Bæjarstjórn

1047. fundur 29. nóvember 2011 kl. 16:00 - 18:00 í bæjarstjórnarsal
Fundinn sátu:
  • Hafsteinn Karlsson 1. varaforseti
  • Guðríður Arnardóttir aðalfulltrúi
  • Pétur Ólafsson aðalfulltrúi
  • Ólafur Þór Gunnarsson aðalfulltrúi
  • Hjálmar Hjálmarsson forseti
  • Rannveig H Ásgeirsdóttir aðalfulltrúi
  • Ármann Kristinn Ólafsson aðalfulltrúi
  • Gunnar Ingi Birgisson aðalfulltrúi
  • Margrét Björnsdóttir aðalfulltrúi
  • Aðalsteinn Jónsson aðalfulltrúi
  • Ómar Stefánsson aðalfulltrúi
  • Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri
  • Páll Magnússon bæjarritari
Fundargerð ritaði: Páll Magnússon bæjarritari
Dagskrá

1.1111021 - Bæjarráð 24/11

2618. fundur

Fundargerðin afgreidd án umræðu.

2.1011281 - Reglur lista- og menningarsjóðs

Reglur lista- og menningarsjóðs, sem samþykktar voru í bæjarráði.

Bæjarstjórn staðfestir reglurnar einróma.

3.1111548 - Útsvar árið 2012

Frá bæjarstjóra, tillaga að útsvari 2012 vísað til bæjarstjórnar, sbr. lið 1 í fundargerð bæjarráðs 24/11.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu að útsvari 2012 með sjö samhljóða atkvæðum.  Fjórir bæjarfulltrúar sátu hjá.

4.1111516 - Lántaka nóvember 2011. Lánasamningar nr. 37 og 38

Frá fjárlaga- og hagsýslustjóra, tillaga að lántökum vísað til bæjarstjórnar, sbr. lið 2 í fundargerð bæjarráðs 24/11.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu að lántöku einróma.

5.1111020 - Afgreiðslur byggingarfulltrúa 22/11

28. fundur

Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslur byggingarfulltrúa án umræðu.

6.1101848 - Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 21/11

166. fundur

Fundargerðin afgreidd án umræðu.

7.1101865 - Stjórn skíðasvæða hbsv. 3/11

318. fundur

Til máls tóku Ármann Kr. Ólafsson, Margrét Björnsdóttir og Guðríður Arnardóttir um lið 1.

 

Fundargerðin afgreidd án frekari umræðu.

8.1003055 - Dómur hæstaréttar í meiðyrðamáli gegn bæjarfulltrúum

Dómur hæstaréttar í meiðyrðamáli gegn bæjarfulltrúum, mál sem frestað var í bæjarstjórn þann 22/11, sbr. lið 61 í fundargerð.

Til máls tóku Guðríður Arnardóttir, Gunnar Ingi Birgisson, Ómar Stefánsson, sem óskaði eftir að bera af sér sakir, Ólafur Þór Gunnarsson, sem óskaði eftir að bera af sér sakir, Hafsteinn Karlsson, Gunnar Ingi Birgisson, Ólafur Þór Gunnarsson, Gunnar Ingi Birgisson, sem óskaði eftir að bera af sér sakir, Rannveig Ásgeirsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Hafsteinn Karlsson, Hjálmar Hjálmarsson, Aðalsteinn Jónsson og Guðríður Arnardóttir.

9.1111552 - Fjárhagsáætlun 2012

Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri, gerði grein fyrir fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar 2012, sem samanstendur af rekstraráætlun, framkvæmdayfirliti, sjóðsstreymi og efnahagsreikningi fyrir A- og B-hluta Kópavogsbæjar. Lagði bæjarstjóri til að tillögunni yrði vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn. Þá lagði Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri, fram eftirfarandi tillögu að álagningu gjalda fyrir 2011:

FJÁRHAGSÁÆTLUN FYRIR ÁRIÐ 2012 - FYRRI UMRÆÐA

Tillaga að álagningu gjalda árið 2012:

I. Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að fasteignagjöld fyrir árið 2012 verði álögð sem hér segir:

a) Fasteignaskattur

1. Íbúðarhúsnæði 0,32% af fasteignamati.
2. Atvinnuhúsnæði og annað húsnæði 1,65% af fasteignamati.
3. Opinbert húsnæði 1,320% af fasteignamati (sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995).
4. Hesthús 0,625% af fasteignamati.
5. Sumarhús 0,625% af fasteignamati.


b) Vatnsskattur og holræsagjald

1. Vatnsskattur verði 0,135% af heildarfasteignamati. Aukavatnsgjald skv. mæli verði kr. 32,91 fyrir hvern m3 vatns.

2. Fráveitugjald, sbr. reglugerð um fráveitugjald í Kópavogsbæ nr. 729/2001, nemi 0,169% af fasteignamati, sbr. lög um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976 með síðari breytingum. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki holræsagjald. Ekki skal reikna fráveitugjald af húsi það ár sem bygging þess hefst. Rotþróargjald fyrir íbúðarhúsnæði að Vatnsenda verði kr.23.725 og innheimtist með fasteignagjöldum.

c) Lóðarleiga

1. Fyrir lóðir íbúðarhúsa kr. 17,71 á fm.
2. Lækjarbotnar " 20,65 " "
3. Fyrir lóðir annarra húsa " 214,97 " "

Gjalddagar fasteignagjalda 2012 verði átta, þann 15. janúar, 1. febrúar, 1. mars, 1. apríl, 1. maí, 1. júní, 1. júlí og 1. ágúst og greiðist áttundi hluti gjaldsins hverju sinni. Eindagi verði í lok hvers mánaðar.

Gjaldendur er greiða lægri fasteignagjöld en 10.000 kr. greiði þau í einu lagi á gjalddaga 01.03. 2012.

Gjaldendur er greiða fasteignagjöld að fullu fyrir 29.02. 2011 fá 3% staðgreiðsluafslátt.

d) Elli- og örorkulífeyrisþegar er njóta lækkunar fasteignaskatts skulu fá staðgreiðsluafslátt samkvæmt sömu reglum og aðrir gjaldendur af þeim hluta er þeim ber að greiða.

Veittur verður afsláttur af fasteignaskatti til þeirra elli- og örorkulífeyrisþega, sem búa í eigin íbúð. Miðast afslátturinn við eftirfarandi tekjumörk liðins árs:

100% lækkun:
Einstaklingar með heildarárstekjur allt að 2.500.000 krónur.
Hjón með heildarárstekjur allt að 3.450.000 krónur.

75% lækkun:
Einstaklingar með heildarárstekjur á bilinu frá 2.500.001 - 2.880.000 krónur.
Hjón með heildarárstekjur á bilinu 3.450.001 - 3.890.000 krónur.


50% lækkun:
Einstaklingar með heildarárstekjur á bilinu 2.880.001 - 3.110.000 krónur.
Hjón með heildarárstekjur á bilinu 3.890.001 - 4.230.000 krónur.

25% lækkun:
Einstaklingar með heildarárstekjur á bilinu 3.110.001 - 3.290.000 krónur.
Hjón með heildarárstekjur á bilinu 4.230.001 - 4.480.000 krónur.

Örorkulífeyrisþegar skulu skila ljósriti af örorkuskírteini.

e) Veittur verður styrkur til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf, sbr. sérstakar reglur bæjarstjórnar þar um.

II. Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, að leggja sérstakt sorphirðu- og eyðingargjald á hverja íbúð í Kópavogi á árinu 2012. Gjaldið skal vera kr. 23.300 á íbúð. Enn fremur verði heimilt að leggja á aukatunnugjald. Innheimta skal gjaldið með fasteignagjöldum og eru gjalddagar þeir sömu.

III. Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að gjald fyrir hreinsun taðþróa hesthúsa á hesthúsasvæði Gusts verði 700 kr. á hvern m2 hesthúss. Gjaldið greiðist fyrirfram. Stjórn hestamannafélagsins Gusts tilkynnir Kópavogsbæ, í hvaða húsum ekki skuli hreinsa taðþrær. Tilkynningin skal berast Kópavogsbæ fyrir álagningu fasteignagjalda

Hlé var gert á fundi kl. 17:50.  Fundi var fram haldið kl. 17:53.

Til máls tóku Ármann Kr. Ólafsson, Gunnar Ingi Birgisson, Guðríður Arnardóttir, Gunnar Ingi Birgisson, sem óskaði eftir að bera af sér sakir, Ármann Kr. Ólafsson, Hjálmar Hjálmarsson og Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri.

Hlé var gert á fundi kl. 18:48.  Fundi var fram haldið kl. 19:01.

Til máls tók Ármann Kr. Ólafsson og lagði fram eftirfarandi bókun:

"Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar 2012 lýsir metnaðarleysi meirihlutans í að taka á rekstri bæjarins. Engin tilraun er gerð til þess að spara í rekstri og tekjustofnar þandir til hins ýtrasta eins og sjá má á hækkun fasteignaskattsins umfram almennar verðhækkanir og sorphirðugjald sem hækkar um tæp 30%. Þá boðar fjárhagsáætlunin umtalsverða hækkun á skuldsetningu bæjarins. Fjárhagsáætlunina skortir pólitíska sýn og ber hún þess merki að það eru fjórir flokkar sem standa að henni. Engar markvissar aðgerðir eru lagðar fram um lækkun skulda þrátt fyrir mögulegan tekjuauka með úthlutun lóða í kjölfar mikillar eftirspurnar. Þessi málamiðlunaráætlun hefði aldrei orðið til nema fyrir tilstilli samstillts átaks og dugnaðar embættismanna bæjarins.

Ármann Kr. Ólafsson, Gunnar Ingi Birgisson, Margrét Björnsdóttir, Aðalsteinn Jónsson"

Hlé var gert á fundi kl. 19:04.  Fundi var fram haldið kl. 19:34.

Til máls tók Guðríður Arnardóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:

"Samhliða fjárhagsáætlun ársins 2011 var lögð fram þriggja ára áætlun.  Þá voru  teknar afar erfiðar ákvarðanir  til þess fallnar að draga saman í rekstri bæjarins svo hægt væri að ná tökum  á skuldavanda bæjarsjóðs.  Sú vegferð er á áætlun.  Þvert á skoðun sjálfstæðismanna teljum við þessa áætlun endurspegla skýra pólitíska sýn þar sem ekki er verið að draga úr þjónustu í grunnskólum bæjarins ásamt annari grunnþjónustu við bæjarbúa.  Hér má þvert á móti sjá áform um að bæta þjónustu við fatlað fólk og aldraða  í bænum sem og að gjaldskrárhækkunum er stillt í algjört lágmark.

Við þökkum starfsmönnum bæjarins samstillt átak og dugnað því auðvitað hvílir þunginn af þeirri vinnu sem felst í fjárhagsáætlunargerð á þeirra herðum þótt pólitísk stefnumörkun sé á ábyrgð kjörinna fulltrúa.

Guðríður Arnardóttir, Hjálmar Hjálmarsson, Hafsteinn Karlsson, Pétur Ólafsson, Ólafur Þór Gunnarsson"

Bæjarstjórn samþykkti einróma að vísa tillögu að fjárhagsáætlun 2012 til seinni umræðu í bæjarstjórn. 

Fundi slitið - kl. 18:00.