Hafnarstjórn

77. fundur 31. október 2011 kl. 16:30 - 18:00 að Bakkabraut 9
Fundinn sátu:
  • Ingibjörg Hinriksdóttir formaður
  • Brynjar Örn Gunnarsson aðalmaður
  • Gísli Steinar Skarphéðinsson aðalmaður
  • Jón Daði Ólafsson aðalmaður
  • Evert Kristinn Evertsson aðalmaður
  • Júlíus Skúlason starfsmaður nefndar
  • Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri
  • Guðný Dóra Gestsdóttir starfsmaður nefndar
  • Margrét Júlía Rafnsdóttir starfsmaður nefndar
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálsdóttir Bæjarstjóri
Dagskrá

1.1011345 - Friðlýsing Skerjafjarðar.

Formaður skipulagsnefndar, Guðný Dóra Gestsdóttir og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Margrét Júlía Rafnsdóttir, sátu fundinn undir þessum lið.

Miklar umræður urðu undir þessum lið.  Að þeim loknum las formaður hafnarstjórnar upp eftirfarandi tillögu:

"Hafnarstjórn þykir miður að friðlýsing Skerjafjarðar hafi ekki komist fyrr á dagskrá hafnarstjórnar, en málið kom fyrst upp árið 2007, en þá á vettvangi SSH.

Málið barst á borð hafnarstjórnar í september á þessu ári og þá með þeim formerkjum að flýta ætti umfjöllun þess þannig að afstaða Kópavogsbæjar væri ljós.

Hafnarstjórn hefur lagt sig fram um að kynna sér málið í þaula og m.a. haldið fundi með skipulagsstjóra og forstöðumanni Náttúrufræðistofu, þá hafa formenn skipulagsnefndar og umhverfis- og samgöngunefndar mætt á fundi hafnarstjórnar. 

Það er skoðun hafnarstjórnar að í tillögu eitt sé of skammt gengið í friðlýsingu, en heldur langt gengið í tillögu þrjú, þar sem ekki væri hægt að fara í frekari uppbyggingu varðandi hafnsækna starfsemi á svæðinu.

Hafnarstjórn leggur því til að tillaga tvö verði samþykkt, en áhrif þess yrðu jákvæð á náttúru og líffræðilega fjölbreytni á friðaða svæðinu.

Ingibjörg Hinriksdóttir, Brynjar Örn Gunnarsson  Gísli Skarphéðinsson"

 

Tillagan samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2 atkvæðum Jóns Daða Ólafssonar og Everts K. Evertssonar, sem lögðu fram eftirfarandi bókun:

 

"Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að mjög margt í framkominni tillögu skapi áhættu fyrir Kópavog nú þegar.  Einnig skapi það áhættu langt inn í framtíðina sem erfitt sé að sjá fyrir núna.  Tillagan útiloki þannig aðgerðir og tækifæri framtíðarinnar.  Þar sem aðgerðin friðlýsing er bæði inngripsmikil og óafturkræf, þá margfaldar það áhrif þessara áhættuþátta.  Eftirfarandi eru nokkrir þegar þekktir áhættuþættir:

- Hvaða áhrif hefur tillagan á byggingu göngubrúar yfir Fossvoginn?  Verður hægt að hnika til staðsetningu?  Verður hægt að útfæra fyllingu með brú á milli?  Annað ófyrirséð?

- Hvaða áhrif hefur tillagan á skipaumferð í höfnina almennt?  Áhrif á stærri skip?  Áhrif á umferð minni skipa og sportbáta?  Verður hægt að takmarka umferð með seinnitíma túlkun á friðlýsingarlögum?  Annað ófyrirséð?

- Hvaða áhrif hefur tillagan á nýtingu lóða á hafnarsvæðinu?  Verða takmarkanir á starfsemi lóðarhafa?  Hvað með OK Hull?  Eða aðra?  Annað ófyrirséð?

- Hvaða áhrif hefur tillagan á tekjumöguleika Kópavogshafna?  Fram hafa komið hugmyndir um aukna nýtingu hafnarinnnar til sport- og tómstundaiðkana,  t.d. einmitt vestan megin við höfnina Kópavogsmegin.  Myndi tillagan slá það allt út af borðinu?

- Hvaða áhrif hefur tillagan á framtíðarvegtengingu Kársnessins við Vatnsmýrina?  Hvað með tengingu Vatnsmýrarinnar við Álftanes og áfram alla leið til Straumsvíkur?  Væri það umhugsunarvert, til framtíðar litið, að leysa þannig úr framtíðarverkefni umferðarmála á höfuðborgarsvæðinu, frekar en að ryðja nýjum brautum leið í gegnum þétta byggð? Útilokar tillagan tækifæri framtíðarinnar sem enginn veit hver eru núna?

Því leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins það til að markmiðum þeirrar friðunar sem tillagan felur í sér verði náð með því að fara leið óbreytts ástands í Friðlýsingu Skerjafjarðar og Bæjarvernd verði nýtt til að skapa friðun og athafnasvæði fyrir lífríki.

Jón Daði Ólafsson, Evert Kr. Evertsson"

 

 

 

2.1007115 - Sjávarútvegssýningin 2011

Formaður þakkar öllum þeim sem komu að kynningu Kópavogshafna á sýningunni.

3.1110195 - Flugferlar yfir Kársnesi

Lagt fram.  Rætt.  Frestað.

4.1103073 - Kársneshöfn. Athafnasvæði. Breytt deiliskipulag.

Hafnarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti breytt deiliskipulag Kópavogshafnar.

Samþykkt samhljóða.

5.1109046 - Breytingar á rammareglugerð fyrir hafnir

Formaður lagði fram breytta reglugerð fyrir Kópavogshafnir, gerð og yfirfarin af bæjarlögmanni.

Samþykkt samhljóða.  Bæjarlögmanni falið að birta hina nýju reglugerð í Stjórnartíðindum.

6.1109070 - Gerlamælingar. Umhverfisvöktun á vatni og sjó

Lagt fram.

Næsti fundur 29. nóvember.

Fundi slitið - kl. 18:00.