- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Námskeið fyrir börn og fjölskyldur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
Mikil áhersla er lögð á umhverfismál í Kópavogi og sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi við ákvarðanatökur, framkvæmdir, rekstur, innkaup og aðra starfsemi á vegum bæjarins. Hugað er að fjölbreyttum þörfum við uppbyggingu innviða sveitarfélagsins og lögð er áhersla á að bjóða íbúum sveitarfélagsins upp á vistvænar samgöngur. Einnig er unnið að umhverfisvænni sorphirðu við undirbúning að samræmingu úrgangsflokkunar á höfuðborgarsvæðinu.
Stefnuáherslur úr nýrri stefnu umhverfissviðs eru:
Í upphafi síðasta kjörtímabils var ráðist í vinnu við endurskoðun á aðalskipulagi Kópavogsbæjar og voru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun höfð í fyrirrúmi við þá endurskoðun með hliðsjón af heildarstefnu bæjarins.
Haldnar voru vinnustofur með ýmsum innri og ytri hagsmunaaðilum bæjarins og framkvæmd mikilvægisgreining til að aðlaga aðalskipulag að Heimsmarkmiðunum. Aðalskipulag Kópavogs 2019-2040 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 28. september 2021 og staðfest þann 28. desember 2021.
Lögð er áhersla á að bjóða íbúum sveitarfélagsins upp á fjölbreyttar og vistvænar samgöngur. Dregið verði úr aukningu bílaumferðar, til dæmis með uppbyggingu innviða hvað varðar vistvæna ferðamáta og með bættu stígakerfi sem leiðir til fjölgunar notenda stígakerfis. Við endurnýjun farartækja bæjarins skal velja vistvænar leiðir og kanna möguleika á léttari farartækjum í stað bíla s.s. rafmagnshlaupahjóla, vespa eða rafmagnshjóla.
Kópavogsbær tekur þátt í verkefni um uppbyggingu Borgarlínu í samstarfi við ríki og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu: Garðabæ, Hafnarfjörð, Mosfellsbæ, Reykjavík, Seltjarnarnes og Kjósarhrepp. Um er að ræða tímamótasamkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára. Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.
Í meðfylgjandi töflum er að finna mælingar úr meðal annars ISO 37120 og ISO 37122 stöðlunum auk innanhúss mælinga:
Mælikvarði | 2018 | 2019 |
19.3 Hlutfall þeirra sem ferðast til vinnu með öðrum ferðamáta en sem ökumaður einkabíls | 20,58% | 16,69% |
19.3 Hlutfall skráðra ökutækja sem eru vistvæn (í sveitarfélaginu í heild sinni) | 7,31% | - |
19.14 Hlutfall strætisvagnaflota sem er vistvænn | 9,26% | - |
Stefnt er að því að nýframkvæmdir á vegum Kópavogsbæjar muni í framtíðinni uppfylla kröfur umhverfisvottunar. Við skipulag nýrra og eldri byggða eru umhverfismál og sjálfbærni höfð að leiðarljósi. Í takt við stefnu umhverfissviðs verður eftirlit með eignum Kópavogsbæjar aukið og markvissri áætlun um ástandsskoðun verður framfylgt.
Líkur eru á því að nýr Kársnesskóli verði fyrsta skólabygging landsins sem fær Svansvottun. Framkvæmdum á að ljúka eftir tæp þrjú ár. Gert er ráð fyrir að skólinn verði tæpir sex þúsund fermetrar. Upphaflega stóð til að reisa hefðbundið steypt hús, en eftir að forhönnun lauk kom fram tillaga um að byggja skólann úr timbureiningum og að hann yrði Svansvottaður fyrstur íslenskra skóla.
Mynd/Batteríið
Kópavogsbær tók þátt í þjóðarátaki um söfnun og sáningu birkifræja sem Landgræðslan og Skógræktin stóðu fyrir haustið 2020. Er það í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda á þessu sviði og Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa. Átakið tókst vel og alls söfnuðust um 275 kg af fræi. Almenningi var boðið að taka þátt í skipulögðum dögum í Selfjalli þar sem fræi var dreift undir leiðsögn starfsmanna Kópavogsbæjar og skógræktarfélagsins. Þar mættu um 90 manns til að taka þátt í tveimur skipulögðum dögum og kom talsvert af börnum til að taka þátt með foreldrum sínum. Síðastliðið vor lauk sáningu á þeim fræjum sem fóru í Selfjall.
Kópavogur vill auka gróðursetningu og skógrækt sem stuðlar að kolefnisbindingu með samstarfi við félagasamtök um gróðursetningu og skógrækt. Haldið er utan um fjölda gróðursettra trjáa, runna og græðlinga.
Mynd/Sigríður Rut Marrow
Markmið Kópavogsbæjar er að nýta orku á hagkvæman hátt og draga úr notkun hennar eins og mögulegt er. Fyrirtæki, íbúar og starfsfólk Kópavogs er hvatt til orkusparandi umgengni bæði hvað varðar raforku og hitaveitu. Við endurnýjun stærri tækja Kópavogs verði hugað að orkusparandi tækjum.
Vel er fylgst með orkunotkun í stofnunum sveitafélagsins til þess m.a. að lækka rekstrarkostnað bæjarins ásamt því að stuðla að umhverfisvænna sveitarfélagi. Leitast hefur verið við að minnka orkunotkun í stofnunum bæjarins, meðal annars með því að skipta út hefðbundinni lýsingu fyrir LED lýsingu.
Mælikvarði | 2019 | 2020 |
Eldsneytisnotkun (bensín) ökutækja hjá stofnunum Kópavogs (l) | 25.020 l | 21.909 l |
Eldsneytisnotkun (dísill) ökutækja hjá stofnunum Kópavogs (l) | 44.776 l | 46.826 l |
Mælikvarði | 2019 | 2020 |
7.5 Heildarorkunotkun opinberra bygginga á ári (GJ/m2) | 1.9 GJ/m2 | 2.09 GJ/m2 |
7.6 Rafmagnsnotkun götulýsingar á hvern kílómetra af upplýstri götu (kWst/ári) | 18.083,53 kWst/km á ári | 16.252,1 kWst/km á ári |
Kópavogsbær stefnir að því að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Íbúar, fyrirtæki og hagsmunaaðilar innan bæjarfélagsins eru hvött til að vinna að umhverfismálum, lágmarka úrgang, draga úr losun og stuðla að umhverfisvænum lífsháttum. Allar aðgerðir hafa áhrif á framgang sveitarfélagsins við að ná loftslagsmarkmiðum sínum.
Kópavogsbær hefur reiknað út losun gróðurhúsalofttegunda við starfsemi sveitarfélagsins í þáttum sem losunarreiknir Umhverfisstofnunnar tekur til. Losunarreiknirinn reiknar losun CO2 ígilda í tonnum út frá losunarstuðlum sem Umhverfisstofnun gefur út. Losun er reiknuð út frá brennslu jarðefnaeldsneytis, rafmagnsnotkunar, flugferða starfsfólks innanlands og utan, meðhöndlunar úrgangs, flutningstapa raforku og framleiðslu og flutningar á jarðefnaeldsneyti. Í fyrsta fasa eru flutningar aðkeypts varnings, ferðir starfsfólks til og frá vinnu og áburðarnotkun á opnum svæðum ekki tekin með í reikninn. Frekari upplýsingar má nálgast á https://loftslagsstefna.is/sveitarfelog/losunarbokhald/.
Í töflunum hér fyrir neðan má sjá sundurliðun losunar á starfsemi bæjarins.
2019 | Losun (t) | % af heild |
Akstur | 178,0 | 1,46% |
Orka | 128,8 | 1,06% |
Flug | 58,7 | 0,48% |
Úrgangur | 11.822,5 | 97,0% |
Heild | 12.188,1 | 100% |
2020 | Losun (t) | % af heild |
Akstur | 178,6 | 1,43% |
Orka | 117,2 | 0,94% |
Flug | 5,5 | 0,04% |
Úrgangur | 12.202,2 | 97,59% |
Heild | 12.503,4 | 100% |
Við greiningu á úrgangsstjórnunarkerfum og flokkun sorps á höfuðborgarsvæðinu á vegum SSH var horft til þeirra laga og reglugerða sem snúa að úrgangsmálum. Einnig var horft til þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á mismunandi úrgangsstjórnunarkerfum um alla Evrópu auk reynslu innanlands. Eftir árið 2023 verður skylt að sérsafna lífrænum úrgangi.
Samræming sorphirðukerfis á höfuðborgarsvæðinu er framfaraskref sem mun skipta miklu máli í baráttunni gegn loftslagsvánni og fyrir innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Sveitarfélög sem eru aðilar að SSH hafa samþykkt að taka upp fjögurra tunnu kerfi sem þýðir að söfnun fer fram heim að dyrum fyrir pappírs- og pappaúrgang, plast, lífrænan úrgang og blandaðan úrgang við hvert heimili. Innleiðing þessa kerfis hefst vorið 2022. Skýrsla SSH.
Á meðal þeirra áskorana sem Kópavogur stendur frammi fyrir við innleiðingu Heimsmarkmiðanna samkvæmt skýrslu OECD er að huga að ábyrgri neyslu og magni úrgangs í samræmi við Heimsmarkmið 12. Það er einnig mikil áskorun fyrir aðrar Evrópuþjóðir.
Úrgangur sveitarfélagsins á hvern íbúa var 595 kg árið 2019 sem er töluvert hærra en meðaltal innan OECD landanna sem var 411 kg á mann það ár. Hér fyrir neðan má sjá tvær mælingar úr ISO 37120 staðlinum. Mæling 16.2 mælir heildarmagn úrgangs í sveitarfélaginu á mann og mæling 16.3 mælir hlutfall úrgangs sem er endurunninn. Einnig má sjá heildarmagn úrgangs frá stofnunum Kópavogs í neðsta grafinu.
Heildarmagn úrgangs í sveitarfélaginu á mann má skoða í samhengi við stöðu landa í gagnagrunni OECD. Á línuritinu hér að neðan má sjá að staðan í Kópavogi er sambærileg og ívið betri en á Íslandi í heild sinni. Einnig má sjá að heildarmagn úrgangs á mann á Íslandi og í Kópavogi er lægra en í Danmörku síðustu ár. Samanborið við Japan er þó úrgangsmagn á mann tvöfalt hærra í Kópavogi en þar.
Kópavogur er vel yfir meðaltali OECD árið 2020 og bæði á Íslandi og í Kópavogi er þróunin sú að úrgangsmagn er að aukast.
Kópavogsbær safnar gögnum þar sem fylgst er með því hversu mikið af sorpi frá sveitarfélaginu, bæði stofnunum, fyrirtækjum og heimilum, er endurunnið.
Takk fyrir! Ábending þín er móttekin