 7. maí 2021. Athugasemdir og ábendingar bárust á kynningartíma. Á fundi skipulagsráðs 17. maí 2021 var afgreiðslu málsins frestað og vísað til umsagnar skipulagsdeildar. Á fundi skipulagsráðs 7. júní 2021 var lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 4. júní 2021, afgreiðslu málsins var frestað. Þá er lögð fram uppfærð umsögn skipulagsdeildar dags. 1. júlí 2021.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Almenn erindi

11.2106014 - Fífuhvammur 19. Fyrirspurn.

Lögð fram fyrirspurn Hugrúnar Þorsteinsdóttur arkitekt, dags. 1. júní 2021 fh. lóðarhafa Fífuhvamms 19. Óskað er eftir áliti skipulagsnefndar á meðfylgjandi tillögu að útfærslu bílageymslu og að breyta hæðarlegu lóðar. Um er að ræða að reisa bílageymslu við suðvestur horn lóðarinnar, einnig að bílastæði lóðarinnar stækki til vestur fyrir framan bílageymslu. Samhliða er hugmynd um að hækka suðurhluta lóðarinnar um 1m. Hæðarmunur við gangstétt við lóðarmörk (sunnan og austan) verður tekin með steinhleðslu sem verður innan lóðarmarka Fífuhvamms 19.
Stærð lóðar skv. fasteignaskrá er 929m². Stærð núverandi byggingar skv. fasteignaskrá er 136,9 m² og núverandi nýtingarhlutfall er 0,15. Fyrirhuguð bílageymsla stærð 63,8 m² og nýtt nýtingarhlutfall verður 0,22. Á fundi skipulagsráðs þann 21. júní 2021 var afgreiðslu málsins frestað.
Skipulagsráð lítur jákvætt á að framlögð fyrirspurn verði unnin áfram í samræmi 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og rammaákvæði í 7. kafla tillögu að nýju Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040.

Helga Hauksdóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.

Almenn erindi

12.2102309 - Hlaðbrekka 17. Kynning á byggingarleyfi.

Lagt fram að nýju að lokinni kynningu erindi Arnhildar Pálmadóttur arkitekts dags. 2. febrúar 2021 fh. lóðarhafa Hlaðbrekku 17. Á lóðinni stendur 144,9 m² steinsteypt einbýlishús með áföstum bílskúr, byggt 1960. Óskað er eftir að koma fyrir annarri hæð á austari hluta hússins, samtals um 80 m² og koma fyrir dvalarsvæði á hluta af núverandi þaki. Auk þess er óskað eftir að koma fyrir sólstofu á suðurhlið hússins þar sem nú er timburverönd. Samþykki aðliggjandi lóðarhafa liggur fyrir. Uppdráttur í mkv. 1:100 og 1:500 dags. 2. febrúar 2021.
Kynningartíma lauk 1. júní 2021. Athugasemdir og ábendingar bárust á kynningartíma.
Á fundi skipulagsráðs 7. júní 2021 var erindinu frestað og vísað til umsagnar skipulagsdeildar. Þá er lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 2. júlí 2021.
Skipulagsráð hafnar erindinu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Almenn erindi

13.2102370 - Kársnesbraut 106. Breytt deiliskipulag.

Lagt fram að nýju erindi Sigurðar Hallgrímssonar arkitekts dags. 23. júní 2015 fh. lóðarhafa að Kársnesbraut 106. Í gildandi deiliskipulagi er leyfi fyrir 3 íbúðum á 1. hæð og 7 íbúðum á 2. hæð, samtals 10 íbúðir. Í erindinu er óskað eftir að breyta verslunarhúsnæði á 2. hæð í suðvestur enda hússins í tvær íbúðir, önnur íbúðin er um 60 m² og hin 85 m² og gengið inn frá Kársnesbraut í götuhæð. Gert er ráð fyrir þremur bílastæðum. Á sömu hæð eru þegar 7 íbúðir sem deila ekki sama inngangi og þær sem óskað er eftir núna. Uppdrættir í mkv. 1:100 og 1:500 dags. 23. júní 2015. Á fundi skipulagsráðs þann 1. mars 2021 var afgreiðslu málsins frestað. Þá er lagt fram skriflegt samþykki meðeigenda að Kársnesbraut 106.
Skipulagsráð hafnar erindinu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Almenn erindi

14.21031048 - Þorrasalir 37. Breytt deiliskipulag.

Lagt fram að nýju að lokinni kynningu erindi Sigurðar Hallgrímssonar arkitekts dags. 26. mars 2021 fh. lóðarhafa Þorrasala 37. Í breytingunni felst að byggingarreitur þegar samþykktrar viðbyggingar stækkar um 22 m² og á suðurhlið hússins verði reist viðbygging á 1. hæð, samtals 18 m². Að auki er gert ráð fyrir nýju anddyri við hlið þess sem nú er, samtals um 15 m². Byggingarmagn eykst úr 392 m² í 447 m², nýtingarhlutfall fer úr 0,53 í 0,60. Uppdráttur í mkv.1:500 og 1:1000 dags. 26. mars 2021. Kynningartíma lauk 26. maí 2021. Ábendingar og athugasemdir bárust á kynningartíma. Á fundi skipulagsráðs þann 7. júní 2021 var afgreiðslu frestað og vísað til umsagnar skipulagsdeildar. Þá er lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 5. júlí 2021.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Almenn erindi

15.210616568 - Hlíðarvegur 15. Fyrirspurn

Lögð fram fyrirspurn Trípólí arkitekta fh. lóðarhafa dags. 29. júní 2021 um breytt skipulag á lóðinni við Hlíðarveg 15. Í breytingunni felst að núverandi hús á lóðinni, einbýlishús frá árinu 1945, 114,4 m² að flatarmáli verði rifið. Á lóðinni verði reist fjölbýlishús með fjórum íbúðum á tveimur hæðum og köldu bílskýli í kjallara. Greinargerð og uppdrættir án mkv./A3 dags. 29. júní 2021.
Skipulagsráð lítur jákvætt á að framlögð fyrirspurn (tillaga tvö) verði unnin áfram í samræmi 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og rammaákvæði í 7. kafla tillögu að nýju Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040.

Almenn erindi

16.2104748 - Ásbraut 3-5. Kynning á byggingarleyfi.

Lagt fram að nýju að lokinni kynningu erindi Sigurðar Hafsteinssonar byggingartæknifræðings dags. 8. apríl 2021 fh. húsfélagsins að Ásbraut 1-3. Á lóðinni er staðsteypt fjölbýlishús á 4 hæðum, byggt árið 1960. Óskað er eftir að koma fyrir svölum á þeim þremur íbúðum í hvorum stigagangi sem ekki eru þegar með svalir og munu þær þjóna tilgangi björgunarsvala. Uppdrættir í mkv. 1:100 dags. 8. apríl 2021. Engar athugasemdir eða ábendingar bárust á kynningartíma.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Almenn erindi

17.2105385 - Sæbólsbraut 38. Kynning á byggingarleyfi.

Lagt fram að nýju að lokinni kynningu erindi Arnhildar Pálmadóttur arkitekts fh. lóðarhafa um stakstæða viðbyggingu við íbúðarhúsið á vesturhluta lóðarinnar. Fyrirhuguð viðbygging er 24,2 m2 að heildarflatarmáli og rúmar útigeymslu og baðaðstöðu.
Uppdrættir í mælikvarða 1:100 dags. 15. janúar 2021. Kynningartíma lauk 2. júlí 2021. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma.
Skipulagsráð samþykkir erindið. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Almenn erindi

18.2107078 - Aðalskipulag Reykjavíkur. Endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggðog framlenging skipulagstímabils til ársins 2040

Lagt fram erindi Haralds Sigurðssonar skipulagsfræðings f.h. Reykjavíkurborgar dags. 16. júní 2021 er varðar breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur; endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlengingu skipulagstímabils til ársins 2040. Í breytingunum felst m.a. heildaruppfærsla á stefnu um íbúðarbyggð, skilgreining nýrra svæða fyrir íbúðir, stakar breytingar á völdum atvinnusvæðum og samgönguinnviðum, auk þess sem sett eru fram ný megin markmið í völdum málaflokkum. Tillögurnar gera enn fremur ráð fyrir því að tímabil aðalskipulagsins verði framlengt til ársins 2040. Erindinu fylgir skipulagstillögur ásamt umhverfisskýrslu og öðrum fylgigögnum.
Lagt fram.

Fundi slitið - kl. 18:00.