22.04.2025 kl. - Bókasafn Kópavogs
Umhverfis ofurhetjan er vitundarvakningarverkefni sem er samstarfsverkefni Bókasafns Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs þar sem börn geta leyst fimm umhverfistengd verkefni og að því loknu fá þau afhent viðurkenningar skjal um að þau séu umhverfis ofurhetjur.
Einnig fá þau fræ í verðlaun sem þau geta gróðursett heima. Verkefnið mun svo standa fram á haust.
Hægt er að velja 5 af eftirfarandi atriðum, sum þeirra eru verkefni sem öll fjölskyldan vinnur saman, og sum eru árstíðarbundin.
Þegar barnið hefur klárað 5 verkefni getur það komið á safnið og fengið skjalið og verðlaunin afhent annað hvort í barnadeild eða hjá starfsmanni náttúrufræðistofu:
Taka bók á bókasafninu um náttúruna og náttúruvísindi t.d. dýr, gróður, himingeiminn og lesa heima eða fá einhvern til að lesa fyrir sig.
Skoða vandlega náttúrufræðisýninguna í Náttúrufræðistofu Kópavogs.
Fara með einhverjum fullorðnum á endurvinnslustöð eða í grenndargám með flokkað rusl og efni.
Plokka, fara með einhverjum fullorðnum og týna upp rusl úr náttúrunni. (Athuga að vera með hanska, og fara varlega og rólega í verkefnið og ræða fyrir fram um að passa sig að taka ekki upp neitt oddhvasst eins og nálar og glerbrot).
Fá fjölskylduna sína til að elda eina máltíð úr frystinum.
Borða afganga.
Fá fjölskylduna til að elda eina grænmetismáltíð (kjöt og fiskvinnsla skilur eftir sig stórt kolefnisfótspor, og það að borða einu sinni í viku grænmetismáltíð er mjög gott fyrir umhverfið)
Velja að gefa fremur upplifun eða notaða gjöf í afmælis- eða tækifærisgjöf. Taka virkan þátt í hringrásarhagkerfinu, gefa, selja eða kaupa notaða hluti frekar en nýja.
Labba einu sinni eitthvert sem þið farið venjulega á bíl.
Búa til pödduhótel í garðinum.
Leyfa túnfíflunum að vera í garðinum (ekki tína þá, ekki slá þá) en þeir eru nauðsynleg næring fyrir fyrstu skordýrin á vorin.
Planta birkitré (birki er eina skógmyndandi tegundin í íslensku flórunni og birkiskógar eru fjölbreytt vistkerfi þar sem fjöldi lífvera lifir í samlífi hver við aðra.)
Umhverfisverkefni að eigin vali
03.05.2025 kl. 13:00 - Salurinn
Eitt ár síðan ég sá ykkur 10 sinnum í Salnum og síðan þá hef ég droppað Elli Egils, Steik og Sushi, Til i allt 3 og ég veit ekki hvað og hvað
Ég hlakka til að taka á móti öllum kynslóðum
3. og 4. maí í Salnum
Tónleikarnir eru styrktir af 66 Norður
EKKERT ALDURSTAKMARK
28.05.2025 kl. 08:00 - Bókasafn Kópavogs
Hefur þú fengið leið á blómunum í stofunni? Vantar þig nýja plöntu í eldhúsið?
Komdu með pottaplöntu(r), blóm og/eða afleggjara á aðalsafn og sjáðu hvort þú finnir eitthvað spennandi í staðinn. Inni-og útiblóm velkomin.
Plöntuskiptamarkaðurinn verður uppi miðvikudaginn 28. maí til miðvikudagsins 4. júní. Laugardaginn 31. maí verður Garðyrkjufélag Íslands einnig með plöntuskiptidag fyrir utan safnið.
29.05.2025 kl. 20:00 - Gerðarsafn
Verið velkomin á leiðsögn sýningarstjóra um sýninguna Barböru á verkum Barböru Árnason með sýningarstjórunum Brynju Sveinsdóttur og Hallgerði Hallgrímsdóttur fimmtudaginn 29. maí kl. 20:00. Frítt inn í tilefni af Fimmtudeginum langa.
Barbara Árnason spratt upp úr einu myndlistarumhverfi og skaut rótum í öðru. Hún var fædd í Hampshire í Suður Englandi árið 1911 og ólst upp í samfélagi sem hafði mótast af hraðri nútímavæðingu með þéttbýlismyndun, tækniframförum og uppbyggingu iðnaðarborga. Þar sem hreyfingar á borð við Lista-og handverkshreyfinguna (e. Arts and Crafts Movement) spruttu upp sem andsvar við iðnvæðingu með áherslu á upphafningu handverks og endurmótun listar og hönnunar. Þar sem þungi iðnvædds samfélags mætti ríkulegri menningarsögu. Samfélagi sem, þrátt fyrir iðnað og þunga nútímans, bjó yfir sterkri listhefð þar sem skreytilist, myndlist og hönnun voru sjálfsagður hluti af hversdagslífi fólks.
Barbara stundaði listnám við Winchester School of Art og framhaldsnám við Royal College of Art í London þar sem hún sérhæfði sig í hönnun, málmristu og tréstungu. Í kjölfar námsins markaði hún sér stöðu innan grafíklistar í Englandi, hóf að myndskreyta bækur og kenndi samhliða því. Sumarið 1936 steig Barbara í fyrsta sinn fæti á íslenska grund. Hún hafði þá nýverið lokið við að myndskreytabók um fornsögur Íslands, sem vakti áhuga hennar á landi og sögu. Listakonan ferðaðist um landið á meðan á dvöl hennar stóð og festi hér óvænt rætur þegar hún kynntist listamanninum Magnúsi Á. Árnasyni.
Barbara Árnason var fjölhæfur listamaður sem hafði gríðarleg tök á tæknilegum útfærslum í þá ólíku miðla sem hún tók sér fyrir hendur. Hún þróaði nálgun sína og listræna könnun eftir eigin áherslum og skóp sér farveg innan myndlistar með tilraunum í miðla á borð viðgrafík, textíl, bókateikningar og viðarverk. Miðla sem stóðu á mörkum þess sem taldist klassísk myndlist en voru nátengdir hinu daglega lífi, bæði í almannarými og inni á heimilinu. Þessi nálgun hennar vísar samtímis í hina ensku hefð fyrir vel unnu handverki og skreytilist og hinn íslenska sjónlistaarf sem finna má á útskornum rúmbríkum og listvefnaði fyrri alda sem sýndu gjarnan senur úrþekktum sögum. Með þróun verka hennar flæddi nálgunin, aðferð¬irnar og fagurfræðin en kjarninn var þó í því daglega, nálæga og fíngerða þar sem hún tókst á við sífellt nýja miðla af forvitni og færni. Líkt og Barbara sjálf orðaði það í viðtali við tímaritið 65° árið 1969: „Það er algjörlega nauðsynlegt fyrir listamann að verafullkomlega frjáls til að kanna nýjar brautir.
Ljósmynd: Sigríður Marrow.
29.05.2025 kl. 18:00 - Gerðarsafn
Í þessari spennandi ungmennasmiðju á fimmtudeginum langa í Gerðarsafni fá þátttakendur tækifæri til að umbreyta flíkum í samræmi við hefðir Asante fólksins í Ghana.
Adinkra táknin eiga sér langa sögu innan ganískrar menningar. Þau eru oft notuð til að skreyta hluti eins og skartgripi, leirmuni og fatnað en hvert tákn ber sína merkingu.
HVAÐ Á AÐ KOMA MEÐ:Komdu með eigin flík, til dæmis langerma eða stuttermabol, til að skreyta með Adinkra táknum að eigin vali! Allt annað efni verður á staðnum. Flíkin má vera alls konar á litinn.
NÁNARI UPPLÝSINGAR:-Smiðjan er fyrir ungmenni en öll eru velkomin á meðan húsrúm leyfir.-Engrar reynslu krafist.-Kíktu við hvenær sem er á milli 18 - 20 og vertu eins lengi og þú vilt.-Smiðjan fer fram á ensku og íslensku-Aðgangur ókeypis og öll hjartanlega velkomin!
LEIÐBEINENDURAhmed Fuseini er listamaður frá Gana sem er búsettur á Íslandi þar sem hann stundar mastersnám í alþjóðlegum fræðum við Háskóla Íslands. Hann hlaut þjálfun í Adinkra list frá unga aldri.
Anne Rombach er þýsk listakona sem býr og starfar á Íslandi. Anne lærði ljósmyndun í Listaháskólanum í Leipzig og útskrifaðist með MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands þar sem hún stundar nú nám í Listir og Velferð.
---
Smiðjan er liður í viðburðaröðinni Together sem er skipulögð af Menningarhúsunum í Kópavogi í samstarfi við GETU – hjálparsamtök. Markmiðið er að stuðla að gagnkvæmum skilningi menningarheima og að vera samskipta- og sköpunarvettvangur fyrir fólk úr ólíkum áttum.
Viðburðurinn er styrktur af Barnamenningarsjóði og Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.
30.05.2025 kl. 11:00 - Bókasafn Kópavogs
Get Together meet-ups will be held at the Library in Kópavogur, on the first floor in the Tilraunastofa - meeting room. The meet-ups are international meetings open to refugees, asylum-seekers, immigrants, and anyone seeking companionship. Whether you're a family or an individual, you're welcome to join us.
Each week, we gather and do relaxing activities like painting, weaving, crafting, and more. It's all about getting together, making new friends, and sharing stories in a warm, supportive space.Get Together meet-ups are a collaboration between GETA aid organization and the Library in Kópavogur.We offer free coffee and treats for everyone!
These meet ups are a part of the project The library in a multilingual society sponsored by Nordplus and Bókasafnasjóður.
Get Together heldur alþjóðlegan fjölskyldu- og vinahitting á Bókasafni Kópavogs, á fyrstu hæð í Tilraunastofunni. Þetta er alþjóðlegur hittingur fyrir flóttafólk, hælisleitendur, innflytjendur og öll sem vilja félagsskap.Viðburðurinn er bæði fyrir fjölskyldur og einstaklinga.
Í hverri viku munum við hittast og gera eitthvað skemmtilegt saman eins og að mála, prjóna, föndra o.fl. Í Get together hittum við nýja vini og deilum sögum okkar í þægilegu og öruggu umhverfi.
Get Together er samstarfsverkefni milli GETA hjálparsamtök og Bókasafn Kópavogs.
Við munum bjóða upp á kaffi og með því!
Þessi viðburður er hluti af verkefninu Bókasafnið í fjölþjóðlegu umhverfi sem er styrkt af Nordplus og Bókasafnasjóði.
30.05.2025 kl. 18:00 - Salurinn
Veistu allt um Hamilton? Sérfræðingur í Book of Mormon? Lékstu í Litlu Hryllingsbúðinni sem barn?
Sviðslistakórinn Viðlag blæs til söngleikjabarsvars í Salnum, þar sem kórinn kannar söngleikjavisku þátttakenda — og gerir það í söng!
Ókeypis aðgangur á meðan húsrúm leyfir.
Aðgengi:Barsvarið fer fram í forrými Salarins, sem er aðgengilegt, bæði með lyftu frá aðalinngangi og beint að utan.
31.05.2025 kl. 20:30 - Salurinn
Útgáfutónleikar Halla Gudmunds og Club Cubano á plötunni ´Live at Mengi´ í Salnum Kópavogi 31. maí
Tón-og textahöfundurinn Halli Guðmundsson kynnir elleftu plötu sína með nýrri hljómsveit, Club Cubano. Hljómplatan var tekin upp á tónleikum í Mengi fyrir framan fullu húsi áhorfenda. Eftir síðustu plötu sína ´Tango for one´ þar sem Halli teigði sig niður til Brasilíu í tónsköpun sinni og kynnti fyrir okkur bossanova lagasmíðar, var stefnan tekin á Suður Ameríska tónlist og enn er hann þar.
Með Club Cubano ´Live at Mengi´eru lagasmíðar hans undir sterkum kólumbískum og kúbönskum áhrifum. Club Cubano er skipað nokkrum af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar, en þeir eru: Hilmar Jensson raf gítar, Jóel Pálsson tenor/sópran saxofónn, Daníel Helgason tres gítar og orgel, en hann er einnig pródúsent verkefnissins, Matthías Hemstock trommusett og Kristofer Rodriguez Svönuson á slagverk, ásamt Halla á rafbassa.
---------
Club. Cubano is Halli Gudmunds' new Latin sextette, put together in 2024 specifically to record his new album "Live at Mengi", where the sextette recorded 11 new tracks composed by Halli Gudmunds in a concert.
Halli has been known to put together projects of high musicality and Club Cubano is one of those, with Hilmar Jenssonnon on guitar, Jóel Pálsson on tenor and sopran saxophone, Daníel Helgason on tres guitar and organ, Matthías Hemstock on drums and Kristofer Rodriguez Svönuson on congas, and here, Halli the conposer plays electric bass for the first time on record since 2016.
The songs are inspired by Cuban and Colombian music traditions: salsa, cumbia with its dancibg feel and heartfelt boleros.
Club Cubano will present their new album "Live at Mengi" in Salurinn Kòpavogi on the 31st of May.
31.05.2025 kl. 12:00 - Bókasafn Kópavogs
Árlegur plöntuskiptidagur Garðyrkjufélags Íslands fer fram við aðalsafn laugardaginn 31. maí kl. 12-14.
Komdu með pottaplöntur og afleggjara, inniblóm og útiblóm, stór og smá og taktu plöntu með þér heim í staðinn. Allt grænt og vænt velkomið!
01.06.2025 kl. 13:30 - Salurinn
Sif Margrét Tulinius fiðluleikari og Richard Simm píanóleikari hafa starfað um árabil sem einleikarar og tekið þátt í flutningi á kammertónlist bæði hér á Íslandi sem og erlendis. Þau stilla nú sína strengi saman í þessari stórbrotnu efnisskrá með verkum eftir César Franck og Ludwig van Beethoven. Ludwig van Beethoven (1770 - 1827)Rómansa fyrir fiðlu og píanó (úts. Richard Simm)César Franck (1822 - 1890)Sónata fyrir fiðlu og píanóI. Allegretto ben moderatoII. AllegroIII. Recitativo -Fantasia. Ben moderato - Molto lentoIV. Allegretto poco mossoLudwig van BeethovenKreutzer-sónatan, sónata nr. 9 fyrir píanó og fiðluI. Adagatio sostenuto - PrestoII. Andante con variazioniIII. Finale. Presto Fiðlusónata César Franck er á meðal vinsælustu verka sem samin hafa verið fyrir þessa hljóðfæraskipun, hádramatísk og ótrúlega áhrifamikil en verkið gerir miklar kröfur til beggja hljóðfæraleikara. Belgíska tónskáldið César Franck samdi hana fyrir samlanda sinn, fiðlusnillinginn Eugène Ysaÿe sem frumflutti árið 1886 ásamt píanóleikaranum Marie-Léontine Bordes-Pène.Kreutzer-sónatan var frumflutt árið 1803 af fiðluleikaranum George Bridgetower og Beethoven sjálfum. Síðar átti Beethoven eftir að tileinka sónötuna Rodolhpe Kreutzer sem var á meðal fremstu fiðluleikara Evrópu í upphafi 19. aldar. Líkt og sónata Franck býr Kreutzer-sónatan yfir ótrúlegum áhrifamætti og djúpri fegurð en verkið tekur um 40 mínútur í flutningi þar sem bæði hljóðfærin skipa gríðarstóran sess.
Á undan tónleikunum, kl. 13, verður boðið upp á tónleikaspjall í fordyri Salarins þar sem skyggnst verður inn í efnisskrá dagsins.
Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Salarins og FÍT-klassískrar deildar FÍH.
Sif Margrét Tulinius fiðluleikari hefur verið atkvæðamikil í íslensku tónlistarlífi um árabil. Að einleikaraprófi loknu vorið 1991 hlaut hún Fulbright styrk til frekara náms í Bandaríkunum þaðan sem hún lauk meistaranámi sínu frá New York í samstarfsverkefni milli Juilliard tónlistarháskólans og Stony Brook háskólans. Hún fluttist þá til Evópu og lék þar ásamt ýmsum tónlistarhópum á fjölmörgum tónlistarhátíðum víðs vegar um heiminn.
Haustið 2000 var Sif Margrét ráðin til starfa í stöðu 2. konsertmeistara við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún gegndi því starfi allt til ársins 2016 er hún fluttist til Berlínar þar sem hún bjó um nokkurra ára skeið og lék ásamt fjölmörgum virtum tónlistarhópum m.a. Berliner Philharmoniker. Sif hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands m.a. í flutningi á fiðlukonsert Gubaidulina, Fylgjum Þorkels Sigurbjörnssonar og Partitu eftir Lutoslawski.
Sif kemur reglulega fram á kammertónleikum og hefur bæði sjálfstætt og ásamt öðrum tekið virkan þátt í flutningi nútímatónlistar. Einleiksdiskur hennar De Lumine kom út í nóvember síðastliðnum og innheldur hann nýlegar hljóðritanir af þremur nýjum íslenskum einleiksverkum fyrir fiðlu. Flutningur Sifjar Margrétar á De Lumine hefur hlotið lof gagnrýnenda bæði íslenskra og erlendra tónlistartímarita og var De Lumine valinn geisladiskur ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum í mars 2025.
Richard Simm er fæddur í Newcastle á Englandi og hefur verið búsettur á Íslandi um langa hríð. Hann nam við Royal College of Music í London hjá Bernard Roberts og við Staatliche Hochschule für Musik í München hjá Erik Then-Bergh. Hann vann til fjölmargra verðlauna á námsárum sínum, fékk þar á meðal tvenn verðlaun fyrir túlkun sína á verkum Chopin. Richard hefur haldið tónleika í Wigmore Hall og Purcell Room í London og hefur auk þess komið fram á ótal tónleikum í Þýskalandi, Bandaríkjunum og á Íslandi, þar sem einleik hans hefur verið lýst sem einu af best geymdu leyndarmálum landsins.
02.06.2025 kl. 14:00 - Bókasafn Kópavogs
Ertu byrjandi eða með áralanga reynslu af bróderíi? Viltu kannski rifja upp gamla takta og hitta aðra sem deila sama áhuga?
Þá gæti Bróderíklúbburinn hentað fyrir þig.
Bróderíklúbburinn hittist á mánudögum á Lindasafni í Núpalind 7 kl. 14:00.
Öll velkomin og heitt á könnunni.
03.06.2025 kl. 10:00 - Bókasafn Kópavogs
Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman hittist alla þriðjudaga á 2. hæð aðalsafns kl. 10. Heitt á könnunni og öll velkomin!
Nánari upplýsingar veitir Gréta Björg Ólafsdóttir, gretabjorg@kopavogur.is
Fylgist með í Facebook-hópnum Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman | Bókasafn Kópavogs