Umhverfisráð

475. fundur 04. maí 2009 kl. 16:30 - 19:00 Fannborg 6, 2.hæð
Fundargerð ritaði: Hólmfríður Þorsteinsdóttir Umhverfisfulltrúi
Dagskrá

1.701100 - Endurskoðun Aðalskipulags Kópavogs 2008-2020

Á fundi umhverfisráðs 28. apríl 2008 kynntu Rúnar Bjarnason og Jóna Bjarnadóttir frá Mannviti (áður VGK - Hönnun) grunn að stefnumiðum fyrir endurskoðað Aðalskipulag Kópavogs. Lagt fram á ný. Tillaga sviðstjóra að sameiginlegum fundi og hópferð umhverfisráðs, skipulagsnefndar og byggingarnefndar um byggðarsvæði Kópavogs, vegna endurskoðunar aðalskipulags Kópavogsbæjar kynnt. Á fundi skipulagsnefndar 28. maí 2008 með umhverfisráði og byggingarnefnd var ekið um byggðasvæði Kópavogs. Í upphafi rakti skipulagsstjóri forsendur og fór síðan yfir verkefnið og tiltók landssvæði sem yrðu til umfjöllunar við vinnuna. Kynnti samspil við endurskoðun Staðardagskrár 21 og fundi og kynningar sem framundan eru. Rúnar Bjarnason frá Mannviti rakti tímaáætlun og vinnuferli. Skrifstofustjóri framkvæmda-og tæknisviðs lýsti eignarhaldi á landi og skýrði lögfræðileg álitamál. Formaður umhverfisráðs ræddi samspil vinnu við endurskoðun aðalskipulags og endurskoðun Staðardagskrár 21. Þakkaði jafnframt góðan fund. Formaður skipulagsnefndar óskaði frjórrar umræðu um stórt málefni og vænti góðs samstarfs um verkefnið. Sagði að gæti komið til greina að fara aðra slíka ferð eða jafnvel skoðun á sérstökum svæðum. Þakkaði góðan fund. Málið tekið upp að nýju. Á fundi umhverfisráðs 26. janúar 2009 reifaði sviðsstjóri málið. Lagði m.a. fram yfirlit yfir stöðu verkefnisins; drög að stefnumörkun aðalskipulagsins; matslýsingu og minnisblað um tímaáætlun en samkvæmt því er áætlað að tillaga að endurskoðuðu aðalskipulagi liggi fyrir í lok mars 2009. Á fundi umhverfisráðs 23. febrúar 2009 kynnti Rúnar D. Bjarnason stöðu mála.
Á fundi umhverfisráðs 30. mars 2009 kynnti sviðsstjóri stöðu vinnunar við endurskoðun Aðalskipulagsins.
Drög að áfangaskýrslu 2 lögð fram.

Staða vinnu við endurskoðun á Aðalskipulagi og Staðardagskrá 21 kynnt.

2.901107 - Staðardagskrá 21, 2009

Á fundi umhverfisráðs 17. nóvember 2008 óskaði umhverfisráð eftir því að skipulags- og umhverfissvið vinni að endurskoðun stöðumatsins frá árinu 2001 fyrir Staðardagskrá 21 og leggi það fyrir fund ráðsins í janúar 2009. Á fundi umhverfisráðs 26. janúar var greint frá þegar hafinni vinnu við gerð stöðumats fyrir Staðardagskrá 21. Óskað hefur verið eftir gögnum frá öllum sviðum bæjarins til að uppfæra stöðumat staðardagskrárinnar. Stefnt er að því að þeirri vinnu verði lokið um miðjan febrúar.
Á fundi umhverfisráðs 30. mars 2009 voru drög að stefnulýsingu lögð fram. Umhverfisráð lagði til að samþætta vinnu við Staðardagskrá 21 og Aðalskipulag Kópavogs 2008- 2020.
Stefnulýsing lögð fram og niðurstöður markmiða úr Staðardagskrá 2003.


Staða vinnu við endurskoðun á Aðalskipulagi og Staðardagskrá 21 kynnt.

3.811286 - Skógrækt og uppgræðsla í Selfjalli í Lækjarbotnalandi

Á fundi umhverfisráðs 17. nóvember 2008 gerði garðyrkjustjóri grein fyrir undirbúningi vegna fyrirhugaðrar skógræktar- og uppgræðslu á Selfjalli í Lækjarbotnalandi. Lagt var fram ásamt yfirlitsmynd af Selfjalli dags. 2002, loftmynd af svæðinu sem sýnir tillögu að afmörkun fyrirhugaðs skógræktar- og uppgræðslusvæðis, dags. 17. nóvember 2008 og skýrslu Brynjólfs Jónssonar dags. október 2002. Umhverfisráð fól garðyrkjustjóra í samvinnu við skipulags- og umhverfissvið að vinna að málinu eins og fram kom á fundinum. Á fundi umhverfisráðs 30. mars var samþykkt framlögð áætlun um skógrækt og uppgræðslu í Selfjalli og lögð var áhersla á að við framkvæmd verksins verði öllum formsatriðum fylgt og eftirlit haft með framkvæmdinni. Umhverfisráð fól skipulags- og umhverfissviði að búa til áætlun um eftirlit með fyrirhugaðri framkvæmd. Lagt er fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 29. apríl varðandi ákvörðun um matsskyldu skógræktar og uppgræðslu í Selfjalli við Lækjarbotna. Einnig er lögð fram tillaga Skipulags- og umhverfissviðs að framkvæmdarleyfi.


Málið kynnt og framkvæmdarleyfið samþykkt af hálfu umhverfisráðs.

4.904170 - Framkvæmdir á opnum svæðum, stígum og stofnanalóðum

Garðyrkjustjóri kynnir fyrir umhverfisráði áætlun um framkvæmdir á opnum svæðum, stígum og stofnanalóðum fyrir árið 2009.

Lagt fram og samþykkt.

5.904169 - Vinnuskólinn- vinnutími og laun

Garðyrkjustjóri leggur fram tillögur að launataxta unglinga sem starfa hjá Vinnuskóla Kópavogs sumarið 2009.

Lagt fram og samþykkt.

6.904168 - Fróðleiksskilti 2009

Garðyrkjustjóri kynnir tillögur um staðsetningu næstu fróðleiksskilta í Kópavogsbæ.


Umhverfisráð samþykkir að fela skipulags- og umhverfissviði að leita tilboða á hönnun og gerð fróðleiksskiltis. Sett verði upp stórt skilti við Elliðavatn.

7.904149 - Umhverfisviðurkenningar 2009

Skipulags- og umhverfissvið leggur til við umhverfisráð að sviðinu verði falið að annast undirbúning vegna veitingu umhverfisviðurkenninga ársins. Lögð fram drög að tilkynningu þar sem íbúum er gefinn kostur á að senda inn tilnefningar vegna umhverfisviðurkenninga. Einnig verður tekin ákvörðun um hvenær afhending viðurkenninga mun fara fram.

Umhverfisráð samþykkir að fela skipulags- og umhverfissviði að leita tilboða á hönnun og gerð á viðurkenningaskjölum og merkjum. Viðurkenningarnar fara fram seinni hluta ágústmánaðar.

8.904268 - Toyota Prius að láni til Kópavogsbæjar

Lagt er fram erindi fyrirtækisins Toyota á Íslandi dags. 27. apríl 2009, þar sem Kópavogsbæ er boðið að fá lánaða þrjá Toyota Prius tvinnbíla til reynslu í tvær vikur.Umhverfisráð leggur til við bæjarráð að þiggja boðið.

9.810398 - Ráðstefna um vistvæn innkaup í mars 2009

Á fundi umhverfisráðs 26. janúar 2009 voru lagðar fram upplýsingar um ráðstefnu á vegum Reykjavíkurborgar og ICLEI (alþjóðleg samtök sveitarstjórna um sjálfbærni). Ráðstefnan var haldin 25.-27. mars n.k. og fjallaði m.a. um nýjar leiðir við framleiðslu á vörum og þjónustu sem geta leitt til minni losunar á gróðurhúsalofttegundum. Umhverfisráð samþykkti að fulltrúi sviðsins sækti ráðstefnuna. Fulltrúi umhverfisráðs heldur kynningu um ráðstefnuna.

Frestað.

10.904270 - Ársskýrsla 2008

Ársskýrsla Umhverfisstofnunar 2008 lögð fram.


Lagt fram.

11.905029 - Stefnumót Umhverfisráðuneytisins og Stofnunar Sæmundar fróða

Umhverfisráð vekur athygli á 13. stefnumóti (6. maí 2009)umhverfisráðuneytisins og Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun. Í þetta sinn verður fjallað um áhrif jarðvarmavirkjana á háhitasvæði og loftgæði.

Lagt fram.

12.905028 - Hjólað í vinnuna

Umhverfisráð vekur athygli á átakinu Hjólað í vinnuna sem fer fram dagana 6.- 26. maí 2009.

Lagt fram.

13.905002 - Ráðstefna- Að móta byggð

Ráðstefna á vegum Skipulagsstofnunar var haldin 30. apríl 2009 og fékk heitið "Að móta byggð, með áherslu á lífsgæði".Lagt fram.

14.905021 - Ráðstefna- Græn störf

Málþing var haldið á degi umhverfisins 25. apríl 2009 á vegum Umhverfisráðuneytisins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Félags umhverfisfræðinga. Málþingið fjallaði um græn störf og vistvænar áherslur í atvinnuuppbyggingu.

Fundi slitið - kl. 19:00.